Rannsaka bruna í tveimur strætisvögnum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar eldsvoða á geymslusvæði Strætó á Hesthálsi í Reykjavík í fyrrinótt, en þar brunnu tveir strætisvagnar. Tilkynning um málið barst lögreglu klukkan 2.20, en grunur leikur á að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum. Lögreglan biður alla þá sem geta veitt upplýsingar um málið, um hugsanlegar mannaferðir eða ökutæki á ferð nálægt vettvangi o.s.frv., að hafa samband í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eða í tölvupósti á netfangið einar.asbjornsson@lrh.is

Starfshópur til að draga úr notkun plastpoka

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað starfshóp sem hefur það hlutverk að móta tillögur að aðgerðum um hvernig draga megi úr notkun plastpoka. Hópurinn mun í starfi sínu horfa til þingsályktunar Alþingis frá júlí sl. um að draga úr plastpokanotkun, breytinga á EES-samningnum vegna plastpokanotkunar og tillögu Umhverfisstofnunar um hvernig draga megi úr plastpokanotkun hér á landi.

Áætlað er að árlega noti Íslendingar um 70 milljónir plastpoka sem jafngildir rúmlega 200 plastpokum á mann. Starfshópurinn skal hafa að markmiði að dregið verði úr notkun burðarplastpoka í áföngum þannig að þeir verði 90 plastpokar á einstakling fyrir árslok 2019 og 40 plastpokar fyrir árslok 2025.

Hópurinn skal jafnframt leggja mat á hvort og þá hvaða stjórntæki gætu gagnast við að ná markmiðinu, s.s. notkun hagrænna hvata til grænnar nýsköpunar í plastiðnaði , skattlagning plastpoka, bann við notkun plastpoka að einhverju eða öllu leyti, niðurgreiðslur á umbúðum sem gætu komið í stað plastpoka, o.s.frv. Starfshópnum ber enn fremur að skoða hvað getur komið í staðinn fyrir plastpoka, aðgang almennings og atvinnulífs að leiðum sem geta bætt hringrásakerfi sem og að meta hugsanleg kostnaðaráhrif þeirra aðgerða sem lagðar verða til.

Starfshópnum er ætlað að hafa samráð við haghafa, s.s. Neytendasamtökin, fulltrúa lágvöruverslana, fulltrúa gámaþjónustuaðila og sorpsamlaga.

Starfshópinn skipa:

 • Sigurbjörg Sæmundsdóttir, formaður, umhverfis- og auðlindaráðuneyti.
 • Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri SVÞ
 • Eygerður Margrétardóttir, deildarstjóri hjá Reykjavíkurborg
 • Baldur Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Odda
 • Hólmfríður Þorsteinsdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili skýrslu til ráðherra með tillögum að aðgerðum eigi síðar en 15. júní 2016.

10 teymi valin í Startup Tourism

Tíu teymi voru valin úr hópi 74 viðskiptahugmynda til að taka þátt í viðskiptahraðlinum Startup Tourism sem hefst í byrjun febrúar. Startup Tourism hraðallinn er haldinn á vegum Icelandic Startups sem hét áður Klak Innovit.

Markmiðið með hraðlinum er að efla frumkvöðlastarf innan ferðaþjónustunnar á Íslandi og stuðla að faglegri undirstöðu hjá nýjum fyrirtækjum. Einnig er sérstök áhersla á að huga að aukinni dreifingu ferðamanna um landið.

Næstu tíu vikurnar munu teymin tíu sækja námskeið og fá fræðslu og þjálfun í stofnun fyrirtækja og rekstri. Að námskeiðunum koma sérfræðingar og lykilaðilar í ferðaþjónustunni og hjálpa sprotafyrirtækjunum að fóta sig og átta sig á tækifærum og rekstrargrundvelli hugmynda sinna.

 

Sprotafyrirtækin sem valin voru til þátttöku eru:

 • Adventurehorse Extreme sem ætlar að skipuleggja krefjandi kappreið um landið fyrir reynda knapa.
 • Arctic Trip vill standa fyrir nýstárlegri ferðaþjónustu á og í kringum Grímsey.
 • Bergrisi er að hanna hugbúnaðar- og tæknilausn fyrir þjónustusala svo gera meigi bæði sölu- og afgreiðsluferlið sjálfvirkara.
 • Book Iceland er fyrirtæki utan um bókunarkerfi fyrir gistiheimili og smærri hótel.
 • Happyworld ætlar að nýta rokið til að bjóða upp á svifíþróttaferðir.
 • Health and Wellness býður upp á heilsutengda ferðaþjónustu um Vesturland þar sem hlúð er að líkama og sál.
 • Jaðarmiðlun ætlar að kynna álfa og huldufólk á tímamótasýningu sem byggð er á íslenskum sagnaarfi.
 • Náttúrukúlur bjóða ferðamönnum upp á gistingu í glærum kúlum þar sem hægt er að upplifa náttúruna og skoða stjörnur og norðurljós.

Umhverfis jörðina frumsýnt í Þjóðleikhúsinu

Skáldsagan Umhverfis jörðina á 80 dögum eftir Jules Verne hefur notið gífurlegra vinsælda víða um heim allt frá því hún kom út árið 1873. Karl Ágúst og Siggi Sigurjóns hafa nú samið ævintýralegan, nýjan söngleik byggðan á verkinu með fjölda nýrra og skemmtilegra laga eftir Baldur Ragnarsson og Gunnar Ben úr Skálmöld. Frumsýning er 23. janúar kl. 13.00 á Stóra sviði Þjóðleikhússins.

Breski herramaðurinn Fílías Fogg veðjar um að hann geti ferðast í kringum hnöttinn á 80 dögum. Við sláumst í æsispennandi ferð með honum og Passepartout til framandi landa, siglum um öll heimsins höf og kynnumst þekktum – og minna þekktum – persónum úr mannkynssögunni. Fílías Fogg, sem í upphafi ferðar er uppfullur af hugmyndum um yfirburði breska heimsveldisins, lærir fjölmargt um lífið og tilveruna, og ekki síst um sjálfan sig. Og ástinni kynnist hann á óvæntum stað!

Umhverfis jörðina er sprellfjörugur, fyndinn og ævintýralegur nýr, íslenskur söngleikur fyrir alla fjölskylduna!

Leikarar eru Sigurður Sigurjónsson (Fílías Fogg), Örn Árnason (Passepartout), Karl Ágúst Úlfsson (Fix) og Ólafía Hrönn Jónsdóttir (Aúda og fleiri hlutverk). Baldur Ragnarsson og Gunnar Ben sjá um hljóðfæraleik og leika ýmis hlutverk. Jón Stefán Sigurðsson og Stella Björk Hilmarsdóttir sjá um sviðsskiptingar og leika ýmis hlutverk.

Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir, Högni Sigurþórsson gerir leikmynd, höfundur búninga er  Leila Arge og Ólafur Ágúst Stefánsson sér um lýsingu.

umhverfisjordina-728x513Heimild: leiklist.is

Skóflustunga að húsnæði fyrir jáendaskannann

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, tók  þann 12. janúar síðastliðinn fyrstu skóflustungu að húsnæði fyrir jáeindaskanna á spítalanum.  Íslensk erfðagreining færði íslensku þjóðinni skannann að gjöf sem og allan tilheyrandi tækjakost og sérhæft húsnæði undir hann. Verðmæti gjafarinnar er rúmar 840 milljónir króna.

Flókinn og umfangsmikill búnaður fylgir skannanum,  svo sem öreindahraðall sem framleiðir geislavirk efni sem leita í sjúka vefi líkamans. Jáeindaskanni er oftast notaður í krabbameinsmeðferðum en hann er einnig hægt að nýta í tauga-, hjarta- og gigtlækningum.

Húsnæðið verður byggt á Landspítala Hringbraut, aðlægt skyldri starfsemi til að ná sem mestri skilvirkni og þægindum fyrir sjúklinga. Gert er ráð fyrir að það verði tilbúið í september en þá verður skannanum og búnaði komið fyrir og hann prufukeyrður.

Áætlað er að jáeindaskanninn verði kominn í notkun um næstu áramót.

LSH29147-20x30

Hjartagátt Landspítala færðar gjafir

Hjartagátt Landspítala hafa verið færðar gjafir sem keyptar voru fyrir fé sem safnaðist með jólatónleikum í Fríkirkjunni 17. desember 2015.  Um 140 gestir mættu á tónleikana og söfnuðust um 340 þúsund krónur. Keypt voru m.a. þrjú 32″ sjónvörp, fimm útvarpstæki ásamt heyrnartólum, örbylgjuofn, blandari, eggjasuðutæki, vöfflujárn og fleira.

Það er fastur liður í tónleikaröðinni Á ljúfum nótum í Fríkirkjunni að halda styrktartónleika í desember. Að þessu sinni var ákveðið að styrkja Hjartagátt.  Á tónleikunum komu fram um 30 flytjendur.  Einsöngvarar voru Sigrún Hjálmtýsdóttir, Valgerður Guðnadóttir og Einar Clausen. Með þeim voru kvennakórinn Heklurnar og sjö manna hljómsveit.

IMG_3218

Könnun á öryggi barna í bílum við leikskóla

Slysavarnafélagið Landsbjörg, Sjóvá, VÍS og Samgöngustofa gerðu haustið 2015 könnun á öryggi barna í bílum. Sambærilegar kannanir hafa verið gerðar undanfarin 30 ár en á
árunum 1985 til 2011 voru árlega gerðar kannanir en eftir 2011 hafa þær verið gerðar annað hvert ár. Það er rétt að skipta þessu tímabili í tvennt. Annarsvegar „umferðarkannanirnar“ sem gerðar voru á árunum 1985 til 1995 af Umferðarráði og lögreglunni en þær voru ekki framkvæmdar við leikskóla og hinsvegar „leikskólakannanir“ sem hafa verið framkvæmdar frá 1996 til dagsins í dag.

Laus börn í bílum voru 80% en eru nú 2%

Nú liggur fyrir niðurstaða könnunarinnar 2015 sem gerð var við 60 leikskóla í 25 bæjarfélögum víða um land með 2.236 þátttakendum. Félagar í slysavarnadeildum og björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar víða um land, starfsfólk tryggingafélaganna Sjóvár, VÍS og starfsfólk Samgöngustofu sáu að þessu sinni um framkvæmd könnunarinnar. Það vekur athygli að árið 1985 voru um 80% barna alveg laus í bílum en í dag er það hlutfall komið niður í 2%. Á þessum þremur áratugum hefur banaslysum meðal barna í umferðinni fækkað umtalsvert.

Meðaltal látinna barna í umferðinni fer úr 5,5 í 0,8

Á áratugnum 1964 til 1973 var meðaltal fjölda látinna barna 5,5 börn en áratuginn 2006 til 2015 er það komið niður í 0,8 börn. Það er því um umtalsverða fækkun slysa meðal barna í umferðinni að ræða á þessum 30 árum.

Mikill árangur með lagasetningu og aukinni vitund um öryggisbúnað
Lagasetning um notkun öryggisbúnaðar fyrir börn og aukin notkun þess búnaðar í kjölfar fræðslu og kynninga er stór áhrifavaldur í fækkun banaslysa meðal barna í bifreiðum. Fækkun slysa á börnum sem tilheyra öðrum vegfarendahópum má einnig, ásamt fleiri þáttum, þakka almennri fræðslu og þá ekki síst í grunn- og leikskólum.

Ef skoðað er tímabilið sem leikskólakönnunin hefur verið framkvæmd þ.e. frá 1996 sést að tilfellum þar sem enginn búnaður er notaður hefur fækkað mikið, nánar tiltekið úr 32% árið 1997 í 2% árið 2015. Árið 1990 var sett í lög að skylt væri að nota sérstakan öryggis- og verndarbúnað fyrir börn í bílum og jafnframt var komið á beltaskyldu fyrir öll sæti í bíl.

Þrátt fyrir jákvæða þróun er niðurstaðan ekki ásættanleg

Það er þó vitanlega ekki ásættanlegt að einhverjir skuli enn sleppa því að nota viðeigandi öryggisbúnað – búnað sem getur skilið milli lífs og dauða barns ef slys á sér stað. Að baki þessum 2% eru u.þ.b. 45 einstaklingar og það er því mikilvægt að niðurstöður þessarar könnunar séu kunngjörðar svo hægt sé að setja markið á enn betri og fullnægjandi árangur á komandi árum.

Fréttatikynninguna ásamt gröfum má sjá hér.

4.855.505 farþegar um Keflavíkurflugvöll árið 2015

Árið 2015 fóru 4.855.505 farþegar um Keflavíkurflugvöll, einni milljón fleiri en árið 2014. Fjöldinn hefur aldrei verið meiri og er um að ræða 25,5% aukningu frá fyrra ári. Skiptingin var þannig að 1.693.858 komu til landsins um flugvöllinn, 1.696.769 fóru frá landinu og 1.464.878 millilentu. Júlí var stærsti mánuður ársins með 662.750 farþega. Samkvæmt farþegaspá Isavia er gert ráð fyrir að 6,25 milljón farþegar fari um flugvöllinn árið 2016.

Öflug markaðssetning hefur skilað góðum árangri

Með öflugu markaðsstarfi hefur Isavia tekist að fjölga mjög ferðum og áfangastöðum erlendra flugfélaga og efla þannig samkeppni og auka ferðamöguleika Íslendinga. Þessi flugfélög hafa að mestu leyti komið inn utan háannatíma sólarhringsins og því hefur nýting flugvallarins aukist mjög með markaðsstarfi. Enn er þó mikill vannýttur tími utan háannatíma og vinnur félagið að því að dreifa enn betur álagi innan sólarhringsins.

16 þúsund fermetrar í byggingu

Nú er unnið að mestu stækkunum flugstöðvarinnar frá því hún var byggð árið 1987 auk þess sem leitað er allra leiða til að bæta nýtingu núverandi mannvirkja. Um þessar mundir eru 16 þúsund fermetrar í byggingu, þar af komast níu þúsund í gagnið á árinu 2016 og sjö þúsund til viðbótar árið 2017. Í þróunaráætlun flugvallarins er þá gert ráð fyrir að flugstöðin verði 140 þúsund fermetrar árið 2032, sem er ríflega tvöföldun á núverandi mannvirki.

Gæti tekið við 10 milljónum farþega með betri dreifingu innan dagsins

Mestu álagstímar sólarhringsins eru þeir tímar sem íslensku félögin Icelandair og WOW nota til þess að tengja Evrópu og Norður-Ameríku, en eins og áður sagði eru tímarnir á milli þessara álagspunkta vannýttir. Með betri nýtingu flugvallarins og aukningu á milli aðalálagstíma sólarhringsins gæti flugvöllurinn tekið við hátt í 10 milljónum farþega á ári hverju þegar framkvæmdunum sem nú standa yfir er lokið. Það liggja því mikil tækifæri fyrir Isavia, flugfélögin og Ísland í betri nýtingu núverandi mannvirkja á meðan unnið er að stækkunarframkvæmdum. Með betri dreifingu yfir daginn væri hægt að nýta flugvöllinn mun betur þangað til framkvæmdir hafa náð farþegaaukningunni.

Heimild: isavia.is

Hendum flugeldum í ruslið

Flugeldaleifar eru víða um borgina og eru íbúar og gestir hvattir til að henda þeim í ruslið svo þær grotni ekki niður þar sem skotið var upp í görðum, á götum eða opnum svæðum.

Megnið af flugeldaleifunum er plast, pappi, tré og leir, sem óhætt er að setja í almennt rusl.  Stærri kökur eru mögulega of fyrirferðarmiklar í heimilstunnunni og þær er hægt að fara með á endurvinnslustöðvar. Þeir sem skutu upp ættu að fara létt með að ganga frá eftir sig. Aðeins lítill hluti af hverjum skoteldi er púður, en ósprungnir skoteldar eiga af fara í spilliefnagáma á endurvinnslustöðvum Sorpu.
Starfsmenn hverfastöðva Reykjavíkurborgar hafa hreinsað upp við Hallgrímskirkju, á Landakotstúni og fleiri stöðum, en biðla til íbúa að taka ruslið í húsagötum og annars staðar þar sem skotið var upp.

Þrettándahátíðum frestað

Þeir sem standa fyrir þrettándabrennum í Reykjavík hafa ákveðið að fresta þeim til næstu helgar vegna veðurs. Dagskrá og aðrar tímasetningar eru óbreyttar.

Þrettándahátíð Vesturbæjar

Þrettándahátíð Vesturbæjar verður á laugardag 9. janúar kl. 18.00 við KR-heimilið með þeirri dagskrá sem áður var auglýst.
 • 18.00 Mæting við KR – heimilið
 • 18.30 Gengið niður að Ægisíðu
 • 18.30 Kveikt í brennu
 • 18.45 Flugeldasýning í samstarfi við KR- flugelda.

Þrettándagleði Grafarvogsbúa

Árlegri Þrettándagleði Grafarvogsbúa er frestað til laugardags 9. janúar og hefst hún kl. 17.15 við Hlöðuna hjá Gufunesbænum.
 • 17:15  Kakó– og kyndlasala í Hlöðunni. Skólahljómsveit Grafarvogs leikur létt lög
 • 17:50  Blysför frá Hlöðunni
 • 18:00  Kveikt í brennu, skemmtun á sviði
 • 18:30  Þrettándagleði lýkur með skot kökusýningu í boði frístundamiðstöðvar Gufunesbæjar

Þrettándabrenna í Grafarholti

Þrettándagleðin í Grafarholti verður einnig haldin laugardaginn 9. janúar og verður safnast  saman við Guðríðarkirkju upp úr klukkan 18:15
 • 18.15 Safnast saman við Guðríðarkirkju. Kyndlasala.
 • 18.45 Lagt af stað í skrúðgöngu niður í Leirdal
 • 19.15 Kveikt í brennunni  í Leirdal.  Jólasveinarnir mæta á svæðið og syngja með.  Veitingasala í Leirdalnum þar sem fólk getur fengið sér hressingu eftir gönguna.
 • 20.00 Flugeldasýning

Reykjavíkurborg tekur við Hlemmi

Reykjavíkurborg tók við rekstri á Hlemmi um áramótin og verður Hlemmur áfram opinn fyrir farþega strætó.  Matarmarkaður verður opnaður á Hlemmi næsta sumar og er undirbúningur í gangi. Farþegar strætó munu eins og aðrir njóta góðs af fjölbreyttri og nýrri þjónustu. Fjöldi aðila mun bjóða upp á mat sem hægt verður að neyta á staðnum eða taka með sér.
Búist er við að verklegar framkvæmdir til að undirbúa aðstöðu fyrir matarmarkaðinn hefjist í apríl og verða þær kynntar betur þegar nær dregur. Meðan framkvæmdir standa yfir verður hugað að aðstöðu fyrir farþega sem bíða.
Strætó sagði upp leigu sinni á Hlemmi og flytur farmiðasölu sína í verslun 10/11 að Laugavegi 116.
Hlemmur verður opinn mánudaga – föstudaga frá kl. 7.00 – 18.00, laugardaga 7.30 – 16.00 og sunnudaga kl. 9.30 – 16.00.

Breytingar á greiðslum fæðingarorlofssjóðs

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra hefur gefið út reglugerð nr. 1225/2015, um breytingu á reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks á árinu 2016.

Fjárhæðir ársins 2016 verða sem hér segir:

 • Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris skal aldrei nema hærri fjárhæð en 370.000 kr.
 • Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í 25-49% starfi hækkar úr 100.720 kr. í 110.490 kr.
 • Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í 50-100% starfi hækkar úr 139.591 kr. í 153.131. kr.
 • Mánaðarlegur fæðingarstyrkur til foreldris í fullu námi (75-100% nám) hækkar úr 139.591 kr. í 153.131 kr.
 • Mánaðarlegur fæðingarstyrkur til foreldris utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi hækkar úr 60.911 kr. í 66.819 kr.

Ellefu Íslendingar fengu fálkaorðuna

Við hátíðlega athöfn á Bessastöðum þann 1. janúar 2016, sæmdi forseti Íslands ellefu Íslendinga heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Þeir eru:
1. Björgólfur Jóhannsson forstjóri, Seltjarnarnesi, riddarakross fyrir  framlag til þróunar íslensks atvinnulífs.
2. Elísabet Ronaldsdóttir kvikmyndagerðarmaður, Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til íslenskrar og alþjóðlegrar kvikmyndagerðar.
3. Geirmundur Valtýsson tónlistarmaður, Sauðárkróki, riddarakross
fyrir framlag til íslenskrar tónlistar og heimabyggðar.
4. Guðrún Ása Grímsdóttir rannsóknarprófessor, Reykjavík,
riddarakross fyrir störf á vettvangi íslenskra fræða og menningar.
5. Helga Guðrún Guðjónsdóttir fyrrverandi formaður UMFÍ,
Kópavogi, riddarakross fyrir forystu störf á vettvangi íþrótta og
æskulýðsstarfs.
6. Hjörleifur Guttormsson fyrrverandi alþingismaður og ráðherra,
Reykjavík, riddarakross fyrir framlag til umhverfiserndar og
náttúrufræðslu og störf í opinbera þágu.
7. Hrafnhildur Schram listfræðingur, Reykjavík, riddarakross fyrir
störf í þágu íslenskrar myndlistar.
8. Hörður Kristinsson grasafræðingur, Akureyri, riddarakross fyrir
rannsóknir og kynningu á íslenskum gróðri.
9. Ólafur Ólafsson formaður Aspar, Reykjavík, riddarakross fyrir
störf að íþróttamálum fatlaðra.
10. Steinunn Kristjánsdóttir prófessor, Reykjavík, riddarakross fyrir
rannsóknir á sviði íslenskrar sögu og fornleifa.
11. Yrsa Sigurðardóttir rithöfundur, Seltjarnarnesi, riddarakross fyrir
framlag til íslenskra bókmennta.
e1f390b4304decf3