Aukatónleikar með Bieber staðfestir

Eins og flestir vita seldist upp á tónleika Justins Bieber í Kórnum 9. september 2016 á örskammri stundu. Það kom bersýnilega í ljós að umfram eftirspurnin eftir miðum var með miklum ólíkindum.

Sena hefur staðfest að aukatónleikar verða haldnir fimmtudaginn 8. september í Kórnum, Kópavogi.

Allt varðandi miðaverð og svæði er nákvæmlega eins og áður.

Miðasala hefst föstudaginn 8. janúar kl. 10 á Tix.is. Engar íslenskar forsölur verða að þessu sinni en forsala á vegum aðdáendaklúbbs Justins Bieber fer fram daginn áður, á sama hátt og áður.

Svona eru verðin og svæðin:

Standandi stæði:     15.990 kr
Stúka B:                    24.990 kr
Stúka A:                    29.990 kr

justinbieber

Bankarán í Landsbankanum í Borgartúni

Karl um tvítugt hefur játað aðild sína að vopnuðu ráni í útibúi Landsbankans í Borgartúni í Reykjavík í gær. Hann gaf sig fram í gærkvöld eftir myndbirtingar lögreglu og er nú haldi í hennar. Annar maður á sama aldri, sem var handtekinn í nótt, er jafnframt grunaður um aðild að ráninu. Mennirnir tveir hafa báðir áður komið við sögu hjá lögreglu. Yfirheyrslur standa nú yfir, en rannsókn málsins miðar vel. Búast má við að lögreglan leggi fram gæsluvarðhaldskröfu síðar í dag. Líkt og fram hefur komið barst tilkynning um ránið kl. 13.22 í gær, en ræningjarnir komust undan með óverulega fjármuni. Strax í kjölfarið hófst umfangsmikil leit lögreglu að mönnunum. Bíllinn, sem var notaður við ránið, fannst í Hlíðunum í Reykjavík, en hann reyndist stolinn. Síðar fannst hnífur og eftirlíking af skammbyssu sem lögregla telur að hafi verið notað við ránið. Lögreglan hefur lagt hald á hluta af ránsfengnum.

Þrír aðrir menn voru handteknir í þágu rannsóknarinnar í gær, en þeir eru ekki grunaðir um aðild að ráninu sjálfu. Við húsleit á heimili tveggja þeirra fundust fíkniefni sem lögreglan telur að hafi verið ætluð til sölu

Úr reglugerð um skotelda

Nú er ekki úr vegi að rifja upp nokkur mikilvæg atriði úr reglugerð um skotelda enda eru áramótin fram undan. Í reglugerðinni segir m.a. að á því tímabili sem almenn notkun skotelda er leyfð, 28. desember til 6. janúar, er meðferð þeirra þó alltaf bönnuð frá miðnætti til kl. 09:00 að undanskilinni nýársnótt.

Óheimilt er að breyta á nokkurn hátt skoteldi þannig að hann hljóti aðra eiginleika en framleiðandi hans ætlaðist til. Við meðferð og vörslu skotelda skal ítrustu varúðar gætt og ætíð farið eftir skráðum leiðbeiningum.

Við brennu og í næsta nágrenni við hana er öll meðferð flugelda og annarra skotelda sem hætta stafar af vegna ferils þeirra eftir tendrun bönnuð. Þar er aðeins leyfilegt að nota stjörnuljós og blys, þó ekki skotblys.

Þá vill Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hvetja alla til að nota þar til gerð hlífðargleraugu þegar flugeldar eru annars vegar.

25.680 börn fá gjafabréf á flugeldagleraugu

Undanfarin ár hefur Slysavarnafélagið Landsbjörg , Blindrafélagið, Sjóvá, Pósturinn og Prentsmiðjan Oddi unnið að forvörnum til að fyrirbyggja augnslys af völdum flugelda. Nú senda þau öllum 10 til 15 ára börnum, sem eru 25.680 talsins, gjafabréf fyrir flugeldagleraugum. Er það von þeirra sem að verkefninu standa að gleraugun verði til þess að ekkert þeirra slasist á augum um áramótin. Rétt er að ítreka að allir ættu að nota flugeldagleraugu, sama á hvaða aldri þeir eru, hvort sem viðkomandi er að skjóta upp eða eingöngu að horfa á.

Fikt með flugeldavörur er of algengt hjá krökkum og þá sérstaklega strákum. Þeir taka flugelda í sundur, safna púðrinu saman og búa til sprengjur. Þessi leikur er stórhættulegur og foreldrar verða að vera vakandi og meðvitaðir um það sem börn þeirra eru að fást við þessa daga.

Annar hópur sem hefur verið að lenda í flugeldaslysum eru karlmenn á besta aldri. Oft er áfengi með í för þegar þau verða. Munum að áfengi og flugeldar eiga aldrei samleið.

Gjafabréfum á flugeldagleraugu má framvísa á öllum flugeldamörkuðum björgunarsveita Slysavarnarfélagsins Landsbjargar til að fá gleraugun afhent. Einnig fylgja flugeldagleraugu öllum fjölskyldupökkum sem seldir eru hjá björgunarsveitum.

Nánari upplýsingar um öryggismál tengd flugeldum má finna á www.flugeldar.is/oryggisakademian en þar eru myndbönd með leiðbeiningum um rétta meðferð flugelda.

Samgöngustofa afhenti einkaleyfi til Isavia

í desember afhenti Samgöngustofa Isavia formlega tilnefningu um einkaleyfi til flugumferðarþjónustu í íslenska loftrýminu, auk efra loftrýmis Grænlands sem íslenska ríkið hefur gert um samning við það danska. Um er að ræða eitt stærsta flugstjórnarsvæði í heimi. Með þessu er formfest þjónusta Isavia og uppfylltar skuldbindingar íslenska ríksins á þessum vettvangi, en um þær gilda strangar alþjóðlegar reglur og kvaðir.

Isavia sinnir flugleiðsöguþjónustu í íslenska flugstjórnarsvæðinu og lögum samkvæmt hefur Samgöngustofa daglegt eftirlit með starfseminni. Samvinna Isavia, Samgöngustofu og íslenska ríkisins í þessum málaflokki er í þágu flugöryggis í íslenska flugstjórnarsvæðinu og þar með um 30 milljóna flugfarþega sem ferðast í þeim rúmlega 130.000 flugvélum sem fara þar um á hverju ári. Fjölmörg störf tengjast verkefni flugleiðsöguþjónustu eða um 300 á Íslandi og eru langflest þeirra hjá Isavia. Störfin eru fjölbreytt en nefna má flugumferðastjóra, flugfjarskiptafólk, fluggagnafræðinga, flugradíómenn, veðurfræðinga, verkfræðinga, tölvunarfræðinga og ýmsa tæknimenn, auk stoðþjónustu í fjármálum og rekstri.

Tilnefningin er liður í því að uppfylla alþjóðlega samninga um samevrópska loftrýmið. Bætist hún við þjónustusamning sem er í gildi milli innanríkisráðuneytisins og Isavia sem nær m.a. til verkefna á sviði flugleiðsöguþjónustu, bæði á alþjóðlegu flugsvæði og í innanlandsloftrými.

Vagnstjórar fá tjónabónus

Fram kemur í nýrri fundargerð stjórnar Strætó bs. að vagnstjórar Strætó fái greiddan tjónabónus. Þar kemur fram að reynslan af bónuskerfinu á yfirstandandi ári hafi verið góð, m.a. hafi tjónakostnaður milli áranna 2014-15 lækkað verulega og slysum fækkað um 38%. Stjórn Strætó hefur því samþykkt áframhaldandi tjónabónuskerfi næstu tvö ár eða til loka árs 2017.

Persónuafsláttur hækkar

Samkvæmt gildandi lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, skal í upphafi árs hækka persónuafslátt hvers einstaklings í samræmi við hækkun vísitölu neysluverðs næstliðna tólf mánuði.

Á grundvelli þess verður persónuafsláttur 623.042 kr. fyrir árið 2016, eða 51.920 krónur á mánuði. Persónuafsláttur einstaklinga hækkar um  12.217 kr. milli áranna 2015 og 2016, eða um 1.018 kr. á mánuði og nemur hækkunin 2,0%.

Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars verða samkvæmt því 145.659 kr. á mánuði að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð samanborið við 142.153 kr. á mánuði 2015. Hækkunin milli ára nemur 2,5%.

Fleiri börn öðlast rétt til gjaldfrjálsra tannlækninga

Sex og sjö ára börn munu frá 1. janúar næstkomandi bætast í hóp þeirra barna sem eiga rétt til gjaldfrjálsra tannlækninga sakvæmt samningi Sjúkratrygginga Íslands og tannlækna frá árinu 2013. Þar með nær samningurinn til allra barna á aldrinum 6 – 17 ára, auk 3 ára barna.

Skilyrði fyrir því að barn eigi rétt á gjaldfrjálsum tannlækningum er að barnið hafi verið skráð hjá heimilistannlækni með samning við Sjúkratryggingar Íslands.

Þann 15. desember sl. höfðu 55.555 börn verið skráð með heimilistannlækni.  Af þeim falla 42.372 börn undir samninginn. Alls eru um 80.000 börn yngri en 18 ára búsett á Íslandi, þar af eru 32.303 börn sem enn falla ekki undir samninginn vegna aldurs.  Heimtur hafa því verið góðar og hafa hæst farið yfir 96% í einum árgangi.

Sagt er frá þessu á vef Sjúkratrygginga Íslands. Þar kemur fram að viðgerðum í tönnun barna hefur fjölgað lítillega eftir gildistöku samningsins frá árinu 2013 en þess hafi verið vænst: „Ástæðan er sú að með samningnum er eftirlit með tannheilsu barna eflt og engin börn eiga að þurfa að fresta nauðsynlegri meðferð vegna kostnaðar. Sú uppsafnaða þörf, sem var fyrir hendi, verður ekki lengur til staðar eftir innleiðingu samningsins. Því má nú búast við fækkun tannviðgerða á ný, en samningurinn gildir til ársins 2019.“

Á vef Sjúkratrygginga er birt mynd sem sýnir þróun á fjölda barna sem leitað hafa til tannlæknis á árunum 1998 – 2014 og fjölda viðgerða hjá hverju barni að jafnaði á sama tímabili.

Starfshópi falið að fjalla um rekstur og þjónustu nýs sjúkrahótels

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað starfshóp til að fjalla um rekstur og þjónustu nýs sjúkrahótels sem verið er að byggja á lóð Landspítala við Hringbraut. Hópurinn á að skila ráðherra greinargerð um efnið fyrir 1. apríl 2016.

Samkvæmt skipunarbréfi skal starfshópurinn skilgreina kjarnaverkefni nýs sjúkrahótels með áherslu á aukna þjónustu við sjúklinga. Við þá vinnu skal hópurinn leita fyrirmynda hjá öðrum Norðurlandaþjóðum þar sem löng reynsla er af rekstri sjúkrahótela, s.s. í Noregi og Svíþjóð. Einnig skal leita samráðs hjá helstu hagsmunaaðilum vegna reksturs og þjónustu sjúkrahótelsins.

Starfshópnum er ætlað að skoða þætti sem snúa að gjaldtöku, greiðsluþátttöku sjúkratrygginga, kröfur til þjónustu og leiðir til að ná fram sem mestum samlegðaráhrifum líkt og stefnt er að með allri þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er á lóð Landspítalans við Hringbraut. Einnig á hann að skoða og bera saman ávinning af ólíkum rekstrarformum og hvernig þau falla að þeim markmiðum sem að er stefnt með rekstri sjúkrahótelsins.

Í skipunarbréfi starfshópsins er bent á að að sjúkrahótelum sé ætlað að nýtast sjúklingum í kjölfar útskriftar sem liður í frekari endurhæfingu og bata. Aftur á móti hafi í tímans rás orðið nokkrar áherslubreytingar í rekstri sjúkrahótela þar sem hlutverk þeirra hefur einnig orðið að vera athvarf fyrir fólk sem þarf vegna eigin heilsufars eða sinna nánustu að leita sér lækninga fjarri heimabyggð. Mikilvægt sé að stofnanaumgjörð ríkisins endurspegli breyttar þarfir og hafi getu til að takast á við nýjar áskoranir. Ljóst sé að með hækkandi lífaldri þjóðarinnar og þar með fjölgun legudaga á Landspítalanum sé mikilvægara en nokkru sinni að huga vel að rekstri stoðþjónustu eins og felist meðal annars í rekstri sjúkrahótels.

Formaður starfshópsins er Þorkell Sigurlaugsson.

Tilraunaverkefni um samgöngumöguleika fatlaðs fólks

Velferðarráðuneytið hefur í samvinnu við Reykjavíkurborg sett á laggirnar tilraunaverkefni sem á að styðja við möguleika fatlaðs fólks til að nýta sér almenningssamgöngur. Markmiðið er að virkja fatlað fólk enn frekar til þátttöku í daglegu lífi án aðgreiningar.

Framkvæmd verkefnisins verður þannig háttað að ráðnir verða starfsmenn til að vinna með fötluðu fólki sem nú notar ferðaþjónustu fatlaðra og skoða hvort þeir geti í einhverjum mæli nýtt sér almenningssamgöngur. Ljóst þykir að í einhverjum tilvikum geti almenningssamgöngur nýst fötluðu fólki til reglulegra ferða, t.d. til og frá vinnu, fái það til þess nauðsynlegan stuðning.

Reykjavíkurborg mun vinna samantekt að verkefninu loknu um þann árangur sem náðst hefur.  Verkefnið er unnið á grundvelli framkvæmdaáætlunar í málefnum fatlaðs fólks og hefur Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, ákveðið að veita til þess 2 milljónir króna.

Breytingar hjá Orkuveitu Reykjavíkur

Orkuveita Reykjavíkur eða OR verður hefur gert breytingar á ásjónu starfsemis fyrirtækisins. Eftirleiðis verða félögin þrjú í starfsemi OR gagnvart gagnvart viðskiptavinum  og landsmönnum öllum:
Orka náttúrunnar (ON), Gagnaveita Reykjavíkur með vörumerki sitt Ljósleiðarann og nú Veitur.

Þar með lýkur uppskiptingu starfseminnar sem hófst með aðskilnaði samkeppnis- og sérleyfishluta rekstrarins í ársbyrjun 2014.
Veitur ohf. eru kynntar til sögunnar, stærsta fyrirtækið innan OR samstæðunnar. Veitur dreifa rafmagni, heitu og köldu vatni og reka fráveitur á svæði þar sem búa tæplega þrír af hverjum fjórum landsmönnum, frá Grundarfirði í vestri til Hvolsvallar í austri.
Framkvæmdastjóri Veitna er Inga Dóra Hrólfsdóttir verkfræðingur.
Áhersla er lögð á rafræna þjónustu við viðskiptavini Veitna á nýjum vef, www.veitur.is. Símanúmer þjónustuvers er eftir sem áður 516 600.
Móðurfélagið OR dregur sig þar með í hlé sem málsvari þjónustunnar gagnvart viðskiptavinum. Rekstrarleg ábyrgð samstæðunnar er óbreytt, engar breytingar eru á skipuriti í tengslum við þessar breytingar og móðurfélagið mun áfram svara fyrir samstæðuna í heild.

Markvisst útinám í Gufunesbæ

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar hefur ákveðið að skipa starfshóp til að móta heildstæða stefnu um markmið og hlutverk Gufunesbæjar sem miðstöðvar útivistar og útináms fyrir börn og unglinga úr öllum hverfum.

Starfshópurinn á m.a. að skilgreina þjónustustig og þörf fyrir uppbyggingu fjölnota útivistarsvæðis, húsnæðis og aðstöðu. Sérstaklega skal hópurinn líta til hlutverks frístundamiðstöðvarinnar í Gufunesi sem þekkingarmiðstöðvar um útinám og útivist og hvernig efla megi fræðslu fyrir leikskóla, grunnskóla og í frístundastarfi í öllum hverfum borgarinnar, svo og í samstarfi við Náttúruskóla Reykjavíkur. Leiðarljós starfshópsins á að vera að styrkja stöðu Gufunesbæjar sem valkost fyrir alla aldurshópa til að stunda fjölbreytta útivist og frístundaiðkun, árið um kring.

Í greinargerð með tillögunni segir að frá því að Frístundamiðstöðin Gufunesbær hafi verið stofnuð haustið 1998 hafi verið lögð áhersla á að nýta svæðið til útivistar og skoða möguleika á uppbyggingu í því sambandi. Töluverð uppbygging hafi átt sér stað síðan, m.a. með endurbyggingu gamla bæjarins og hlöðunnar. Lega og aðstæður við Gufunesbæ bjóði upp á fjölmörg tækifæri til uppbyggingar enda sé staðsetningin eins konar sveit í borg. Þá hafi fjöldi heimsókna ýmissa hópa á svæðið aukist ár frá ári en aukin ásókn kalli á endurskipulagningu á þjónustu og aðstöðu.
Í greinargerð er jafnframt tilgreint að útinám sé árangursrík leið til að mæta markmiðum um menntun til sjálfbærni en sjálfbærni er einn af grunnþáttum í aðalnámskrá leik- og grunnskóla. Menntun til sjálfbærni er þar að auki einn af níu áhersluþáttum í umhverfis- og auðlindastefnu Reykjavíkurborgar. Loks segir að á útivistarsvæði Gufunesbæjar gefist gott tækifæri til að efla lýðheilsu borgarbúa með hreyfingu, virkri þátttöku og útivist. Uppbygging á slíku svæði styðji við samning Reykjavíkurborgar og embættis Landlæknis um heilsueflandi starfsemi á vegum skóla- og frístundasviðs. Fyrir liggja ýmsar hugmyndir um uppbyggingu svæðisins og verður það hlutverk starfshópsins að rýna þær og nýta eftir föngum í þeirri vinnu sem framundan er.

Styrkur til framleiðslu sjónvarpsþáttanna „Með okkar augum“

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra hefur veitt 2,5 milljóna króna styrk til gerðar sjónvarpsefnis í þáttaröðinni „Með okkar augum.“ Þættirnir eru liður í vitundarvakningu um stöðu fatlaðs fólks sem m.a. er lögð áhersla á í framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

Þættirnir Með okkar augum hafa þegar skapað sér sess í sjónvarpsstofum landsmanna, því alls hafa verið framleiddir 30 þættir sem sýndir hafa verið á RÚV. Þættirnir hafa notið vinsælda og m.a. verið tilefndir þrisvar til Eddu-verðlauna.

Sérstaða þáttanna er sú að fólk með þroskahömlun er beggja vegna linsunnar, þ.e.a.s. það sér um dagskrárgerð, tökur, kynningar, o.fl. en nýtur aðstoðar fagfólks.

Þættirnir hafa það að markmiði að breyta ímynd fólks með þroskahömlun í samélaginu og fræða almenning um getu þessa hóps, skoðanir og langanir. Líta má svo á að gerð sjónvarpsþáttanna sé jafnframt liður í því að uppfylla skyldur samkvæmt 8. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um að stuðla að vitundarvakningu um stöðu fatlaðs fólks og auka virðingu fyrir réttindum þess og mannlegri reisn.

Samningur við Íslandsstofu um kynningar- og markaðsstarf á sviði ferðamála

Í vikunni endurnýjaði Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra samning ráðuneytisins við Íslandsstofu um kynningar- og markaðsstarf á sviði ferðamála til næstu 3ja ára og gildir hann því út árið 2018.

Tilgangur samningsins er að skapa samstarfsvettvang fyrir íslenska ferðaþjónustu sem stuðlar að samræmdu kynningar- og markaðsstarfi erlendis. Starfið skal miða að því að ferðaþjónustan verði arðsöm og sjálfbær atvinnugrein til framtíðar sem skilar þjóðarbúinu traustum gjaldeyristekjum sem eflir hagvöxt, atvinnusköpun, byggðaþróun og þar með hagsæld og lífsgæði á Íslandi.

Samningurinn styður við markmið nýs Vegvísis í ferðaþjónustu sem útgefinn var í október 2015 um jákvæða upplifun ferðamanna, aukna arðsemi, aukna dreifingu ferðamanna og jákvæð viðhorf til greinarinnar.

Íslandsstofa annast framkvæmd samningsins sem felst m.a. í því að vinna að mörkun Íslands sem áfangastaðar, kynna Ísland erlendis gagnvart skilgreindum markhópum með viðeigandi markaðsstarfi, vera vettvangur fyrir ferðaþjónustuna í markaðssókn á erlendum mörkuðum, byggja upp alþjóðleg tengsl og efla ímynd Íslands á erlendri grund í samstarfi við aðrar atvinnugreinar.

Samningur um leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna framlengdur

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna undirrituðu í vikunni samning sem felur í sér áframhaldandi þjónustu samtakanna við leigjendur íbúðarhúsnæðis. Samningurinn gildir til ársloka 2016.

Neytendasamtökin hafa árum saman sinnt aðstoð við leigjendur í einhverjum mæli og hefur eftirspurn eftir þessari þjónustu farið ört vaxandi. Frá árinu 2011 hafa Neytendasamtökin annast þjónustu við leigjendur samkvæmt formlegum samningi við velferðarráðuneytið sem kveður á um að samtökin sinni upplýsingagjöf til leigjenda um réttindi þeirra og skyldur, auk þess að veita lögfræðiráðgjöf. Leigjendaaðstoð Neytendasamtakanna hefur gefist vel og ljóst er að mikil eftirspurn er meðal leigjenda eftir upplýsingum og ráðgjöf á þessu sviði.

Erindum sem berast Neytendasamtökunum um húsaleigumál hefur fjölgað umtalsvert frá því að fyrsti þjónustusamningurinn var gerður milli ráðuneytisins og Neytendasamtakanna árið 2011. Árið 2012 bárust 1431 erindi en gert er ráð fyrir að í ár muni málafjöldinn enda í 2184 og nemur aukningin um 8%.

Lokanir á vegum vegna óveðurs

Vegna óveðurs sem gengur yfir landið hefur nánast öllum fjallvegum á landinu verið lokað. Vegir á Reykjanesi og flestir vegir á Suðurlandi eru einnig lokaðir og það sama má segja um Kjalarnes, Hafnarfjall og  Snæfellsnes. Í Skagafirði er slæmt ferðaveður og flestir vegir lokaðir.  Vegirnir um Súðavíkurhlíð, Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúla eru lokaðir vegna snjóflóðahættu. Einnig er lokað með suðausturströndinni frá Hvolsvelli og austur á Fáskrúðsfjörð. Ekki er reiknað með að þessir vegir opni fyrr en á morgun.

Hálka er á flestum öðrum leiðum en flughálka á nokkrum leiðum á Suðurlandi og í Ísafjarðardjúpi.

Tilkynning frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins

Mælt er með því að fólk sé ekki á ferli á höfuðborgarsvæðinu eftir kl. 16 í dag vegna óveðursins. Hafið í huga að auðveldara er fyrir viðgragðsaðila að komast leiðar sinnar þegar færri bílar eru á ferðinni og þannig geta þeir brugðist skjótar við útköllum. Mælt er með því að fólk fylgist áfram með fréttum af veðri og færð og haldi sig heima við nema brýn nauðsyn kalli á annað. Gott er að undirbúa sig með því að hafa vasaljós, kerti, út­varp og raf­hlöður við hendina ef rafmagnið skyldi fara. Munið líka að hlaða farsímana.

Gott er að draga glugga­tjöld fyr­ir glugga sem eru áveðurs og hafa svefnstaði/​rúm ekki und­ir þeim glugg­um. Einnig þarf að huga að svala-, ​bíl­skúrs- og glugga­lok­un­um og hreinsa niður­föll og moka vel frá. Ef enn eru laus­ir mun­ir á svöl­um eða lóðum eins og trampólín, hús­gögn eða annað smá­vægi­legt er mik­il­vægt að koma því í var svo það fjúki ekki á fólk eða skemmi eignir.

Veðrið gæti staðið yfir til hádegis á morgun svo fylgist áfram með og farið ekki af stað í fyrramálið nema þið hafið upplýsingar um veður og færð.

Óveður um allt land

Riflega 500 manns frá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar sinna nú lokunum vega, óveðursútköllum eða eru í viðbragðsstöðu vegna veðursins sem nú gengur yfir landið.

Í Vestmannaeyjum fauk þak af íbúðarhúsi við Smáragötu og lenti í heilu lagi á lóð rétt hjá. Húsið er stórskemmt og ekki talið öruggt fyrir björgunarmenn að fara nálægt því. Íbúarnir hafa verið fluttir í skjól og verið er að aðvara eigendur nærliggjandi húsa. Tilkynningar hafa borist um fleiri laus þök og fokverkefni.

Björgunarsveitir hafa einnig sinnt nokkrum aðstoðarbeiðnum á Suðurnesjum og fyrir austan fjall en þau hafa ekki verið alvarlegs eðlis.