Útlit fyrir að Landsbankinn hætti í Leifsstöð

Isavia, sem m.a. rekur Flugstöð Leifs Eiríkssonar, hefur tilkynnt að fyrirtækið muni hefja viðræður við Arion banka um rekstur fjármálaþjónustu í Leifsstöð, á grundvelli niðurstöðu útboðs. Því er útlit fyrir að Landsbankinn hætti fjármálaþjónustu í Leifsstöð eigi síðar en í lok apríl 2016 en sex mánaða uppsagnarfrestur er á samningi Landsbankans og Isavia.

Landsbankinn hefur rekið útibú í Leifsstöð allt frá opnun flugstöðvarinnar.

Ellefu sóttu um stöðu skógræktarstjóra

Ellefu umsækjendur eru um stöðu skógræktarstjóra, en umhverfis- og auðlindaráðuneytið auglýsti starfið laust til umsóknar þann 3. október síðastliðinn.

Umsækjendur eru:

 • Aðalsteinn Sigurgeirsson, skógfræðingur og forstöðumaður Rannsóknastöðvar skógræktar, Mógilsá
 • Björn Bjarndal Jónsson, framkvæmdastjóri Suðurlandsskóga
 • Edda Sigurdís Oddsdóttir, líffræðingur
 • Guðmundur Guðbergsson, Platoon Commander
 • Hreinn Óskarsson, skógfræðingur
 • Jón Ágúst Jónsson, forstöðumaður
 • Lárus Heiðarsson, skógræktarráðunautur
 • Loftur Þór Jónsson, lektor
 • Páll Sigurðsson,                Ph.D. og skógfræðingur
 • Sigríður Júlía Brynleifsdóttir, framkvæmdastjóri
 • Þröstur Eysteinsson, sviðsstjóri Þjóðskóganna

Umsóknarfrestur var til 19. október sl. og mun valnefnd meta hæfni og hæfi umsækjenda og skila greinargerð til umhverfis- og auðlindaráðherra sem skipar í stöðuna til fimm ára að ráðningarferli loknu.

Níu þjóðarleiðtogar hittast í Reykjavík í október

Forsætisráðaherrar Bretlands, Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hafa þekkst boð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, um þátttöku í málþinginu Northern Future Forum í Reykjavík 28. og 29. október næstkomandi. Þetta verður í fyrsta sinn á lýðveldistímanum sem forsætisráðherra Bretlands heimsækir Ísland.

Northern Future Forum er umræðuvettvangur þjóðanna níu, þar sem þjóðarleiðtogar, fræðimenn og sérfræðingar skiptast á skoðunum um valin mál.  Málþingið er nú haldið í fimmta sinn, en áður hafa Bretar, Svíar, Lettar og Finnar boðið heim undir merkjum Northern Future Forum .  Í þetta sinn mun umræðan snúast um skapandi atvinnugreinar og nýsköpun í opinberum rekstri. Allar frekari upplýsingar má nálgast á vef málþingsins nff2015.is.

Samhliða málþinginu munu David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra Íslands, funda um samskipti og samstarf landanna. Heimsókn David Cameron til Íslands markar tímamót, því forsætisráðherra Bretlands hefur ekki komið í formlega heimsókn til Íslands frá stofnun lýðveldis hér á landi. Vert er þó að minnast á að Winston Churchill þáverandi forsætisráðherra Bretlands heimsótti Ísland á hernámstímanum í ágúst 1941 og átti þá fundi með fulltrúum Íslenskra stjórnvalda.

Reykjavíkurborg þjónustar hælisleitendur

Forstjóri Útlendingastofnunar og borgarstjóri skrifuðu í vikunni undir samning um þjónustu Reykjavíkurborgar við hælisleitendur sem innanríkisráðherra staðfesti. Samningurinn er liður í því hlutverki stjórnvalda að tryggja hælisleitendum þjónustu meðan mál þeirra eru til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og tryggja fullnægjandi búsetuúrræði.

Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri skrifuðu undir samninginn ásamt Ólöfu Nordal innanríkisráðherra en hann gildir út næsta ár.

Reykjavíkurborg er með samningi þessum að skuldbinda sig til að þjónusta fimm fjölskyldur meðan þær bíða úrlausnar mála sinna hér á landi, sem er viðbót frá fyrri samningi sem eingöngu náði yfir einstaklinga sem sótt hafa um hæli á Íslandi og bíða úrlausnar. Velferðarsvið Reykjavíkurborgar annast þjónustuna sem felst í að tryggja hælisleitendum húsnæði, félagsþjónustu og heilbrigðisþjónustu. Einnig mun borgin sjá um að hælisleitendur fái túlkaþjónustu eftir því sem við á og leitast við að gefa þeim tækifæri til að kynnast íbúum og afla sér þekkingar á íslensku samfélagi. Þá skulu samningsaðilar hafa með sér samráðsvettvang þar sem fjallað skal reglulega um þjónustuna og framgang hennar þar sem rýnt verður sérstaklega í þjónustu við börn.

_MG_5594a

Ríkið eykur greiðsluþátttöku sína í heyrnartækjum

Heilbrigðisráðherra hefur undirritað reglugerðir sem fela í sér hækkun á greiðsluþátttöku ríkisins í heyrnartækjum úr 30.800 krónum í 50.000 krónur. Áætlað er að kostnaður ríkisins vegna þessa aukist um tæpar 58 milljónir króna á ári miðað við óbreyttan fjölda tækja.

Þeir sem eru sjúkratryggðir hér á landi eiga rétt á að ríkið taki þátt í kostnaði við kaup á hjálpartækjum sem Heyrnar- og talmeinastöð Íslands útvegar, samkvæmt reglugerð nr. 1118 frá árinu 2006. Þegar sú reglugerð var sett kostuðu ódýrustu fáanleg heyrnartæki tæpar 30.000 krónur. Nú kosta ódýrustu heyrnartæki sem völ er á um 55.000 krónur þannig að kostnaður fólks vegna heyrnartækjakaupa hefur aukist verulega. Hækkunin sem heilbrigðisráðherra hefur nú ákveðið tekur að fullu mið af vísitölubreytingum frá því að fyrri reglugerð var sett árið 2006.

Auk þessa hefur ráðherra undirritað reglugerð um styrki vegna kaupa á heyrnartækjum hjá öðrum en Heyrnar- og talmeinastöðinni. Þar er kveðið  á um sömu hækkun, þ.e. úr 30.800 krónum í 50.000 krónur.

Í reglugerðunum er kveðið á um skilyrði fyrir greiðsluþátttöku ríkisins í kaupum á heyrnartækjum þar sem fram koma ákveðin viðmið um heyrn viðkomandi og um hve langt þarf að líða á milli endurnýjunar tækja.

Nýju reglugerðirnar sem settar eru með heimild í í lögum um Heyrnar- og talmeinastöð nr. 42/2007 verða birtar í Stjórnartíðindum innan skamms og öðlast þá gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 1118/2006 og reglugerð nr. 146/2007.

Billinn-til-thjonustu-reidubuinn

Víðtæk áhrif verkfalla á Landspítala

Verkfalli Sjúkraliðafélags Íslands og Starfsmannafélags ríkissofnana,  var boðað á miðnætti aðfaranótt 15. október 2015, hefur það víðtæk áhrif á starfsemi Landspítala og þjónustu við sjúklinga.

Landspítali leggur áherslu á að tryggja bráðaþjónustu og öryggi sjúklinga eins og frekast er unnt. Heildaráhrif verkfallanna eru óljós en gert ráð fyrir að áhrifa gæti í allri starfsemi spítalans. Þannig munu falla niður allar skipulagðar skurðaðgerðir en bráðum og brýnum aðgerðum verða sinnt. Gert er ráð fyrir miklum áhrifum á dag- og göngudeildir og mun hluta þeirra verða lokað meðan á verkfalli stendur, s.s. göngudeild kvenlækninga, barna og á Grensási. Þá mun legurýmum fækka á bráðadeildum spítalans, þjónusta á öðrum skerðast (s.s. í Rjóðri) og fimm daga deild á Landakoti verður lokað. Svipað eða sama gildir um margar sambærilegar deildir, annað hvort lokun eða takmörkuð starfsemi. Stoðþjónusta spítalans raskast líka verulega komi til verkfalls, svo sem rekstur tölvukerfa og flutninga- og símþjónusta.

Líkur eru á að símkerfi spítalans verði fyrir miklu álagi vegna þess ástands sem skapast komi til verkfalls. Því er eindregið mælst til þess að hringja ekki í aðalnúmer spítalans nema brýna nauðsyn beri til. Minnt er á að neyðarnúmer landsmanna er 112.

Landsbjörg æfði leit á reiðhjólum

Síðastliðið mánudagskvöld setti Hjálparsveit skáta í Reykjavík upp samæfingu fyrir leitartæknihópa af höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Áherslan var lögð á leit á reiðhjólum og voru skipulögð tvö verkefni fyrir hópana; hraðleit í götum og portum í iðnaðarhverfi og hraðleit á stígum í Elliðarárdalnum. Reiðhjól gera leitarhópum kleift að hraðleita líklegar leiðir og staði sem fyrsta viðbragð og er tilgangurinn að gera forkönnun á leitarsvæði áður en farið er í ítarlegri leit.

1725

Mynd: Guðmundur H. Önundarson .

Fjórar milljónir farþegar um Keflavíkurflugvöll í ár

Í gær náði fjöldi farþega um Keflavíkurflugvöll í fyrsta sinn yfir fjögurra milljóna múrinn innan sama árs. Þessi heppni farþegi heitir Rene Petersen sem ferðaðist með fjölskyldu sinni til Kaupmannahafnar með Icelandair. Starfsfólk Isavia á Keflavíkurflugvelli kom Rene á óvart og tók á móti honum með blómvendi og leysti hann út með glæsilegum gjöfum.  Fékk hann lúxusmálsverð  á veitingastaðnum Nord fyrir alla fjölskylduna, glæsilegan gjafapoka úr Fríhöfninni auk þess sem Icelandair bauð honum að uppfæra sig á Comfort Class farrýmið.

Talning farþega um Keflavíkurflugvöll skiptist í brottfararfarþega, komufarþega og skiptifarþega og skiptist fjöldinn um það bil jafnt í þrennt. Þegar fjórmilljónasti farþeginn fór úr landi skiptist farþegafjöldinn svona: 1.392.597 brottfararfarþegar, 1.381.395 komufarþegar og 1.226.008 skiptifarþegar. Árið 2014 fóru 3,87 milljónir farþega um Keflavíkurflugvöll og en í ár er búist við því að fjöldinn fari upp í um 4,8 milljónir sem er fjölgun upp á um það bil 26% á milli ára. Árið 2016 má búast við því að farþegafjöldi nái sex milljónum.

fjormilljonasti_vefHeimild: isavia.is

Tómas kjörinn formaður Samtaka hjarta- og lungnaskurðlækna á Norðurlöndunum

Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlæknir á Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, hefur verið kjörinn formaður Samtaka hjarta- og lungnaskurðlækna á Norðurlöndunum (Scandinavian Association of Thoracic surgery).

Í samtökunum eiga sæti allir sérfræðingar í hjarta- og lungnaskurðlækningum á Norðurlöndunum og er hlutverk samtakanna að skipuleggja fræðslu- og vísindastarf innan sérgreinarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem Íslendingur er valinn forseti í 66 ára sögu samtakanna.

Tómas Guðbjartsson lauk læknanámi frá Háskóla Íslands árið 1991 og stundaði síðan framhaldsnám í almennum skurðlækningum og hjarta- og lungnaskurðlækningum  í Svíþjóð og framhaldsnám í hjartaskurðlækningum við Harvardháskóla í Boston. Tómas hefur verðið virkur í kennslu og rannsóknum og hefur birt hátt í 200 vísindagreinar og bókakafla, flestar á sviði hjarta- og lungnaskurðlækninga.  Að auki hefur Tómas  verið virkur í félagsstörfum en hann er formaður prófessoraráðs Landspítala og situr í ritstjórnum Interactive Cardiovascular and Thoracic Surgery og Læknablaðsins.

Tómas er giftur Dagnýju Heiðdal listfræðingi og eiga þau tvö börn, Guðbjörgu, tónlistarkonu og grafískan hönnuð, og Tryggva, nema í lyfjafræði.

Tómas Guðbjartsson prófessor og yfirlæknirHeimild: landspitali.is

Gáfu Landspítala nýtt sónartæki til ómskoðunar

Kvenfélagið Hringurinn hefur fært fósturgreiningardeild  Landspítala nýtt sónartæki til ómskoðunar fóstra og barna í móðurkviði og Thorvaldsensfélagið nýjan ómhaus  við tækið.

Sónartæknin á meðgöngu er fyrir löngu orðin hluti af greiningu og jafnvel meðferð á meðgöngu og er samofin mæðravernd, í vissum tilvikum út alla meðgönguna. Tækninni fer sífellt fram og er nú hægt að greina ákveðin frávik frá eðlilegu ferli snemma á meðgöngu sem gerir kleift að bregðast við sérhæfðum vandamálum miklu fyrr en áður. Með nýjum tækjum eykst skerpa og skýrleiki myndanna sem síðan eykur líkur á nákvæmari  greiningu.

IMG_2917 - Copy

Geislafræðingar sóttu aftur um stöður á Landspítala

Nánast allir geislafræðingar sem sögðu upp á Landspítala og hættu störfum 1. september 2015 eru meðal þeirra sem sótt hafa um starf aftur.  Alls sögðu 25 geislafræðingar upp störfum og hættu 17 þeirra 1. september.  Þau störf voru auglýst með umsóknarfresti til 21. september.  Fyrir þann tíma bárust 15 umsóknir en umsóknir héldu áfram að berast eftir þann tíma og því var ákveðið að auglýsa aftur.  Sá umsóknarfrestur rennur út 12. október. Nú þegar hafa rúmlega 30 umsóknir borist og eru sumar þeirra erlendis frá.
Díana Óskarsdóttir, deildarstjóri röntgendeildar, segir að útlitið sé allt annað og betra en verið hefur og fari sem horfi verði röntgendeildin á Landspítalanum aftur fullmönnuð þegar kemur fram í október.

Landsbjörg undirritar samstarfssamning

Þann 2. október síðastliðinn var skrifað undir samstarfssamning milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar, Landsnets hf., Landsvirkjunar og RARIK um aðstoð björgunarsveita við veitufyrirtækin í vá og við önnur tilvik eða atburði þar sem aðstoðar er óskað.

Slysavarnafélagið Landsbjörg tryggir að í viðbragðskerfi félagsins séu skilgreindir verkferlar sem nýttir verða þegar fyrirtækin þurfa á að halda. Það skal gert með skipulögðum æfingum björgunarsveita í samstarfi við starfsmenn raforkufyrirtækjanna. Einnig mun Björgunarskólinn veita starfsfólki fyrirtækjanna aðgang að fræðslu samkvæmt námskrá skólans eða með sérsniðnum námskeiðum sé þess óskað.

Framlag raforkufyrirtækjanna felst í árlegum styrk til Slysavarnafélagsins Landsbjargar næstu þrjú árin. Einnig munu þau veita félögum SL nauðsynlega fræðslu sem m.a. snýr að öryggi þeirra í tengslum við verkefni sem þarf að vinna í þeirra þágu.

Smári Sigurðsson, formaður Slysavarnafélagsins Landsbjargar fagnar samningnum og segir hann skipta miklu máli fyrir samfélagið allt. „Í raun er það öryggismál að þegar rafmagnsrof verður, standi það eins stutt og hægt er. Við eigum sérhæfðan búnað og tæki og öflugan mannskap til að aðstoða raforkufyrirtækin á neyðarstundu.“

Heimild: landsbjorg.is

Íslenskir björgunarsveitarmenn æfðu á Grænlandi

Nýverið tók níu manna hópur undanfara frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg þátt í björgunaræfingunni Arctic Response, sem fór fram á Austur Grænlandi. Æfingin, sem skipulögð var af danska hernum, fól í sér viðbrögð við slysum og öðrum atvikum við heimskautaaðstæður. Mismunandi hópar danska hersins og dönsku almannavarnanna tóku þátt í æfingunni en einnig kom Landhelgisgæslan að skipulagningu hennar.
Hlutverk íslenska hópsins var að þjálfa meðlimi í dönsku Sirius hersveitinni í sprungubjörgun og ferðalögum um jökla. Sirius sveitin sérhæfir sig í löngum ferðum á hundasleðum um heimskautasvæði Austur-Grænlands. Einnig var æft með félögum úr björgunarsveit bandaríska flughersins. Ferðin var einkar lærdómsrík og gekk samstarfið við dönsku hermennina mjög vel en veður og vetraraðstæður höfðu töluverð áhrif á framgang æfingarinnar.

1697 1698 1699 Myndir: Ágúst Þór Gunnlaugsson og Jón Heiðar Rúnarsson.