Fjölga sálfræðingum á heilsugæslu

Stefnt er að því að fjölga stöðugildum sálfræðinga í heilsugæslu um átta á næsta ári og verður tæpum 69 milljónum króna varið til þess samkvæmt fjárlagafrumvarpinu. Gangi þetta eftir verður unnt að bjóða sálfræðiþjónustu í heilsugæslu í öllum heilbrigðisumdæmum landins á næsta ári.

Í tengslum við áætlunina Betri heilbrigðisþjónustu sem heilbrigðisráðherra ýtti úr vör í byrjun síðasta árs er stefnt að því að efla þjónustu heilsugæslu í landinu og bæta aðgengi að henni. Liður í því er að efla þverfaglegt samstarf innan hennar og stuðla að breiðari sérfræðiþekkingu. Stöðugildi sálfræðinga í heilsugæslu á landsvísu eru nú 15 en verður fjölgað um átta á næsta ári og þar með verða stöðugildi sálfræðinga í heilsugæslu orðin 23 á landsvísu.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA
OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Fjölgun sérfræðinga og fleiri námsstöður í heilsugæslunni

Stefnt er að því að fjölga námsstöðum í heimilislækningum og heilsugæsluhjúkrun og veita heilsugæslunni aukið fjármagn til að ráða í fleiri sérfræðingsstöður í heimilislækningum eða aðrar stöður heilbrigðisstarfsfólks. Til þessa verður varið rúmum 220 milljónum króna samkvæmt fjárlagafrumvarpinu.

Framlög til heilsugæslu á landsvísu voru aukin um 50 m.kr. í fjárlögum þessa árs í því skyni að efla sérnám í heimilislækningum og heilsugæsluhjúkrun. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2016 er framlagið aukið um 36 m.kr. til að fjármagna fjórar nýjar stöður námslækna í heilsugæslu. Með auknum fjárveitingum árið 2015 og áformaðri aukningu á næsta ári fjölgar námsstöðum heimilislækna úr 13 stöður í 20 á tveimur árum.

Þetta kemur fram á vef Velferðarráðuneytisins.

Undirritun

Mikið magn fíkniefna fannst í Norrænu

Við komu ferjunnar Norrænu til Seyðisfjarðar þann 8. september síðastliðinn var lagt hald á verulegt magn fíkniefna.   Málið var unnið í samstarfi lögreglustjórans á Austurlandi, embættis Tollstjóra, lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu og færeyskra tollayfirvalda.

Erlent par á fimmtugsaldri var handtekið  í þágu rannsóknar málsins og hafa þau verið úrskurðuð í 14 daga gæsluvarðhald.  Rannsókn málsins er á frumstigi.

9 manns handteknir í aðgerðum Lögreglunnar

Níu manns voru handteknir í gær í viðamiklum aðgerðum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn innflutningi stera, sölu, dreifingu og framleiðslu þeirra. Lagt var hald á mikið magn af sterum, mestmegnis í formi dufts og taflna, auk búnaðar af ýmsu tagi, meðal annars til framleiðslu stera. Lögreglan tók einnig í sína vörslu fjármuni, sem grunur leikur að séu tilkomnir vegna fyrrnefndrar starfsemi. Húsleitir voru framkvæmdir á allnokkrum stöðum á höfuðborgarsvæðinu, og ein í Reykjanesbæ með aðstoð lögreglunnar á Suðurnesjum. Rannsókn málsins er umfangsmikil og hefur staðið yfir um nokkurt skeið, en hún er unnin í samvinnu við embætti tollstjóra. Sakborningarnir, sem nú eru lausir úr haldi lögreglu, eru flestir á fertugsaldri, en í þeim hópi er ein kona. Greint verður nánar frá magni stera sem haldlagðir voru þegar vigtun og talningu þeirra er lokið. Við húsleitirnar í gær var einnig lagt hald á stinningarlyf og marijúana.

Aðgerðir íslenskra lögregluyfirvalda voru hluti af alþjóðlegri lögregluaðgerð (Operation Underground) undir forystu Europol og bandarísku fíkniefnalögreglunnar, DEA. Í gær voru því samtímis í mörgum öðrum löndum framkvæmdar handtökur og húsleitir þar sem einnig var lagt hald á stera. Ráðist var gegn innflutningi stera frá framleiðendum í Kína, en þeir eru mjög stórtækir á þessu sviði. Rétt er líka að hugleiða við hvaða aðstæður sterar eru framleiddir og meðhöndlaðir í Kína, en þær geta verið varhugaverðar og sterarnir því hættulegir eftir því.

Þetta kemur fram á vef Lögreglunnar.