Harma ákvörðun rússneskra stjórnvalda

Íslensk stjórnvöld harma þá ákvörðun rússneskra yfirvalda að bæta Íslandi á lista yfir lönd sem sæta innflutningsbanni til Rússlands. Samkvæmt upplýsingum utanríkisráðuneytisins liggur fyrir að íslenskar vörur verði ekki tollafgreiddar og hætta sé á að vörum verði fargað á landamærunum.

„Þetta eru gríðarleg vonbrigði. Við höfum leitað allra leita til að útskýra afstöðu okkar fyrir rússneskum stjórnvöldum og þá hagsmuni sem undir eru,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.
Ljóst er að bannið felur í sér að íslenskum fyrirtækjum verður ekki lengur unnt að markaðssetja sjávarafurðir í Rússlandi auk þess sem bannið tekur til landbúnaðarvara að frátöldu lambakjöti, ærkjöti, hrossakjöti og niðursoðnu fiskmeti í dósum.
Ísland mun halda áfram því samtali sem ráðherrar og embættismenn hafa átt við Rússa á síðustu vikum til að draga úr áhrifum þessarar ákvörðunar.
Ísland, Albanía, Liechtenstein, Svartfjallaland og Úkraína bætast nú í hóp þar sem fyrir eru Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Þýskaland, Bretland, Írland, Frakkland, Spánn, Portúgal, Ítalía, Holland, Belgía, Lúxemborg, Malta, Grikkland, Kýpur, Austurríki, Pólland, Ungverjaland, Eistland, Lettland, Litháen,Tékkland, Slóvakía,Slóvenía, Rúmenía, Búlgaría, Króatía, Bandaríkin, Noregur, Kanada og Ástralía.
Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Skýrari skilyrði um starfs- og sérfræðinám lækna

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur skipað mats- og hæfisnefnd um starfsnám til að öðlast almennt lækningaleyfi og um sérnám í læknisfræði í samræmi við nýja reglugerð þessa efnis.

Reglugerð nr. 467/2015 um menntun, réttindi og skyldur lækna og skilyrði til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi tók gildi í apríl síðastliðnum. Markmiðið með setningu reglugerðarinnar var að skýra kröfur og skilyrði fyrir menntun lækna og kröfur sem þarf að uppfylla til að hljóta almennt lækningaleyfi og sérfræðileyfi.

Ýmis nýmæli eru í reglugerðinni. Meðal þeirra helstu er að með breytingunni er gerð krafa um að starfsnám sem stundað er hér á landi til að hljóta almennt lækningaleyfi skuli byggjast á sérstökum marklýsingum þar sem nákvæmlega er kveðið á um uppbyggingu, innihald og marga aðra þætti námsins. Með reglugerðinni er á sama hátt gerð krafa um að sérstök marklýsing skuli liggja að baki sérnámi sem fram fer hér á landi og er forsenda fyrir sérfræðileyfi í viðkomandi grein.

Mats- og hæfisnefndin sem skipuð er samkvæmt reglugerðinni hefur það hlutverk að meta og staðfesta marklýsingar fyrir starfsnám til starfsleyfis og samþykkja marklýsingar einstakra sérnámsbrauta fyrir formlegt sérnám. Enn fremur skal nefndin meta hæfi heilbrigðisstofnunar eða deildar heilbrigðisstofnunar til að öðlast viðurkenningu sem kennslustofnun fyrir starfsnám til lækningaleyfis samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar. Formaður nefndarinnar er Reynir Tómas Geirsson.

Á grundvelli sömu reglugerðar hefur einnig verið skipuð nefnd sem hefur það hlutverk að skipuleggja námsblokkir fyrir læknakandídata í starfsnámi. Formaður hennar er Inga Sif Ólafsdóttir.

Heimild: velferdarraduneyti.is

Líkfundur í Laxárdal í Nesjum

Í gær, þriðjudaginn 18. ágúst, klukkan 16:11 barst tilkynning á lögreglustöðina á Höfn í Hornafirði, um líkfund í Laxárdal í Nesjum.  Lögreglumenn á Höfn fóru þegar á vettvang.  Landhelgisgæslan lagði til þyrlu til að flytja rannsóknarlögreglumann frá rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi, lögreglumenn úr Kennslanefnd ríkislögreglustjóra, rannsóknarlögreglumann frá Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðisins og réttarlækni á staðinn.

Ekki hefur verið borin kennsl á líkið.  Kennslanefnd hefur gefið út að líkið sé af ungum karlmanni um það bil 186 sentimetrar á hæð með ljóst axlasítt hár klætt í svarta strigaskó með hvítri stjörnu á hlið, dökkbláar íþróttabuxur og hettupeysu með áletrun að framan „QUICKSILVER“.  Ætla má að maðurinn hafi látist fyrir einhverjum mánuðum síðan.  Málið er í rannsókn og ekkert hægt að segja til um á þessu stigi með hvaða hætti andlát mannsins bar að.

Lögreglan á Suðurlandi biðlar til allra þeirra sem gætu veitt upplýsingar sem gætu átt við lýsingu hér að ofan, þær má hringja inn í síma 842 4250.

Þetta kemur fram á vef Lögreglunnar.

Íslensk erfðagreining gefur jáeindaskanna

Íslensk erfðagreining hefur skuldbundið sig til að gefa 5,5 milljónir Bandaríkjadala eða rúmar 720 milljónir íslenskra króna til að kaupa jáeindaskanna fyrir Landspítala.  Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, afhenti  Kristjáni Þór Júlíussyni heilbrigðisráðherra yfirlýsingu þess efnis 12. ágúst 2015. Ráðherra segir vonast til þess að jáeindaskanni komist í gagnið á spítalanum eftir eitt og hálft ár.

Við hönnun nýbygginga á Landspítalalóð hefur verið gert ráð fyrir að koma fyrir þessu mikilvæga myndgreiningar- og rannsóknartæki.   Nauðsynlegt er að reisa nýtt húsnæði til að koma jáeindaskannanum fyrir á spítalanum og tengdum búnaði til að búa til geislavirk efni.

Á hverju ári eru um 100 krabbameinssjúklingar sendir til útlanda í jáeindaskanna (petskanna) vegna þess að slíkt tæki er ekki til hér. Skanninn þykir nýtast einkar vel fyrir ýmsar tegundir af lungnakrabbameinum, eitlakrabbamein, leghálskrabbamein og krabbamein í koki. Jáeindaskanni gagnast líka vel við að finna uppruna krabbameins ef fólk hefur greinst með meinvarp.

Þetta kemur fram á vef Landspitala.is.

jaeindaskanni_mynd

Landsbankinn styrkir verkefni Menningarnætur

Þremur milljónum króna var í vikunni veitt úr Menningarnæturpotti Landsbankans til 32 verkefna og viðburða sem fram fara á Menningarnótt.  Menningarnæturpottur er samstarfsverkefni Landsbankans og Höfuðborgarstofu en bankinn hefur verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi.  Allur fjárstuðningur Landsbankans rennur beint til listamanna og hópa sem koma fram á hátíðinni.

Þetta er í sjötta sinn sem styrkir eru veittir úr Menningarnæturpottinum. Í ár bárust vel yfir hundrað umsóknir og valdi starfshópur á vegum Höfuðborgarstofu styrkþegana. Við úthlutun var kastljósinu meðal annars beint að viðburðum á torgum miðborgarinnar; nýjum og gömlum, stórum og litlum, fundnum og földum.

Lista af styrkþegum má sjá á vef Landsbankans.

Menningarnott-2015-styrkthegar-1240

 

Reykjavík Bacon festival í dag

Matar- og fjölskylduhátíðin Reykjavík Bacon Festival verður haldin í dag 15. ágúst.  Sérvaldir veitingastaðir munu bjóða upp á fyrsta flokks beikoninnblásna rétti í bland við besta mögulega hráefni, – m.a. ferskan íslenskan fisk, svína-, lamba- og nautakjöt, mjólkurvörur og íslenskt grænmeti. Það verða ýmsar uppákomur, hljómsveitir, kórar, lúðrasveitir, hoppukastalar. Lukkutröllið Ófeigur mætir að sjálfsögðu á Skólavörðustíginn. Hátíðin hefst kl. 14:00 og stendur til 17:00.

Klara Bjartmarz ráðin framkvæmdastjóri KSÍ

Á fundi stjórnar KSÍ fimmtudaginn 13. ágúst var samþykkt að ráða Klöru Bjartmarz í starf framkvæmdastjóra KSÍ, en hún hafði áður verið ráðin tímabundið í mars á þessu ári.  Klara hefur starfað fyrir KSÍ síðan í janúar 1994, lengst af við mótamál og landslið kvenna.  Þá gegndi hún jafnframt starfi skrifstofustjóra KSÍ um árabil.  Að auki hefur Klara starfað fyrir UEFA sem eftirlitsmaður á alþjóðlegum leikjum. Klara er fyrst kvenna til að gegna stöðu framkvæmdastjóra hjá KSÍ.

180 þús erlendir ferðamenn í júlí mánuði

Um 180 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í júlí síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 36 þúsund fleiri en í júlí á síðasta ári. Aukningin nemur 25% milli ára.

Það sem af er ári hefur mælst aukning milli ára alla mánuði eða 34,5% í janúar, 34,4% í febrúar, 26,8% í mars, 20,9% í apríl, 36,4% í maí og 24,2% í júní.

Um 70% ferðamanna í júlí síðastliðnum voru af tíu þjóðernum. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða 20,6% af heildarfjölda en næstir komu Þjóðverjar (11,1%) og Bretar (8,6%). Þar á eftir fylgdu síðan Frakkar (6,7%), Danir (4,7%), Kínverjar (4,1%), Kanadamenn (3,9%), Svisslendingar (3,6%), Svíar (3,4%) og Norðmenn (3,4%).

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Kínverjum, Bretum, Þjóðverjum og Kanadamönnum mest milli ára í júlí en 14.237 fleiri Bandaríkjamenn komu í júlí í ár en í fyrra, 3.171 fleiri Kínverjar, 2.960 fleiri Bretar, 1.988 fleiri Þjóðverjar og 1.741 fleiri Kanadamenn. Þessar fimm þjóðir báru uppi 66,8% aukningu ferðamanna í júlí.
Nokkrum þjóðum fækkaði hins vegar í júlí ár frá því í fyrra. Þannig fækkaði Rússum um 40,2% og Norðurlandaþjóðunum um 5,5%.

Það sem af er ári hafa 697.716 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða 151.363 fleiri en á sama tíma í fyrra. Um er að ræða 27,7% aukningu milli ára. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum nema Norðurlöndunum sem hafa staðið í stað. Aukningin hefur verið 44,4% frá N-Ameríku, 27,5% frá Bretlandi, 21,0% frá Mið- og S-Evrópu, og 40,9% frá öðrum löndum.

Um 44 þúsund Íslendingar fóru utan í júlí síðastliðnum eða um fimm þúsund fleiri en í júlí árið 2014. Frá áramótum hafa 253.194 Íslendingar farið utan eða 28.700 fleiri en á sama tímabili árið 2014.

Heimild: ferdamalastofa.is

juli_02_15

Um 15000 sóttu Þjóðhátíð í Eyjum

Lögregla telur 15.000 manns hafa sótt þjóðhátíð Vestmannaeyja að þessu sinni. 26 lögreglumenn sinntu löggæslu og 100 gæslumenn. Auk þeirra var starfandi læknir í dalnum og annað heilbrigðisstarfsfólk, áfallateymi og sjúkraflutningamenn. Áfallateymi aðstoðaði fólk við ýmis mál svo sem sjálfsvígshugsanir, kvíða og fleira. Barnaverndarstarfsmenn sinntu auk þess málum barna undir 18 ára aldri sem komu upp á hátíðinni.

Umferð gekk vel þessa helgi og akstur farþegaflutningabifreiða einnig. Hringtorg í dalnum kom vel út og nokkuð vel gekk að aðgreina gangandi vegfarendur frá akandi.

Fíkniefnamál voru mörg þessa hátíðina og hafa aldrei verið fleiri en 72 mál komu upp enda var þessum málaflokki vel sinnt. Mest var haldlagt af hvítum efnum og í að minnsta kosti 5 þeirra var um sölu og dreifingu að ræða. Að mati lögreglu þykir þessi árangur í fíkniefnamálum hafa komið í veg fyrir alvarleg ofbeldisbrot þar sem þekkt er að af neyslu hvítra efna verða menn árásargjarnari en ella.

Engar alvarlegar líkamsárásir voru kærðar til lögreglu en sex mál vegna minniháttar líkamsárása eru til rannsóknar án þess þó að hafa verið kærðar. Eitt mál kom upp er varðar nytjastuld og eignaspjöll og hefur það verið upplýst.

Tvö kynferðisbrot komu til rannsóknar hjá lögreglu. Fyrra málið kom inn á borð lögreglu aðfaranótt sunnudags en meint brot á að hafa átt sér stað í kringum miðnætti kvöldið áður. Þolandinn, ung stúlka, fékk viðeigandi aðstoð og var flutt á neyðarmóttöku á Landspítalann í Reykjavík og var tilnefndur réttargæslumaður. Rannsókn er að mestu lokið en óljóst um málsatvik.

Seinna málið var tilkynnt lögreglu að kvöldi sunnudags en á að hafa átt sér stað eftir miðnætti aðfaranótt sunnudags. Um tengda aðila er að ræða og fékk konan viðeigandi aðstoð og var flutt á neyðarmóttöku á Landspítalann í Reykjavík og var tilnefndur réttargæslumaður. Vettvangur var rannsakaður og sakborningur handtekinn af lögreglu skömmu eftir tilkynningu þar sem skipulögð leit fór fram af honum í Herjólfsdal. Málið telst upplýst og rannsókn vel á veg komin.

Miðað við fyrri hátíðir fór þjóðhátíðin vel fram og er það mat lögreglu að löggæsla hafi gengið vel á hátíðinni og gæsla hafi verið öflug. Viðbragð í sjúkraskýli, hjá áfallateymi og barnavernd var gott og fjölmörgum sem var sinnt vegna mismunandi erfiðleika. Það er miður að upp hafi komið kynferðisbrot en áhersla var á vönduð og fagleg vinnubrögð við þeim þar sem rannsóknarhagsmunir og hagsmunir brotaþola voru settir í forgang. Það er mat lögreglu og áfallateymis að vel hafi tekist til með að senda ekki tafarlausar upplýsingar um alvarlegustu brotin til fjölmiðla heldur að veita slíkar upplýsingar á réttum tímapunkti eins og alltaf hafi staðið til.

Þetta kemur fram á vef Lögreglunnar.

Þá greinir ISAVIA  frá því að flugumferð til og frá Vestmannaeyjaflugvelli um liðna Verslunarmannahelgi hafi gengið vel fyrir sig.  Í heildina voru um 430 flughreyfingar um helgina sem er dálítið minni umferð en síðastliðin ár. Nokkur umferð var seinnipart föstudags og á sunnudagskvöldið, langmest flugumferð var þó, líkt og fyrri ár, á mánudeginum.

Innbrot í Firðinum enn í rannsókn

Lögreglan hefur handtekið mann í tengslum við innbrot verslunarmiðstöðinni Firði um síðustu helgi og hafa yfirheyrslur yfir honum farið fram. Þar var brotist inn í skartgripaverslun, en verðmæti þess sem stolið var hleypur á milljónum króna samkvæmt upplýsingum frá rekstraraðilum. Maðurinn neitar sök en honum var sleppt í kjölfar yfirheyrslna og húsleitar.

Rannsókn málsins hófst um leið og innbrotið uppgötvaðist að morgni sunnudagsins 2. ágúst. Í kjölfarið fundust föt sem talin eru hafa verið notuð af innbrotsaðila á tveimur stöðum í miðbæ Hafnarfjarðar en þar fundust einnig umbúðir utan af hluta þeirra skartgripa sem stolið var.

Rannsókn málsins heldur áfram.

Þetta kemur fram á vef Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu.

Rauði krossinn sendi 11 tonn til Hvíta-Rússlands

Rauði krossinn á Íslandi hefur sent af stað fatagám til Hvíta-Rússlands sem inniheldur rúmlega 11 tonn af fatnaði. Áfangastaðurinn er Grodno í vesturhluta landsins. Mikil fátækt ríkir í dreifbýlum svæðum Hvíta-Rússlands og er Grodno þar engin undantekning. Sérstaklega berskjaldaðir hópar eru til að mynda einstæðar mæður og eldri borgarar. Rauði krossinn á Íslandi hefur átt náið samstarf við hvítrússneska Rauða krossinn og hefur sent sérvalinn fatnað allt frá árinu 2012 en þá létust tugir Hvítrússa í kjölfar mikillar kuldatíðar.

Í fatagámnum eru sérútbúnir fatapakkar sem sjálfboðaliðar Rauða krossins um allt land hafa útbúið í verkefninu Föt sem framlag. Þar má finna notaðan fatnað jafnt sem nýprjónaða sokka og vettlinga, hlý teppi, úlpur, peysur, skó, barnasamfestinga og margt fleira. Er þetta fjórði fatagámurinn sem er sendur til Hvíta-Rússlands á þessu ári en þörfin hefur aukist gríðarlega á undanförnum mánuðum vegna mikils fjölda flóttamanna sem streymir til landsins frá stríðshrjáðri Úkraínu.

Útköll Landsbjargar um verslunarmannahelgina

Um verslunarmannahelgina komu nokkur útköll til björgunarsveitanna á landsbyggðinni.

Á föstudag fór Björgunarsveitin Blanda og aðstoðaði erlenda ferðamenn sem höfðu fest bíl sinn í aurbleytu á Stórasandi. Síðar sama dag fór félagar Dagrenningar á Hvolsvelli til aðstoðar ferðamanni sem hafði sett bíl sinn á bólakaf í Markarfljóti. Björgunarsveitarmenn þurftu að nota flotgalla til að komast að bílnum svo djúpt var hann kominn.

Á laugardag voru björgunarsveitir á sunnanverðu Vesturlandi auk nokkura af höfuðborgarsvæðinu kallaðar út vegna slys á gönguleiðinni Síldamannagötur. Sú leið liggur á milli Botnsdals í Hvalfirði og Skorradals. Þar hafði unglingsstúlka fallið og slasað sig á fæti svo hún komst ekki áfram. Samferðamenn stúlkunnar óskuðu eftir aðstoð við Neyðarlínu.

Um 1,5 km burð var að ræða en vel gekk að koma stúlkunni niður í Botnsdal þar sem hún fór í sjúkrabíl og var flutt á sjúkrahús til meðhöndlunar.

Á sunnudagskvöldi var Björgunarsveitin Vopni kölluð vegna bílstjóra sem hafði fest bíl sinn í mýri langt utan vegar. Eðli málsins vegna fór lögreglumaður með á staðinn en alls tók verkefni um fimm klukkustundir.

Einnig á sunnudagskvöld fór Björgunarsveitin Björg Eyrarbakka til aðstoðar ökumanni sem fest hafði bíl sinn í sandi rétt við veitingastaðinn Hafið Bláa við Óseyrarbrú. Nokkuð greiðlega gekk að losa bílinn og koma honum á heppilegra undirlag.

Árla mánudagsmorguns voru björgunarsveitir á norðanverðum Vestfjörðum kallaðar út vegna gruns um týndan einstakling. Rétt í þann mund er fyrsti hópur var að hefja leit kom viðkomandi fram.

Nokkuð hefur verið um verkefni hjá hópum á hálendisvakt björgunarsveita þessa verslunarmannahelgina. Þannig sinntu hópar slasaðri reiðhjólakonu, aðstoðuðu nokkra ferðalanga sem fest höfðu bíla sína í vatnsföllum eða snjó, sinntu einstaklingi sem slasaði sig á baki og fleira mætti týna til.

Þetta kemur fram á vef Landsbjargar.

Unglingadeildir Landsbjargar til Rússlands

Um síðastliðna helgi fór 15 manna hópur frá unglingadeildum Slysavarnafélagsins Landsbjargar til Rússlands til að taka þátt í æfingunni USAR 2015.

Íslensku þátttakendurnir eru á aldrinum 15 – 17 ára og koma úr unglingadeildum björgunarsveita um allt land. Æfingin fer fram í Noginsk í Rússlandi og eru þátttökulönd að þessu sinni ellefu talsins.

Æfingin stendur í sex daga og lýkur á 14 klst. rústaæfingu þar sem allar þátttökuþjóðir vinna saman. Það eru ýmis verkefni sem þátttakendur þurfa að leysa en auk rústabjörgunar er tekist á við slasaða einstaklinga, fjallabjörgun og fleira.

Æfingar sem þessar skila miklu í alþjóðlegu samstarfi auk þess sem þátttakendur öðlast mikla reynslu.

Heimild: landsbjorg.is