Hagstæð tilboð í hönnun nýs meðferðarkjarna Landspítala

Tilboð í fullnaðarhönnun meðferðarkjarna vegna nýbygginga við Landspítala voru opnuð nýlega. Lægsta tilboðið átti Corpus 3 sem bauð tæpa 1,4 milljarða króna. Það er um 51% af áætluðum kostnaði sem hljóðaði upp á rúma 2,7 milljarða. Fjögur tilboð bárust og voru öll umtalsvert lægri en kostnaðaráætlunin.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir tilboðin sem opnuð voru í dag gefa tilefni til bjartsýni og veita framkvæmdum við nýjan Landspítala aukinn byr í seglin: „Meðferðarkjarninn er ein af fjórum nýbyggingum sem áformað er að reisa við Hringbraut og jafnframt sú stærsta þeirra, eða 58.500 m². Það munar því miklu í kostnaði að hönnuðir skuli færir um að taka að sér verkið fyrir rúman helming þess fjár sem áætlanir gerðu ráð fyrir“.

Þeir sem buðu í fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans voru:

 • Verkís og TBL 1.563.430.000 kr.
 • Grænaborg 1.620.593.000 kr.
 • Corpus 3 1.399.303.400 kr.
 • Mannvit hf. 1.513.171.040 kr.

Corpus 3 hópurinn samanstendur af VSÓ verkfræðistofu, VJI verkfræðistofu, Hornsteinum arkitektum og Basalt arkitektum.

Skóflustunga að nýjum stúdentagörðum

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, og Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, tóku nýverið fyrstu skóflustungu að nýjum stúdentagörðunum í Brautarholti.

Garðarnir eru staðsettir í Brautarholti nr 7, á milli Mjölnisholts og Ásholts. Þar munu rísa tvö hús, alls um 4.700 m2, með 102 litlum íbúðum fyrir barnlausa stúdenta. Um byggingu sér Jáverk ehf en THG arkitektar eru aðalhönnuðir.

Það er stefna Reykjavíkurborgar að auka framboð húsnæðis fyrir alla samfélagshópa í öllum hverfum borgarinnar. Það er meðal markmiða að taka þátt í byggingu 400 nemendaíbúða svo bygging stúdentagarða í Brautarholt er stórt skref að því marki.

Stefnt er að því að húsin verði tilbúin í ágúst 2016. Með framkvæmdunum er leitast við að svara eftirspurn eftir stúdentaíbúðum en 800 námsmenn voru á biðlista eftir húsnæði að úthlutun lokinni sl. haust og útlit er fyrir að þeir verði töluvert fleiri nú í haust.

Nýju stúdentagarðarnir verða fjármagnaðir að 90% hluta með lánum frá Íbúðalánasjóði en það sem á vantar leggur Félagsstofnun stúdenta til.

img_2806

Starfshópur vegna samþættingar stofnana á sviði náttúruverndar

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað starfshóp til að skoða leiðir til að samþætta eða sameina stofnanir á sviði náttúruverndar og landgræðslu, með það að markmiði að efla stofnanakerfi ráðuneytisins á sviði verndunar og sjálfbærrar nýtingar náttúru landsins.

Mikilvægt er að stofnanaumgjörð ríkisins endurspegli breyttar þarfir og hafi afl til að takast á við nýjar áskoranir. Ljóst er að með auknu álagi á náttúru landsins vegna ferðamennsku mun verða vaxandi þörf á að efla getu á þessu sviði. Þar má sérstaklega nefna þær áskoranir sem tengjast mikilli þörf á verndaraðgerðum og uppbyggingu vegna hennar, á náttúruverndarsvæðum og almennt í íslenskri náttúru.

Starfshópnum er falið að kanna ávinning af því að sameina verkefni á þessu sviði og skulu eftirfarandi leiðir kannaðar í því sambandi:

 • Sameining þess hluta starfs Umhverfisstofnunar sem snýr að ofangreindum verkefnum og Landgræðslu ríkisins með staðsetningu í Gunnarsholti.
 • Sameining Umhverfisstofnunar og Landgræðslu ríkisins, en þá með innri aðskilnaði tilgreindra verkefna og stjórnsýslu. Áhersla verði á skilgreiningu kjarnaverkefna landsbyggðarstarfstöðva.

Starfshópinn skipa:

 • Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, formaður,
 • Valgerður Gunnarsdóttir, alþingismaður,
 • Jón Geir Pétursson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneyti,
 • Stefán Guðmundsson, skrifstofustjóri í umhverfis- og auðlindaráðuneyti,
 • Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar og
 • Sveinn Runólfsson, landgræðslustjóri hjá Landgræðslu ríkisins.

Með hópnum starfar Guðrún Ragnarsdóttir, ráðgjafi auk ritara.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili greinargerð til umhverfis- og auðlindaráðherra fyrir 1. nóvember 2015 og skal hann hafa samráð við helstu hagaðila.

Úthlutun úr Myndlistarsjóði

Þann 1. júlí s.l. var úthlutað myndlistarráð úr Myndlistarsjóði fyrir árið 2015, 18,5 milljónum til 42 verkefna myndlistarmanna og fagaðila á sviði myndlistar.

Í tilkynningu frá myndlistarráði segir: “Að þessu sinni bárust sjóðnum alls 117 umsóknir að heildarfjárhæð 106,5 milljónir kr. Myndlistarráð fagnar því hversu margar umsóknir bárust sjóðnum en fjöldi umsókna sýnir berlega þann drifkraft og grósku sem einkennir íslenskt myndlistarlíf.

Hlutverk Myndlistarsjóðs er að efla íslenska myndlist með fjárhagslegum stuðningi og stuðla þannig að framgangi listsköpunar, kynningu og aukinni þekkingu á íslenskri myndlist. Myndlistarsjóður heyrir undir myndlistarráð og starfar samkvæmt myndlistarlögum og eftir reglum sem menntamálaráðherra setur. Sérskipaðar matsnefndir meta umsóknir og gera tillögu að úthlutun.

Fimmtán styrkir voru veittir úr flokki stærri sýningarverkefna sem er stærsti flokkur sjóðsins; þar af hlutu styrk tíu hátíðir og sýningarstaðir og fimm einstaklingar. Stærsta styrkinn að upphæð 1,8 m.kr hlýtur myndlistarhátíðin Sequences VIII. Að auki hljóta tólf myndlistarmenn styrk í flokki minni sýningarverkefna, styrkir til útgáfu- og rannsókna nema 6,1 m.kr. og 1,5 m.kr  er veitt til undirbúnings verkefna.

UMSÆKJANDI VERKEFNI STYRKUR
Sequences-myndlistarhátíð Sequences VIII 1.800.000
Cycle Music and Art Festival Leyst úr læðingi 900.000
Theresa Himmer Speak Nearby, exhibition at Soloway, New York 600.000
Culturescapes CULTURESCAPES Iceland: Special Art Program 1.000.000
Eygló Harðardóttir 3 sýningar 400.000
Gerðarsafn-Listasafn Kópavogs skúlptúr-skúlptúr 400.000
Hrafnhildur Arnardóttir All Very Agile Flames 250.000
Nýlistasafnið P.S. Ekki gleyma mér 500.000
Kling & Bang The Confected Video Archive of Kling & Bang – viðhald og sýning í Austellungsraum Klingental 400.000
Skaftfell – myndlistarmiðstöð Austurlands The Assembly of The Hyperboreans 500.000
Djúpavogshreppur Rúllandi Snjóbolti/6, Djúpivogur 400.000
Verksmiðjan Hjalteyri Sumarryk, sýningar 2016 400.000
Listasafnið á Akureyri A! Gjörningahátíð 300.000
Karlotta Blöndal Rannsókn, sýning og útgáfa um pappír 300.000
Hulda Rós Guðnadóttir Keep Frozen 400.000
8.550.000
 
UMSÆKJANDI VERKEFNI STYRKUR
Styrmir Örn Guðmundsson Einkasýning í JOEY RAMONE (Rotterdam) 300.000
Eva Ísleifsdóttir I am Here Belive 250.000
Skaftfell – myndlistarmiðstöð Austurlands Sýning: Ingólfur Arnarsson & Þuríður Rós Sigurþórsdóttir 300.000
Arnar Ásgeirsson Promesse du Bonheur 200.000
Arna Óttarsdóttir Einkasýning í i8 nóvember 2015 200.000
Tumi Magnússon Sýning í MACMO, Museo de Arte Contemporaneo, Montevideo, Uruguay 200.000
Einar Falur Ingólfsson Culturescape 2015 / 2 sýningar 100.000
Claudia Hausfeld Exhibition Switzerland 100.000
Una Margrét Árnadóttir Þrykk í SØ 150.000
Rakel McMahon We are Family 200.000
Katrín Inga Jónsdóttir Hjördísardóttir Samsýning í Sideshow Gallery, New York 150.000
Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir Umgerð – Sýning Hugsteypunnar í Listasafni Akureyrar 200.000
2.350.000
 
UMSÆKJANDI VERKEFNI STYRKUR
Staðir / Places Staðir / Places 250.000
Sigurður Guðjónsson Einkasýning í Berg Contemporary 250.000
Nýlistasafnið Rolling Line 500.000
Helga Þórsdóttir augnaRáð 300.000
Haraldur Jónsson Hringstig 200.000
1.500.000
 
UMSÆKJANDI VERKEFNI STYRKUR
Sigtryggur Berg Sigmarsson óskýr sjón, lita raskanir, mjúkar og hraðar handahreyfingar 50.000
Ragnhildur Jóhanns Reykjavík Stories 550.000
Steingrímur Eyfjörð Vinnuheiti: „Tegundagreining“ – Rit um verk Steingríms Eyfjörð 700.000
Ásta (Ástríður) Ólafsdóttir Ásta Ólafsdóttir, Myndlist 500.000
Eygló Harðardóttir Útgáfa bókverks 500.000
Margrét H. Blöndal Teikningabók 500.000
Heiðar Kári Rannversson ÍSLENSK BÓKVERK 600.000
Kristín Jónsdóttir frá Munkaþverá Útgáfa á listaverkabók um Kristínu Jónsdóttur frá Munkaþverá. Vinnuheiti: Orðin, tíminn og blámi vatnsins. 700.000
Crymogea Birgir Andrésson – Verk 1.000.000
Rúrí (Þuríður Rúrí Fannberg) Gjörningar – Útgáfa bókar / skráning ljósmynda og heimilda 1.000.000
6.100.000

Akstursbann á stórar rútur í miðborginni

Reykjavíkurborg ætlar að banna stórar rútur í miðborginni. Þess í stað verða tólf sleppisvæði staðsett í miðbæjarkjarnanum þar sem auðvelt er að leggja. Borgarstjórn hefur sent lögreglustjóra beiðni um lokunina. Nýjar reglur um akstur hópbifreiða verða kynntar þegar bannið hefur verið samþykkt.

Bannið á við um hópferðabifreiðar sem eru átta metrar eða lengri en til samaburðar má geta þess að almennur strætisvagn er 13 metrar. Bílstjórar eða fyrirtæki sem ekki virða þessar takmarkanir verða sektuð.

Svæðið afmarkast af Barónsstíg, Eiríksgötu, Njarðargötu, Sóleyjargötu, Fríkirkjuvegi, Lækjargötu og Hverfisgötu. Undanþegnar banni verði slökkvi- og sjúkrabifreiðar, sorphreinsibifreiðar og þjónustubifreiðar á vegum Reykjavíkurborgar, auk bíla sem fara að Sundhöllinni.

Sleppisvæðin verða í Lækjargötu við Mæðragarðinn, í Vonarstræti við Ráðhúsið, í Aðalstræti við Ingólfstorg, á Vesturgötu við Geysi, á Kalkofnsvegi við Arnahól, í Faxagötu við Hörpu, í Ingólfsstræti við Arnarhól, á Hverfisgötu við Hljómalindarreit, á Eiríksgötu við Hallgrímskirkju, á Njarðargötu við Þórsgötu, á Laugavegi við Hlemm og í Þórunnartúni.

Reykjavíkurborg hefur áður gefið út tilmæli um að stórar rútur aki ekki um tilteknar götur en þau dugðu ekki til. Því hefur borgarstjórn samþykkt að setja reglur um akstur hópbifreiða í miðborginni.  Fáist samþykki lögregluyfirvalda við banninu verða þær götur, sem bannað er að aka um, vel merktar. Stefnt er að því að koma upp merkingum um leið og bannið tekur gildi.

Viljayfirlýsing að taka á móti 50 flóttamönnum

Íslensk stjórnvöld hafa lýst yfir vilja sínum við ráðherraráðið í Brussel um að taka á móti 50 flóttamönnum samtals á þessu og næsta ári. Ísland verður þannig þátttakandi í samvinnu Evrópuþjóða um móttöku kvótaflóttafólks. Yfirlýsingin er birt með fyrirvara um samþykki Alþingis fyrir fjármögnun verkefnisins.

Móttaka fólksins verður ákveðin í samráði við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, líkt og ávallt er gert þegar tekið er á móti kvótaflóttafólki, en viljinn stendur til þess að létta á miklum straumi flóttamanna til Grikklands og Ítalíu.

Hér á landi annast flóttamannanefnd undirbúning að móttöku kvótaflóttafólks í samvinnu við einstök sveitarfélög hverju sinni, auk þess sem Rauði kross Íslands hefur hlutverki að gegna.

Heimild: velferdarraduneyti.is

Aukið samstarf Landspítala og Krabbameinsfélags Íslands

Landspítali og Krabbameinsfélag Íslands hafa gert með sér samning sem felur í sér aukið samstarf þeirra á milli á sviði hefðbundinnar krabbameinsleitar í brjóstum og sérhæfðrar þjónustu við konur með brjóstakrabbamein. Markmiðið er að auka samhæfingu og bæta þjónustu.

Leit að krabbameinum í brjóstum kvenna er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða reglubundna hópleit þar sem einkennalausum konum er boðin þátttaka samkvæmt ákveðnum leiðbeiningum. Hins vegar er klínísk brjóstaskoðun sem fram fer hjá konum ef niðurstaða hópleitar bendir til þess að nánari skoðunar er þörf eða ef konur hafa sjálfar fundið einkenni frá brjóstum sem þarfnast nánari skoðunar og greiningar. Krabbameinsfélagið ber ábyrgð á framkvæmd þessarar þjónustu, hvort sem um er að ræða hópleit eða klíníska brjóstaskoðun. Með samningnum sem undirritaður hefur verið felst hins vegar ákvörðun um þá stefnu að ábyrgð á klínískri skoðun verði færð á hendi Landspítalans. Tveir röntgenlæknar Landspítalans annast klíníska skoðun og er nýmæli að annar þeirra verður yfirlæknir leitarstarfsins. Krabbameinsfélagið leggur til annað starfsfólk, húsnæði, aðstöðu og nauðsynlegan búnað.

Krabbameinsleit, hvort sem er hópleit eða klínískar brjóstaskoðanir, munu áfram fara fram í húsnæði Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð og þjónusta sjúkrahússins á Akureyri verður einnig óbreytt.

KrabbsamningurHeimild: velferdarraduneyti.is

Betri aðstaða á Tjaldsvæðinu í Laugardal

Nýtt þjónustuhús með snyrtiaðstöðu, ný eldunaraðstaða ásamt skála sem rúmar um 70 gesti, sem og ný afgreiðsla er meðal þess sem gert hefur verið á Tjaldsvæðinu í Laugardal á liðnum árum. Í gær var boðið til veislu til að fagna þessum verklokum og 15 ára farsælu samstarfi Reykjavíkurborgar og Farfugla um rekstur Tjaldsvæðisins.

Tímabært var að ráðist yrði í endurbætur en hluti af aðstöðunni er frá því tjaldsvæðið var opnað árið 1986 og það ár voru um 12.000 gistinætur á svæðinu.  Á síðasta ári voru gistinæturnar hins vegar orðnar 42.700 talsins og á þessu ári er gert ráð fyrir að þær verði um 46.000.

Harmonikuhátíð á Árbæjarsafni

Sunnudaginn 12. júlí, verður hin árlega Harmonikuhátíð Reykjavíkur haldin venju samkvæmt á Árbæjarsafni og hefst dagskráin kl. 13:00. Munu þar koma fram margir af okkar bestu og þekktustu harmonikuleikurum í skemmtilegu umhverfi safnsins.

Á safninu geta gestir jafnframt fylgst með og tekið virkan þátt í heyönnum eins og þær tíðkuðust fyrir daga heyvinnuvéla, með þeim fyrirvara að veður haldist þurrt. Um aldir höfðu Íslendingar engin önnur verkfæri en ljá, orf og hrífu til að afla vetrarforðans. Víða var heyjað upp á gamla mátann fram yfir miðja síðustu öld, en nú eru gömlu handbrögðin sjaldséð í sveitum landsins.

Dagskrá dagsins endar síðan með samspili allra harmonikuflytjenda undir stjórn Karls Jónatanssonar.

Hálendisvakt björgunarsveita hafin

Í byrjun júlí hófst hálendisvakt björgunarsveita. Samhliða því ætla tæplega 100 sjálfboðaliðar Slysavarnafélagsins Landsbjargar að standa vaktina á mörgum viðkomustöðum ferðamanna víða um land. Má nefna auk Reykjavíkur, Selfoss, Borgarnes, Ísafjörð, Varmahlíð, Akureyri, Egilsstaði og Höfn.

Slysavarnafélagið Landsbjörg hefur nú sinnt slysavörnum ferðafólks í 10 ár en þá var hálendisvakt björgunarsveita sett í gang í fyrsta sinn. Síðan þá hefur verkefnið þróast og stækkað frá ári til árs. Innan þess er vefsíðan Safetravel, upplýsingaskjáir með öryggisleiðbeiningum á fjölförnum ferðamannastöðum og í ár er félagið með aðstöðu og starfsmann í upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík til að fræða og leiðbeina ferðafólki.

Spjallað verður við ökumenn og ferðalanga, þeim afhent fræðsluefni frá Neyðarlínu, Sjóvá og Safetravel og börnum boðið að fá sér sæti á fjórhjólum til að láta mömmu eða pabba smella af sér mynd. Aðalatriðið er þó að vekja athygli á nauðsyn öruggrar ferðahegðunar og sérstökum aðstæðum á hálendinu þessar vikurnar.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að aðstæður á hálendi og til fjalla eru um margt óvenjulegar og jafnvel hættulegar. Þekking á aðstæðum, reynsla og góð ferðahegðun er því enn mikilvægari þetta sumarið en oft áður.

1665

Mynd: Jón Svanberg Hjartarson  / Landsbjorg.is

A landslið karla í 23. sæti á FIFA listanum

A landslið karla í knattspyrnu er í sinni hæstu stöðu á styrkleikalista FIFA frá því mælingar hófust.  Á nýútgefnum lista er Ísland í 23. sæti af öllum aðildarþjóðum FIFA og ef einungis Evrópuþjóðir eru teknar með í reikninginn er Ísland númer 16 í röðinni og jafnframt efst Norðurlandaþjóða.  Íslenska liðið tók svo sannarlega stökk frá síðasta lista, fer upp um heil 14 sæti. Þetta er hæsta staða liðsins frá því mælingar hófust.

Argentína kemst í efsta sæti listans og fer þar með upp fyrir Þýskaland og Belgíu.  Kólumbía er í fjórða sæti og næstu mótherjar Íslands í undankeppni EM 2016, Hollendingar, eru í 5. sæti.  Af öðrum þjóðum sem eru í 1. riðli með Íslandi og Hollandi er það að frétta að Tékkar eru í 20. sæti, Tyrkir í 48. sæti, Lettar í 87. sæti og Kasakar í sæti 142.