350 íbúðir geta risið við Öskjuhlíð

Allt að 350 litlar og meðalstórar íbúðir munu rísa við rætur Öskjuhlíðar samkvæmt breyttri deiliskipulagstillögu Kanon arkitekta, sem borgarráð hefur samþykkt að setja í auglýsingu. Með uppbyggingu byggðar á þessum stað hyggst Háskólinn í Reykjavík styrkja baklandið fyrir fjölþætta starfsemi þekkingarsamfélags og framtíðaruppbyggingu háskólans á svæði við Nauthólsveg.

Með deiliskipulaginu er afmörkuð ein ný lóð, sem verður samtals um 3.2 ha að stærð. Á svæðinu verður heimilt að byggja allt að 350 íbúðir og er miðað við frekar litlar íbúðir en einnig einstaklingsherbergi með sameiginlegri aðstöðu. Það er Háskólinn í Reykjavík sem mun standa fyrir uppbyggingunni á þessum frábæra stað í grennd við skólann. Byggðin verður almennt  tvær til fjórar hæðir en ein hæð syðst. Á jarðhæð íbúðarhúsa meðfram Nauthólsvegi er gert ráð fyrir möguleika á verslun og þjónustu.  Hægt verður að hafa kjallara undir byggingum. Þá munu inngarðar prýða svæðið.

Íbúðirnar eru ætlaðar til leigu og tímabundinnar búsetu fyrir nemendur og starfsfók fyrirtækjanna sem starfa hjá HR og þekkingarfyrirtækjum  í nágrenninu.  Syðst á skipulagssvæðinu er gert ráð fyrir dagvöruverslun í þjónustuhúsnæði og leikskóla.

Í deiliskipulaginu er áhersla lögð á vistvænar samgöngur í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og verður fjölda bílastæða breytt frá núgildandi deiliskipulagi í samræmi við það.

Heimild: reykjavik.is

CCP veitti Rauða krossinum 13,8 milljónir vegna Nepal

Starfsfólk CCP veitti fulltrúum Rauða krossins á Íslandi 13,8 milljónir króna, 103.650 þúsund dalir, til mannúðar- og hjálparstarfs í Nepal. Athöfnin fór fram við skrifstofur CCP en spilarar EVE Online söfnuðu upphæðinni og fór söfnunin fram í leiknum sjálfum.

Framlag CCP er sé stærsta einstaka framlagið í söfnun Rauða kross Íslands fyrir íbúa í Nepal. Þar á eftir koma íslensk stjórnvöld sem veittu tíu milljónir króna í mannúðaraðstoð til Alþjóðasambands landsfélaga Rauða krossins og Rauða hálfmánans vegna jarðskjálftanna.

Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP, segir að starfsmenn hafi fylgst með eyðileggingunni og hörmungunum sem dunið hafa yfir Nepal í kjölfar jarðskjálftana, og bæði þeir og spilarar EVE Online hafi viljað reyna gera eitthvað til að hjálpa.

Einstaklingar geta lagt söfnun Rauða krossins lið lið með því að hringja í 904-1500 (framlag: 1.500 kr), 904-2500 (framlag 2.500 kr) eða 904-5500 (framlag 5.500 kr). Þá er einnig hægt að leggja fé inn á reikning Rauða krossins 0342-26-12, kt. 530269-2649.

Texti: redcross.is

Ný ljósmyndasýning í Þjóðminjasafninu

Í dag, laugardaginn 6. júní kl. 15 verður opnuð í Myndasal Þjóðminjasafnsins fyrsta einkasýning ljósmyndarans Valdimars Thorlacius. Sýningin ber heitið I Ein/Einn og sýnir heim einfara.

Með ljósmyndunum eru sagðar sögur af heimi einfara til bæja og sveita.  Myndirnar sýna einbúa í daglegu lífi; að dytta að húsnæði, hlusta á veðurfréttir, lesa blöðin og blunda yfir sjónvarpsfréttum en tíminn líður hægt í heimi einfarans. Með ljósmyndum sínum nær hinn ungi ljósmyndari að miðla þessum sérstaka heimi til sýningargesta.

Sama dag kemur út bók um ljósmyndaverkefnið hjá Crymogeu.

Color run hlaupið

The Color Run í boði Alvogen er ekkert venjulegt hlaup heldur óviðjafnanleg upplifun og fullkomin fjölskylduskemmtun. Taktu þátt í litríkasta og skemmtilegasta hlaupi sumarsins sem hefur farið sigurför um heiminn og styður við réttindi og velferð barna. Hlaupið fer fram í dag, laugardaginn 6. júní 2015.  Nánari upplýsingar hér.

 • Dagsetning
  6. júní 2015
 • Staður
  Hljómskálagarðurinn í miðbæ Reykjavíkur
 • Upphitun í Hljómskálagarðinum
  09.00 -11.00
 • Fyrsti ráshópur
  11:00 og fram til ca. 13.00
  Ræst verður út í um það bil 300 manna hópum á nokkurra mínútna fresti.

Umhverfisvæn eyðing gróðurs

Vegagerðin og Reykjavíkurborg vinna nú í sameiningu að tilraunum með umhverfisvæna gróðureyðingu. Mikilvægt er fyrir veghaldara að geta eytt gróðri sem getur hvorttveggja eyðilagt vegi og hindrað sýn. Í umferðaröryggislegu tilliti er það nauðsynlegt. Sláttur og eyðing með eitri hafa verið aðferðirnar hingað til. En nú er gerðar tilraunir með aðferð frá NCC Roads sem er algerlega umhverfisvæn. Kallast Spuma en hefur verið þýtt af Reykjavík sem Góði eyðirinn.
Starfsmenn Reykjavíkurborgar og Vegagerðarinnar hafa sótt námskeið í notkun búnaðarins síðustu daga hjá Stig Nielsen sérfræðingi hjá NCC Roads sem starfar á Norðurlöndum, en fyrirtækið  framleiðir og selur Spuma. Heitið Spuma er komið úr latínu og þýðir froða.
Eyðing gróðursins byggir á hita en unnið er með 95 – 98 gráðu heitt vatn, ekki ósvipað þeirri aðferð að sem margir nota heima í sínum garði þegar þeir sjóða vatn og hella yfir óæskilegar plöntur. Eftir því sem hitinn er meiri og varir lengur nær eyðingarmátturinn neðar í rótina. Til að halda hitanum lengur á plöntunum kemur froðan yfir til einangrunar, en hún er búin til úr afurðum maíss og kókospálma.  Þessi aðferð hefur verið notuð í 10 ár í Danmörku með góðum árangri, efnin eru umhverfisvæn og hafa fengið jákvæða umsögn Umhverfisstofnunar.
Enginn hætta er af froðunni og hún skemmir ekki skó, eða lakk eða hjólbarða eða reiðhjól. Óhætt er meira að segja að bragða á froðunni svo sem menn hafa gert í þessum tilraunum, jafnt þeir sem eru að læra aðferðina sem og forvitnir vegfarendur.
Texti: vegag.is