Gríðarlega erfiður vetur í vetrarþjónustu

Snjómoksturstæki í vinnu fyrir Vegagerðina fóru vegalengd í vetur sem jafngildir því að hafa farið 4,4 sinnum til tunglsins. Veturinn var einn sá erfiðasti í vetrarþjónustu hjá Vegagerðinni og þurfti að sinna þjónustu mokstri eða hálkuvörnum upp á hvern einasta dag.

Áætla má að á  landinu öllu hafi   snjómoksturstækin ekið um 1.690.000 km, og notað 19.400 tonn af salti (salt í pækli og sandi meðtalið), 6.000 rúmmetrar af pækli og 13.000 tonn af sandi.

Á landinu öllu voru þjónustudagarnir 212 sem eru allir dagarnir eða 100 prósent. Það þurfti því að þjónusta vegakerfið upp á hvern einasta dag, einhversstaðar sem er óvenjuleg staða.

Kostnaðurinn við þetta var að meðaltali um 9,2 milljónir króna við snjómoksturinn einan.  Á erfiðustu dögunum í vetur var kostnaðurinn á dag við snjómoksturinn á landinu öllu farið upp 22 – 25 milljónir króna.

Heimild: vegag.is

Tvö framboð til formanns Landsbjargar

Frestur er útrunninn til að skila inn framboðum til formanns Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í stjórn og milliþinganefndir. Kosið verður í þessar stöður á landsþingi félagsins sem haldið verður á Ísafirði 29. -30. maí.

Tvö framboð bárust til formanns; frá Margréti L. Laxdal, Slysavarnadeildinni Dalvík og Smára Sigurðssyni frá Súlum, björgunarsveitinni á Akureyri. Hörður Már Harðarson, núverandi formaður félagsins, dró framboð sitt til baka af persónulegum ástæðum.

Forinnritun 10. bekkinga í framhaldsskóla lokið

Forinnritun 10. bekkinga í framhaldsskóla lauk á miðnætti 10. apríl. Alls tóku 3.824 nemendur þátt og eru því um 88% allra 10. bekkinga búnir að velja sér framhaldsskóla. Þrír skólar þ.e. Kvennaskólinn, Menntaskólinn við Hamrahlíð og Verslunarskóli Íslands, fengu flestar umsóknir en alls völdu 30% allra sem tóku þátt þessa þrjá skóla sem sitt fyrsta val og því ljóst að umræddir skólar fengu umsóknir frá töluvert fleiri nemendum en þeir geta tekið við.

Vert er að benda á að allir þessir skólar eru meðal þeirra sem koma til með að bjóða upp á þriggja ára nám til stúdentsprófs næsta haust.

Niðurstöður forinnritunar eru með svipuðum hætti og síðasta vor en þá komust um 98% nemenda inn í annan af þeim skólum sem þeir völdu sér.

Hjúkrunarráð Landspítala ályktar um verkfall BHM

Stjórn hjúkrunarráðs Landspítala lýsir yfir verulegum áhyggjum vegna verkfalls félagsmanna BHM. Verkfallsaðgerðir hafa þegar valdið auknu álagi á heilbrigðisstarfsmenn sem getur ógnað öryggi sjúklinga. Verkfallið nær til um 500 starfsmanna spítalans og hefur mikil áhrif á starfsemi og þjónustu við skjólstæðinga eins og rannsóknir, aðgerðir og meðferð alvarlegra sjúkdóma. Biðlistar eftir þjónustu hafa nú þegar lengst töluvert síðustu mánuði og verkfallsaðgerðirnar nú munu lengja þessa biðlista enn frekar.
Hjúkrunarráð hefur ítrekað bent á mikið álag á Landspítala og skort á heilbrigðisstarfsfólki. Brýnt er að bæta kjör og starfsaðstæður háskólamenntaðs starfsfólks á Landspítala svo heilbrigðiskerfið á Íslandi verði samkeppnishæft við önnur lönd um starfskrafta fagfólks.
Stjórn hjúkrunarráðs hvetur stjórnvöld til að meta menntun og ábyrgð til launa og semja við félagsmenn BHM hið fyrsta.

Greining á upplýsingakerfum ríkisstofnana

Koma þarf á fót sérstakri starfseiningu innan stjórnsýslunnar sem fer með yfirstjórn í upplýsingatæknimálum og markar stefnu í málaflokknum. Þetta er meðal niðurstaðna í nýrri greiningu á upplýsingakerfum ríkisstofnana sem Capacent vann fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Markmið greiningarinnar var að fá stöðumat á upplýsingatæknimálum ríkisins, sem lið í vinnu við mótun stefnu ríkisins í þessum málum.

Fram kemur í greiningu Capacent að auka þurfi gagnasamskipti milli stofnana, m.a. með samnýtingu fjárfestingar í vefþjónustu. Huga eigi að sameiginlegum rekstri upplýsingakerfa ríkisins og móta stefnu um tölvuský, sem felur í sér geymslu gagna í netþjóni.

Samstarf í kjaramálum

Samstarf hins opinbera í kjaramálum eflist til muna með stofnun kjaramálaráðs, en samkomulag um koma því á laggirnar var undirritað í vikunni á samráðsfundi ríkis og sveitarfélaga.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenska sveitarfélaga, og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, undirrituðu samkomulagið.  Undanfarin ár hafa ríki og sveitarfélög átt ákveðið samstarf í kjaramálum en með samkomulaginu er markmiðið að auka það enn frekar.

Helstu verkefni kjaramálaráðs eru:

  • Greina almennar efnahagsforsendur og gera tillögu um sameiginlega stefnu varðandi svigrúm til launahækkana.
  • Vera vettvangur upplýsingagjafar og samráðs varðandi almenn samskipti aðila á vinnumarkaði og mál sem varða réttindi opinberra starfsmanna, s.s. lífeyrismál.
  • Fjalla um meginþætti kjarastefnu aðila og gera tillögu um sameiginlegar áherslur og markmið við kjarasamningsgerðina.
  • Fylgjast með gangi samningaviðræðna á grundvelli samráðsfunda með formönnum samninganefnda og reglulegrar upplýsingagjafar frá þeim.
  • Rýna kjarasamninga áður en þeir koma til endanlegrar samþykktar aðila, meta um hvort þeir rúmist innan markaðrar stefnu aðila og veita umsagnir ef tilefni er til.

Kanna möguleika á fjölgun lendingarstaða í millilandaflugi

Ríkisstjórnin hefur að tillögu forsætisráðherra samþykkt að skipa starfshóp sem fær það hlutverk að kanna hvernig koma megi á reglulegu millilandaflugi um flugvellina á Akureyri og Egilsstöðum. Starfshópurinn skal greina framkvæmdaratriði, kostnað, þátttöku einstakra ríkisstofnana/fyrirtækja, landshluta og fyrirtækja í viðkomandi landshluta og markaðssetningu. Starfshópurinn verður skipaður til þriggja mánaða og í lok starfstímans skal hann skila af sér tillögum í formi aðgerða- og kostnaðaráætlunar.

Fulltrúar frá Íslandsstofu, Isavia, innanríkisráðuneytinu og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu munu skipa starfshópinn, ásamt fulltrúum frá ólíkum landshlutum. Fulltrúi forsætisráðuneytisins mun stýra vinnunni auk þess sem starfsmaður hópsins mun koma frá forsætisráðuneytinu.

Tæp milljón ferðamanna kom til Íslands með flugi á síðasta ári og spár gera ráð fyrir mikilli fjölgun á næstu árum. Mikill meirihluti erlendra ferðamanna heimsækir einungis suðvesturhorn landsins og aðrir landshlutar njóta síður þeirrar miklu fjölgunar ferðamanna sem orðið hefur. Ríkisstjórnin vill stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um landið, enda megi þannig dreifa því álagi á náttúruna sem fylgir auknum ferðamannastraumi. Þá skapist með aukinni dreifingu tækifæri fyrir fleiri landshluta til að byggja upp víðtækari þjónustu allt árið um kring og til að styrkja inniviði samfélagsins á viðkomandi landsvæði.

Þetta kemur fram á vef Forsætisráðuneytisins.

Stýrihópur um alþjóðlega björgunar- og viðbragðsmiðstöð

Ólöf Nordal innanríkisráðherra hefur skipað í stýrihóp til að útfæra tillögur um alþjóðlega björgunar- og viðbragðsmiðstöð á Íslandi. Skal hópurinn skila áfangaskýrslu eigi síðar en 1. júlí næstkomandi.

Formaður hópsins er Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, og með honum í hópnum þau Gunnar Pálsson sendiherra og Sóley Kaldal verkfræðingur. Verkefnisstjóri hópsins er Auðunn Kristinsson, yfirstýrimaður hjá Landhelgisgæslunni.

Stýrihópurinn skal hafa samráð við innlenda og erlenda aðila sem eiga mikið undir því að leit og björgun, þjálfun og þekkingarmiðlun á norðurheimskautssvæðinu sé fullnægjandi. Hópnum til fulltingis verður samráðshópur innanríkisráðuneytis og utanríkisráðuneytis sem komið hefur að verkefninu frá árinu 2013.

Þetta kemur fram á vef Innanríkisráðuneytis.