Verslunin Zara lækkar vöruverð

Verslunin Zara í Smáralind hefur stórlækkað verð hjá sér en verð lækkaði nú á dögunum um 11-25%. Þetta er gert til að jafna verðbilið á milli Zöru verslana hérlendis og erlendis. Verðlækkunin er varanleg og mis mikil eftir vörum en að meðaltali lækkar verðlag í versluninni um ríflega 14%.

Þetta eru heldur betur gleðifréttir fyrir aðdáendur Zöru á Íslandi og frábært framtak hjá rekstraraðilum Zöru.

Rýmri heimildir til notkunar á þjóðfánanum

Heimildir til notkunar á íslenska þjóðfánanum við markaðssetningu á íslenskum vörum og þjónustu eru rýmkaðar í lagafrumvarpi sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja fyrir Alþingi. Reglur verða einfaldaðar og verði frumvarpið að lögum þarf ekki að sækja um leyfi til að nota þjóðfánann við markaðssetningu á vörum og þjónustu sem er íslensk að uppruna. Þar er átt við vöru sem er framleidd á Íslandi og úr innlendu hráefni að uppistöðu til, svo sem íslenskum landbúnaðar- og sjávarafurðum, eldisfiski, íslensku grænmeti og öðrum jurtum sem ræktaðar eru hér á landi, íslensku vatni o.s.frv.

Að auki er lagt til að vara sem framleidd hafi verið á Íslandi í a.m.k. 30 ára undir íslensku vörumerki teljist íslensk, jafnvel þótt hráefnið sé innflutt og það sama gildi um um matvöru sem er framleidd samkvæmt íslenskri hefð, t.d. kleinur, laufabrauð o.fl.  Þá er lagt til að hönnunarvara teljist íslensk ef hún er hönnuð af íslenskum aðila undir íslensku vörumerki, jafnvel þótt hún sé framleidd erlendis úr erlendu hráefni. Loks er kveðið á um að hugverk teljist íslenskt að uppruna ef það er samið af íslenskum aðila.

Neytendastofa fær það hlutverk að veita leyfi fyrir notkun þjóðfánans í vörumerki en notkun í firmamerki verður alfarið óheimil.

Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.

Rauði krossinn leitar að sumarfólki

Rauði krossinn á Íslandi leitar að góðu fólki á aldrinum 20-30 ára til að starfa með félaginu í sumar. Um er að ræða vinnu hálfan daginn sem felur í sér söfnun Mannvina – sem eru styrktarfélagar Rauða krossins.  Nánar um verkefnið hér.

Viðkomandi þarf að hafa áhuga á mannúðarmálum, hafa góða framkomu, vera jákvæður og geta unnið sjálfstætt. Þekking og reynsla af störfum Rauða krossins er kostur.

Vinsamlega sendið umsókn með ferilskrá og meðmælum á helga@redcross.is fyrir 13. apríl.

Eldhús og matsalir Landspítala hafa fengið umhverfisvottun

Eldhús og matsalir Landspítala (ELM) hafa fengið Svansvottun sem staðfestir að þjónustan uppfylli strangar umhverfis- og gæðakröfur. Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, hefur afhent Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítala, staðfestinguna um Svansvottun. Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna.

Eldhúsið og matsalirnir tíu framleiða og selja 4.500 máltíðir á dag fyrir starfsmenn, gesti og sjúklinga spítalans. Tækifærin eru því mörg til að leggja umhverfinu lið sem samræmist vel metnaðarfullri umhverfisstefnu Landspítala.

Um nokkurt skeið hefur verið unnið markvisst að því að gera starfsemina umhverfisvænni.  Fjöldi starfsmanna hefur komið að þeirri vinnu auk þess sem gestir í matsölum hafa lagt sitt af mörkum með aukinni flokkun og margnota matarboxum. Birgjar hafa einnig hjálpað til með því að auka framboð af umhverfisvottuðum hreinsiefnum og pappírsþurrkum, umhverfisvænni ílátum auk þess að flytja inn lífrænt ræktaðar matvörur í magnumbúðum sem áður voru ekki til.

Þetta kemur fram á vef Landspítala.

eldhus_matsalir_svansvottun_2015

Verkefnið Skátafélag á grænni grein

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, hleypti á þriðjudag af stokkunum verkefninu „Skátafélag á grænni grein“ með því að afhenda fulltrúum Skátafélagsins Árbúum fyrsta eintakið af gátlista og veggspjaldi, þar sem skrefin sjö að „Græna skildinum“ eru tíunduð.

Verkefnið er liður í þeirri viðleitni skátahreyfingarinnar að lágmarka umhverfisáhrif skátastarfsins og lýtur að rekstri skátaheimila. Skátafélag getur þannig áunnið sér „Græna skjöldinn“ sem er ný umhverfisviðurkenning Bandalags íslenskra skáta, með því að taka sjö, skilgreind skref í átt að bættri umhverfisstjórnun skátaheimilanna. Skrefin lúta að því að hafa sérstaka umhverfisnefnd starfandi í skátafélaginu, meta stöðu umhverfismála, gera áætlun um aðgerðir og markmið, hafa eftirlit með umhverfisstarfinu og endurmeta það reglulega, veita skátum félagsins markvissa fræðslu í umhverfismálum, að leitast við að hafa áhrif á umhverfisstarf út fyrir félagið og setja félaginu umhverfissáttmála sem lýsir stefnu þess í umhverfismálum.

Þetta kemur fram á vef Umhverfisráðuneytisins.

skatar-stiga-graen-skref

Metaðsókn á ráðstefnu um ferðaþjónustu

Metaðsókn var á ráðstefnu Landsbankans um ferðaþjónustu sem haldin var í Hörpu 24. mars undir yfirskriftinni Eru milljón ferðamenn vandamál? Rúmlega 450 manns skráðu sig á ráðstefnuna og hafa aldrei verið fleiri, en Landsbankinn hefur undanfarin ár staðið fyrir stórum vorráðstefnum um stöðu og horfur í ferðaþjónstu á Íslandi.

Á ráðstefnunni kynnti Gústaf Steingrímsson hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans nýja úttekt bankans á mikilvægi ferðaþjónustunnar í íslensku efnahagslífi. Elín Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Isavia, kynnti uppbyggingaráætlun Isavia á Keflavíkurflugvelli til næstu 25 ára og allar þær fjárfestingar sem ráðast þarf í til að anna fyrirsjáanlegri fjölgun ferðamanna næstu árin. Davíð Björnsson forstöðumaður á Fyrirtækjasviði Landsbankans fór yfir hótelmarkaðinn í Reykjavík og þá uppbyggingu sem framundan er á því sviði.

Aðalræðumaður ráðstefnunnar var bandaríkjamaðurinn Doug Lansky sem er þekktur fyrirlesari, blaðamaður, ráðgjafi og rithöfundur. Lansky ræddi um þær skyldur sem stöðug fjölgun ferðamanna leggur ferðaþjónustunni á herðar og hvernig hægt væri að halda áfangastöðum spennandi um lengri tíma.

Salur_Landsbankinn-515

Heimild: Landsbankinn.is

13 ára mega aka léttu bifhjóli og verða skráningarskyld

Í lok febrúar samþykkti Alþingi ýmsar breytingar á umferðarlögum sem snerta meðal annars skilgreiningar ökutækja og reglur um akstur bifhjóla. Lögin um ákvæði léttra bifhjóla í flokki I taka gildi þann 1. apríl næstkomandi.

Breytt er skilgreiningunni á léttu bifhjóli á þann veg að til verða tveir flokkar, annars vegar létt bifhjól í flokki I (rafmagnsvespa) sem ekki er hannað til hraðari aksturs en 25 km á klst. og hins vegar létt bifhjól í flokki II sem er hannað til hraðari aksturs en 25 km á klst. Heimilt er að aka léttu bifhjóli í flokki I á akbraut, gangstétt, hjólastíg eða gangstíg enda valdi það ekki hættu eða óþægindum en ef hjólastígur er samhliða gangstétt eða gangstíg er einungis heimilt að aka á því hjólastígnum. Létt bifhjól í flokki I verða jafnframt skráningarskyld hjá Samgöngustofu frá og með 1. apríl næstkomandi. Ekki þarf að hafa sérstök ökuréttindi til að aka þeim en ökumaður þarf að vera 13 ára gamall.

Nánar má lesa á vef Innanríksráðuneytisins.

Flestir samþykktu leiðréttingu húsnæðislána

Þriggja mánaða frestur til þess að samþykkja ráðstöfun leiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána rann út á miðnætti hjá þeim umsækjendum um leiðréttingu sem gátu samþykkt hana frá 23. desember sl. Af þessum hópi samþykktu 99,4% ráðstöfun leiðréttingarinnar. 553 einstaklingar samþykktu ekki ráðstöfunina.

Frá því að útreikningar um leiðréttingu verðtryggðra húsnæðislána voru birtir hafa starfsmenn ríkisskattstjóra lagt áherslu á að afgreiða allar athugsemdir og fyrirspurnir fólks í kjölfar birtingar. Þessi vinna hefur gengið vel og hafa þúsundir erinda verið afgreidd.

Um 3,9% umsækjenda eiga eftir að fá sínar niðurstöður birtar. Þessar umsóknir tengjast m.a. dánarbúum, uppfylla ekki skilyrði til leiðréttingar eða vandkvæði eru við að tengja heimilissögu eða lán við umsækjendur.  Unnið er að því hjá ríkisskattstjóra að leysa úr þessum umsóknum og er stefnt að því að því verði lokið nú á vormánuðum.

Auk leiðréttingar verðtryggðra húsnæðislána gefst fólki kostur á því að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði inn á húsnæðislán en ekki þarf að greiða skatt af upphæðunum. Í gær höfðu 33.300 einstaklingar sótt um að ráðstafa viðbótarlífeyrissparnaði.

Þetta kemur fram á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins.

Íbúafundur um Laugardalinn

Opinn íbúafundur í Laugabóli, félagshúsi Þróttara, mánudaginn 23. mars kl. 19:30.

Framsöguerindi flytja:

  • Björn Jón Bragason, sagnfræðingur: „Laugardalur fyrr og nú“.
  • Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar: „Umhverfi og skipulag í Laugardal“.
  • Lilja Sigrún Jónsdóttir, í stjórn Íbúasamtaka Laugardals: „Ræðum framtíð Laugardals“.

Á eftir verða pallborðsumræður með þátttöku ýmissa aðila sem tengjast starfsemi Laugardalsins.

Fundarstjóri: Heiðar Ingi Svansson, formaður Hverfisráðs Laugardals.

Kaffi verður á könnunni. Fundurinn er öllum opinn og aðgangur er ókeypis.

Vinningstillaga um uppbyggingar á Keflavíkurflugvelli

Hönnunarstofan Nordic – Office of Architecture í Noregi varð hlutskörpust í hönnunarsamkeppni um gerð uppbyggingar- og þróunaráætlunar (Masterplan) Keflavíkurflugvallar til næstu 25 ára. Þetta kemur fram á vef Isavia.

Sýning á tillögum sem bárust frá 6 alþjóðlegum hönnunarstofum hefur verið sett upp á skrifstofum Isavia á þriðju hæð í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og verður hún opin almenningi kl. 9 – 16 alla virka daga til 20. mars næstkomandi.

Vinningstillagan þótti skara fram úr varðandi sjálfbærni og skipulags- og umhverfismál auk þess sem skýr stefna er sett í tekjusköpun á uppbyggingartíma og rík árhersla er á  samráð við hagsmunaaðila og nærsamfélag flugvallarins. Tillagan gerir ráð fyrir stækkun flugstöðvarinnar til norðurs og lagningu nýrrar norður-suður flugbrautar vestan við flugvöllinn í framtíðinni.

Keflavik Masterplan_A0 plansjer.indd

Nordic – Office of Arthitecture hefur haft með höndum mörg stór þróunarverkefni svo sem stækkun flugvallanna í Osló, Björgvin og Zuzhny í Rússlandi. Verkefnastjóri tillögunnar er íslenskur og þekkir vel umhverfi Keflavíkurflugvallar. Samstarfsaðili Nordic í verkefninu er ráðgjafarfyrirtækið COWI A/S í Danmörku.

Fyrirtækið mun á næstu mánuðum  vinna að frekari útfærslu á tillögum sínum í samráði við Isavia og er stefnt að því að fullmótaðri uppbyggingar- og þróunaráætlun verði skilað í september næstkomandi. Verður hún unnin í nánu samráði við hagsmunaaðila flugvallarins og mun vera leiðarljós í framtíðarskipulagi svæðisins.

Fyrsta skóflustungan tekin að Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur

Ill­ugi Gunn­ars­son, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra, frú Vig­dís Finn­boga­dótt­ir, fyrr­ver­andi for­seti Íslands, og Krist­ín Ing­ólfs­dótt­ir, rektor Há­skóla Íslands, tóku fyrstu skóflu­stungu að ný­bygg­ingu fyr­ir Stofn­un Vig­dís­ar Finn­boga­dótt­ur í er­lend­um tungu­mál­um við Há­skóla Íslands sl. sunnu­dag.

Byggingin mun rísa á horni Suðurgötu og Brynjólfsgötu og verður um 4.000 fermetrar að stærð, ásamt bílakjallara og tengigangi sem tengir bygginguna við Háskólatorg. Markmið byggingarinnar er tvíþætt, annars vegnar að skapa aðstöðu fyrir starfsemi alþjóðlegrar tungumálamiðstöðvar og hins vegar að skapa aðstöðu til kennslu, rannsókna og miðlunar þekkingar um tungumál til almennings og þekkingarsamfélagsins. Arkitektar byggingarinnar eru Kristján Garðarsson og Haraldur Örn Jónsson.

hus_model_10

Um 500 björgunarsveitarmenn sinna 600 verkefnum

Gríðarlegt álag hefur verið á björgunarsveitum landsins það sem af er degi. Hafa þær sinnt á sjötta hundruð verkefna og hafa hátt í 500 manns tekið þátt í að leysa þau. Þetta kemur fram á vef Landsbjargar.

Á höfuðborgarsvæðinu hófu aðstoðarbeiðnir að streyma inn snemma í morgun og fljótt varð ljóst að kalla varð út allt tiltækt lið. Um 160 manns hafa unnið í allan morgun á öllum tiltækum tækjum sveitanna við að leysa verkefnin. Var þeim forgangsraðað eftir alvarleika.

Um 60 manns sinntu um og yfir 50 verkefni á Suðurnesjum í dag.

Einnig var mikið að gera á Vestfjörðum þar sem 40 manns tóku þátt í aðgerðum, í Skagafirði þar sem 27 björgunarsveitamenn sinntu 17 verkefnum, á Snæfellsnesi voru 27 björgunarmenn sem leystu úr 16 verkefnum, Húnar og Blanda voru með 17 manns í 13 verkefnum, í Eyjafirði leystu sveitir frá Hrísey, Akureyri og Eyjafjarðasveit 10 verkefni og voru settir í þau 19 manns, á Dalvík leystu 11 manns 7 verkefni, í Borgarfirði og nágrenni voru Brák, Elliði og Ósk úti og sinntu 11 verkefnum, 12 björgunarmenn voru að störfum á Hellu, níu manns á Seyðisfirði og 8 á Hólmavík.

Einnig var kallað út á Vopnafirði,Reykholti, Hvolsvelli, Hólmavík og Selfossi svo eitthvað sé nefnt.

Mörg útköll á höfuðborgarsvæðinu í morgun

Mikið hefur verið um útköll á svæði Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag, þar á meðal gegnum 112. Símtölum var ekki annað á tímabili og var fólk beðið um að hringja í númerið 570-2080, ef neyðarástand skapaðist ekki væri svarað í 112.

Útköll hafa flest verið tengd því ofsaveðri sem fór yfir höfuðborgarsvæðið í morgun, en jafnvægi er nú komið á útköll sem eru að berast.

Mikil og góð samvinna var á milli Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og öðrum útkallsaðilum eins og björgunarsveitum, slökkviliði , Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra og fleiri.

Þetta kemur fram á vef lögreglunnar.

Tæplega 200 björgunarsveitarmenn að störfum

Nú eru glerhýsi, tré, þakkantar, þakplötur, strætisvagnaskýli og annað lauslegt að fjúka á höfuðborgarsvæðinu. Á annaðhundrað björgunarsveitarmenn eru að störfum á höfuðborgarsvæðinu.

Veðurspá með roki og miklu vatnsveðri virðist vera að ganga eftir á svo til öllu landinu með 25-30 m/s og þar sem hviður ná sér upp allt að 50-60 m/s. Mikill vatnselgur er víða á vegum. Í Mosfellsbæ eru björgunarsveitarmenn að störfum, en mikill vatnselgur er í Álafosskvosinni og víðar.

Þetta segir í tilkynningu frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra.

Mikið álag hjá neyðarlínunni

Mikið álag er á 112 vegna tilkynninga um foktjón.  Fólk er beðið um að nota ekki 112 nema í neyðartilvikum núna þegar mesti hvellurinn er að ganga yfir.   Ef fólk nær ekki samband er hægt að hringja í 570-2080 eða senda SMS í 112.
Hægt er að senda Lögreglunni tilkynningar um minna alvarleg mál gegnum fésbókarsíðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. www.facebook.com/logreglan

Nýir veitingastaðir í flugstöðinni

ISAVIA hefur greint frá því að fyrsta áfanga við endurnýjun á verslunar- og veitingasvæði í Flugstöð Leifs Eiríkssonar sé lokið með opnun tveggja nýrra veitingastaða og einnar verslunar. Framkvæmdir á svæðinu munu halda áfram og verða lokið í áföngum fram í miðjan maí n.k.
Tveir nýir veitingastaðir, Mathús og Loksins Bar, hafa tekið til starfa. Báðir leggja þeir áherslu á að skapa íslenskt andrúmsloft og komu margir íslenskir hönnuðir að hönnun þeirra. Mathús verður stærsti veitingastaðurinn á svæðinu og mun bjóða upp á fjölskylduvænan mat. Loksins Bar leggur áherslu á íslenskan bjór og hefur yfir 30 bjórtegundir frá íslenskum brugghúsum á boðstólum. Þá hefur Optical Studio opnað verslun sína á nýjum stað en verslunin hefur verið í flugstöðinni í 16 ár.
Sex verslanir og einn veitingastaður, sem áður voru á svæðinu, voru valin í forvali til þess að halda áfram rekstri en við bætast tvær nýjar verslanir og fjórir veitingastaðir. Verslanirnar 66°N, Bláa Lónið, Elko, Eymundsson, Optical Studio og Rammagerðin munu allar halda áfram starfsemi í flugstöðinni. Við bætast tískuvöruverslun með þekkt erlend vörumerki ásamt íslenskri hönnun og sælkeraverslunin Nord.  Fjórir nýir drykkjar- og matsölustaðir opna á fríhafnarsvæðinu, staðirnir Mathús , Loksins bar, Segafredo og Joe and the Juice.
loksins-og-mathusid-opna-1Heimild og mynd: isavia.is

Strætó ekur ekki vegna veðurs

Tilkynning frá strætó laugardaginn 14. mars:

Kæru farþegar. Því miður er ekki hægt að halda úti akstri vagnaflota Strætó sökum veðurs. Við biðjum ykkur innilegrar afsökunar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda en í aðstæðum sem þessum er öryggi farþega og starfsfólks sett umfram tímaáætlun. Athugað verður með akstur upp úr hádegi.

Landsbyggðin:

Allir vagnar sem keyra til og frá höfuðborgarsvæðinu falla niður vegna veðurs. Endilega fylgist með á vef veðustofunnar og  á vef straeto.is til að fylgjast með hvenær byrjað verður að keyra aftur.

Hönnunarmars á Sjóminjasafninu

Á Sjóminjasafninu munu íslenskir hönnuðir sýna hvað í þeim býr í tengslum við Hönnunarmars, dagana 12.-15. mars. Við hvetjum ykkur til þess að líta við á safninu, skoða sýninguna og það sem hönnuðurnir efnilegu hafa fram að færa. Verk eftir Terta Duo, Genitalia og Skötu. Auk þess munu nemendur úr Listaháskóla Íslands sýna verk sín.  Það er frítt inn á hönnunarmars.

Hönnunarmars01_2034900425

Icelandair aflýsir flugum vegna veðurs

Breytingar hafa orðið á flugi Icelandair í dag vegna veðurs í Keflavík. Öllum flugum frá Evrópu til Keflavíkur hefur verið seinkað. Flugum frá Bandaríkjunum til Keflavíkur að kvöldi 13. mars hefur verið seinkað.  Nánari upplýsingar hér hjá Icelandair.

Þeim flugum sem aflýst hefur verið í dag 14. mars eru:

  • FI306/FI307 til og frá Stokkhólmi
  • FI318/FI319 til og frá Osló
  • FI532/FI533 til og frá Munich
  • FI520/FI521 til og frá Frankfurt
  • FI542/FI543 til og frá París
  • FI450/FI451 til og frá London (Heathrow)
  • FI470/FI471 til og frá London (Gatwick)