Smáþjóðaleikarnir haldnir í Reykjavík í sumar

Smáþjóðaleikarnir munu fara fram dagana 1. til 6. júní 2015 í Reykjavík og eins og nafnið bendir til er um að ræða íþróttakeppni með þátttöku smáþjóða í Evrópu. Fyrstu leikarnir voru haldnir í San Marínó árið 1985 og voru 25 íslenskir þátttakendur á þeim en þeir verða um 200 á leikunum næsta sumar.

Níu þjóðir taka þátt í Smáþjóðaleikunum: Ísland, San Marínó, Andorra, Mónakó, Malta, Liechtenstein, Kýpur, Svartfjallaland og Lúxemborg. Keppt verður í frjálsum íþróttum, sundi, júdó, skotfimi, tennis, borðtennis, körfuknattleik, blaki, áhaldafimleikum og golfi. Gert er ráð fyrir að um 1200 sjálfboðaliða þurfi til að starfa á leikunum.

IMG_7594

70 þúsund rafræn skilríki gefin út

Hátt í sjötíu þúsund rafræn skilríki í farsíma hafa verið gefin út síðustu mánuði og símar eru nú orðnir algengasta leið fólks til að nota rafræn skilríki. Heildarfjöldi virkra rafrænna skilríkja er orðinn um 150 þúsund.

Notkun rafrænna skilríkja í síma eykst hratt og sýnir það að notendur taka þessari nýjung vel. Innskráningar með rafrænum skilríkjum í gegnum island.is hafa rúmlega fimmfaldast frá því í haust og mikil aukning hefur einnig orðið hjá öðrum aðilum sem bjóða upp á innskráningu með rafrænum skilríkjum í farsímum.
Sífellt fleiri þjónustuveitendur bætast í hóp þeirra sem nýtt hafa sér kosti rafrænna skilríkja og nú hafa allir bankar og sparisjóðir opnað fyrir innskráningu í heimabanka með rafrænum skilríkjum í farsíma. Þessa dagana gefst Reykvíkingum kostur á að taka þátt í íbúakosningum um betri hverfi og geta þá í fyrsta skipti kosið með rafrænum skilríkjum í farsíma. Þá hefur ríkisskattstjóri boðað að rafræn skilríki muni leysa veflykilinn af hólmi á næstunni.

Björn Zoëga ráðinn formaður verkefnastjórnar

Björn Zoëga læknir og fyrrverandi forstjóri Landspítala hefur verið ráðinn formaður verkefnastjórnar um betri heilbrigðisþjónustu. Verkefnastjórninni er ætlað að vinna á grundvelli yfirlýsingar forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, heilbrigðisráðherra, Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands frá 8. janúar sl.

Verkefnisstjórn mun einnig taka við stjórn verkefnisins Betri heilbrigðisþjónusta 2013 – 2017 sem heilbrigðisráðherra setti af stað í upphafi síðasta árs. Undir það verkefni féllu sjö verkhlutar og eru fjórir þeirra komnir í framkvæmd en þremur er ekki lokið og munu verða hluti af ofangreindu verkefni. Í verkefnisstjórninni munu eiga sæti  fimm manns.

 

Háskólinn fær Loftskeytastöðina

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, og Margrét Hallgrímsdóttir þjóðminjavörður undirrituðu í vikunni samning um að Þjóðminjasafn Íslands afhendi Háskóla Íslands gömlu Loftskeytastöðina við Brynjólfsgötu 5 til afnota.

Með gjafasamningi og afsali gaf Landssími Íslands ríkissjóði Loftskeytastöðina. Húsið var síðan afhent Þjóðminjasafni Íslands 1. mars 2005 til umráða og umsýslu og skyldi safnið frá þeim tíma sjá um rekstur og ráðstöfun þess samkvæmt nánara samkomulagi við Háskóla Íslands. Árið 2013 varð Þjóðminjasafnið háskólastofnun með sjálfstæðan fjárhag og um þessar mundir er stefnt að undirritun samstarfssamnings milli Háskóla Íslands og Þjóðminjasafnsins.

Við undirritun samningsins tekur Háskóli Íslands við ábyrgð hússins, viðhaldi og viðgerðum auk þess að velja húsinu viðeigandi hlutverk sem hæfir sögu þess og byggingarsögulegu gildi, s.s. á sviði skipulags-, umhverfis- og menningarfræða og tæknigreina.

Loftskeytastöðin var byggð árið 1915 og er með árinu 2015 friðuð á grundvelli laga um menningarminjar. Samkvæmt samningnum mun Háskóli Íslands sjá til þess að saga hússins á sviði fjarskipta verði þar sýnileg.

Þetta kemur fram á vef Forsætisráðuneytis.

loftskeytastodin

Umferðarþing í Reykjavík

Umferðarþing var sett á fimmtudaginn síðastliðinn í Reykjavík þar sem flutt eru erindi um ýmis svið umferðaröryggis. Fluttir voru fyrirlestrar um orsakir og áhrifavalda banaslysa, um mannslíkamann og umferðarslys, slys á óvörðum vegfarendum, hvort fatlað fólk byggi við  sama öryggi og aðrir í umferðinni og um umferðaröryggisáætlanir sveitarfélaga. Umferðarþing er skipulagt af innanríkisráðuneytinu og Samgöngustofu.

Nánar má lesa á vef Innanríkisráðuneytis.

_MG_3969a

Innanríksráðherra heimsótti Lögregluna í Reykjavík

Ólöf Nordal innanríkisráðherra heimsótti í vikunni embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Starfsemi Lögreglunnar  á Höfuðborgarsvæðinu var kynnt fyrir ráðherra.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri og nánustu samstarfsmenn hennar tóku á móti ráðherra í heimsókn hennar á föstudaginn síðastliðinn.  Stöðugildi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru um 350 og eru lögreglumenn um 300 talsins. Alls nam  fjárveiting til embættisins um 3,8 milljörðum króna árið 2014 og rekur embættið 32 bíla og 13 bifhjól. Fram kom í tölum um afbrot fjölgað hefur fíkniefna- og ofbeldisbrotum í janúar í ár miðað við síðustu þrjá mánuði á undan en brotum fækkað í öðrum flokkum og var fækkunin mest í ölvunarakstursbrotum eða 36%.

_MG_4120

Innanríkisráðuneyti stóð fyrir fundi um flugöryggi

Innanríkisráðuneyti efndi í vikunni til fundar um flugöryggi í einka- og frístundaflugi eða almannaflugi í samvinnu við Isavia, Rannsóknarnefnd samgönguslysa og Flugmálafélag Íslands. Tilgangur fundarins var að grasrótin og stjórnsýslan gætu talað saman um flugöryggi í einka- og frístundaflugi. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, setti fundinn og sagði í upphafi ávarps síns að flugið væri snar þáttur í lífi Íslendinga og minntist á hvernig frumkvöðlar í fluginu hefðu nánast fært landið í einu skref inn í nútímann og tæknina.

Nánar má lesa á vef Innanríkisráðuneytisins.

_MG_3932a

Fagráðstefna grunnskólakennara á öskudag

Árleg fagráðstefna grunnskólakennara verður haldinn á öskudag 18. febrúar. Yfirskrift hennar að þessu sinni er Til móts við framtíðina – um fagmennsku og virðingu kennarastarfsins.

Aðalfyrirlesarar á ráðstefnunni eru dr. Anna Kristín Sigurðardóttir dósent við Menntavísindasvið HÍ og dr. Toby Salt breskur ráðgjafi um forystu og þróun í skólastarfi. Síðari hluti ráðstefnunnar er tileinkaður umræðum um fagmennsku og virðingu kennarastarfsins.

Ráðstefnan verður haldin á Hilton Nordica hóteli við Suðurlandsbraut og hefst kl. 13:00. Kennarafélag Reykjavíkur, Skólastjórafélag Reykjavíkur og skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar standa að ráðstefnunni. Ráðstefnustjóri er Sigríður Heiða Bragadóttir skólastjóri Laugarnesskóla.

Dagskrá:
Setning: Iðunn Pála Guðjónsdóttir, kennari í Háaleitisskóla.
Tónlistaratriði: Skólahljómsveit Árbæjar og Breiðholts, undir stjórn Snorra Heimissonar.
Ávarp: Skúli Helgason, formaður skóla- og frístundaráðs Rvk.
The Teaching Profession – Leading the Future
Dr. Toby Salt sérfræðingur hjá Ormiston Academies Trust í Bretlandi og fyrrum ráðgjafi skólayfirvalda um forystu og þróun.
Þetta er allt á valdi kennarans: Staðreynd eða goðsögn?
Dr. Anna Kristín Sigurðardóttir dósent við Menntavísindasvið HÍ.
Kaffihlé.
Umræður kennara í hópum.

Helgarnámskeið í íþróttafréttamennsku fyrir konur

  • Helgarnámskeið í íþróttafréttamennsku, ætlað konum, í Útvarpshúsinu við Efstaleiti 14. og 15. febrúar 2015
  • Markmiðið er að efla hlut kvenna í íþróttafréttamennsku
  • Stefna RÚV er að jafna hlut kynjanna í starfseminni allri – dagskrárgerð og umfjöllun

Íþróttafréttir og íþróttaumfjöllun í fjölmiðlum á Íslandi á sér rúmlega 100 ára sögu en hlutfall kvenna í stétt þeirra sem fjalla um íþróttir hefur jafnan verið langt frá því að vera viðunandi. RÚV stendur því fyrir Íþróttafréttaskóla fyrir konur í febrúar.

Erfiðlega hefur gengið að fá konur til liðs við sterkan hóp íþróttafréttamanna og með skólanum vill RÚV stuðla að jafnara kynjahlutfalli á skjánum. Fá svið innan fjölmiðla eru jafn fjölbreytt og krefjandi og íþróttaumfjöllun og því rík ástæða til að kynna það líflega starf konum sem hafa áhuga á að starfa í fjölmiðlum.

Fyrirlesarar fjalla um reynslu sína af starfinu og nemendum gefst kostur á að spreyta sig á ýmsum sviðum starfsins. Jafnframt verður leitað svara við spurningunni um það hvers vegna konur hafa ekki sótt í þetta starf í jafnmiklum mæli og önnur störf í fjölmiðlum og hvernig hægt sé að snúa þeirri þróun við.

Íþróttafréttaskólinn verður starfræktur í Efstaleiti og stendur fyrir helgarnámskeiði 14. og 15. febrúar 2015. Hægt er að sækja um með því að senda umsókn og ferilskrá í tölvupósti á ithrottafrettaskoli@ruv.is. Umsóknarfrestur er til 12. febrúar 2015.

Þátttökuskilyrði eru 20 ára aldurstakmark, brennandi áhugi á fréttum og stúdentspróf eða sambærileg menntun. Ekkert þátttökugjald og takmarkað sætaframboð.

Texti: Fréttatilkynning Rúv.is

Uppsagnir hjá Landsbankanum

Landsbankinn vinnur áfram að hagræðingu og breytingum á sínum rekstri. Af þeim sökum fækkar um 30 manns í höfuðstöðvum bankans og að auki hefur ráðningasamningum fastráðinna starfsmanna í afgreiðslu bankans í Flugstöð Leifs Eiríkssonar verið sagt upp, en þar starfa 13 manns. Uppsögnin í Leifsstöð verður afturkölluð, haldi bankinn áfram að sinna fjármálaþjónustu í flugstöðinni eins og verið hefur. Auk þess láta nú af störfum í bankanum 8 manns vegna aldurs eða af öðrum ástæðum.

Uppsagnirnar í höfuðstöðvum bankans ná til flestra sviða. Úrvinnsla ýmissa mála er tengjast hruninu er nánast lokið og m.a. þess vegna verða gerðar ákveðnar breytingar á skipulagi og mönnun bankans. Aukin áhersla á rafræna afgreiðslu erinda leiðir til fækkunar og hagræðingar í bakvinnslu og hjá stoðsviðum.

Landsbankinn hefur rekið afgreiðslu í Leifsstöð allt frá opnun og hyggst taka þátt í útboði Isavia um bankaþjónustu þegar það verður auglýst.

Uppbygging frjálsíþróttavallarins ÍR í Mjóddinni

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og Margrét Héðinsdóttir, formaður frjálsíþróttadeildar ÍR hafa skrifað undir samning vegna framkvæmda við frjálsíþróttavöll í Suður-Mjódd. Hanna á nýjan frjálsíþróttavöll ÍR og  verða útboðsgögn undirbúin innan tíðar svo hægt verði að hefja framkvæmdir síðar á árinu.

Uppbygging frjálsíþróttavallarins er hluti af samningi sem Reykjavíkurborg og Íþróttafélag Reykjavíkur gerðu á nýliðnu ári um skipulagsvinnu og uppbyggingu í Suður-Mjódd. Deiliskipulag fyrir svæðið hefur verið unnið í samvinnu ÍR og borgaryfirvalda og fer það brátt í hefðbundna kynningu.

Borgarráð hefur samþykkt að verja 50 milljónum króna af framkvæmdafé ársins 2015 til þessa verkefnis.