Friðrik Ólafsson heiðursborgari Reykjavíkurborgar

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sæmdi Friðrik Ólafsson stórmeistara í skák, heiðursborgaranafnbót  við hátíðlega athöfn í Höfða,  þann 28. janúar síðastliðinn. Friðrik Ólafsson er sjötti einstaklingurinn sem gerður er að heiðursborgara Reykjavíkurborgar. Þeir sem hlotið hafa þessa nafnbót áður eru; séra Bjarni Jónsson árið 1961, Kristján Sveinsson augnlæknir árið 1975, Vigdís Finnbogadóttir árið 2010, Erró árið 2012 og Yoko Ono árið 2013.

Með því að sæma Friðrik Ólafsson heiðursborgaratitli vill Reykjavikurborg þakka Friðriki fyrir árangur hans og afrek á sviði skáklistarinnar. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði það vel við hæfi að heiðra Friðrik á áttræðisafmælinu, en hann átti afmæli þann 26. janúar sl. Dagur sagði að áhugi á skák væri óvíða meiri en á Íslandi og líklega hefði enginn Íslendingur haft jafn mikil áhrif á skákíþróttina hérlendis og Friðrik Ólafsson. Hans dýrmæta framlag til íslenskrar menningar væri þakkarvert.

Í ræðu borgarstjóra kom fram að Friðrik hafi ungur að árum sýnt óvenjulega dirfsku og hugkvæmni og í skákum hans hafi hann sýnt meiri tilþrif en menn áttu að venjast. Hann var ungur að árum eða aðeins 17 ára gamall þegar hann varð Íslandsmeistari, 18 ára Norðurlandameistari og stórmeistari í skák árið 1958 fyrstur íslenskra skákmanna.

img_8121

Heimild: reykjavik.is

Uppbygging íbúða á Kirkjusandsreit

Í lok vikunnar var undirritaður samningur milli Íslandsbanka og Reykjavíkurborgar um uppbyggingu, skipulag og skiptingu Kirkjusandsreits. Um er að ræða heildarskipulag fyrir lóðirnar Kirkjusand 2, þar sem höfuðstöðvar Íslandsbanka eru í dag og Borgartún 41, sem oft er kölluð Strætólóð.

Á Kirkjusandsreit er fyrirhuguð blönduð miðborgarbyggð. Reitnum verður skipt upp í nokkrar lóðir og er byggingarmagn í heild áætlað um 75 – 85 þúsund fermetrar. Um helmingur byggingarmagns verður atvinnuhúsnæði, skrifstofur og þjónusta, en gert er ráð fyrir um 300 nýjum íbúðum á svæðinu. Reykjavíkurborg mun ráðstafa þremur íbúðarhúsalóðum. Allar núverandi byggingar á reitnum, fyrir utan aðalskrifstofuhúsnæði Íslandsbanka, munu víkja til að rýma fyrir uppbyggingu.

Markmið með deiliskipulagi svæðisins er gera mannvænt og fallegt umhverfi í samræmi við áherslur í Aðalskipulagi Reykjavíkur.  Göturými verða hönnuð jafnt fyrir alla ferðamáta og lögð verður áhersla á fjölbreytt græn svæði, nærþjónustu og gæði byggðar.

Gert er ráð fyrir almenningstorgi og listaverkum á svæðinu. Bílageymsla verður staðsett undir torginu og mun hún nýtast íbúum utan skrifstofutíma í bankanum.

Íslandsbanki hyggst sameina alla höfuðstöðvastarfsemi sína á einum stað á Kirkjusandi. Til þess að það megi verða ætlar bankinn að byggja um 7.000 fermetra viðbyggingu við suðvesturenda núverandi skrifstofuhúsnæðis. Áætlað er að framkvæmdir við viðbyggingu hefjist í lok þessa árs og að þær taki um 2 ár.

1339-150128-mynd_frettatilkynning_800-533

Texti: reykjavik.is

Breytingar á lóð RÚV í Efstaleiti

Blönduð byggð leigu- og séreignaríbúða mun rísa á lóð RÚV í Efstaleiti. Þá mun Reykjavíkurborg leigja stóran hluta útvarpshússins undir Þjónustumiðstöð Laugardals, Háaleitis og Bústaða. Þetta var ákveðið með þremur samþykktum borgarráðs í vikunni.

Lóðin sem samningur RÚV og Reykjavíkurborgar tekur til er alls um 5,9 ha.

Helstu ákvæði samningsins eru að 20% af byggingarrétti renni til Reykjavíkur. Mun sá hluti fara í uppbyggingu leiguhúsnæðis. RÚV mun selja afganginn á markaðsverði. Búsetuform á svæðinu verður blandað; leiguíbúðir, stúdentaíbúðir, búseturéttaríbúðir, íbúðir Félagsbústaða og Reykjavíkurhús.

Með þessum áfanga er Reykjavíkurborg að taka skref í átt að þéttingu byggðar. Ríkisútvarpið hefur lýst því yfir að það stefni að því að nýta betur lóðina við Efstaleiti og nýta fjárhagslegan ávinning til að lækka skuldir.

E1 thyrluskot03fix

Mynd: Fréttatilkynning / Rúv.is

Frumsýning á myndunum Leiðin áfram og kynning á nýju fræðsluefni

Vitundarvakning um kynferðislegt, andlegt og líkamlegt ofbeldi gegn börnum frumsýnir myndirnar Leiðin áfram og kynnir nýtt fræðsluefni fyrir réttarvörslukerfið mánudaginn12. janúar, kl. 10 í fyrirlestrasal atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis á 1. hæð að Skúlagötu 4.

Í fræðslumyndunum Leiðin áfram er farið í gegnum ferlið innan réttarvörslukerfisins eftir að kynferðisbrot hefur átt sér. Markmið Vitundarvakningarinnar með gerð myndanna er að veita upplýsingar sem auðvelda brotaþolum og aðstandendum þeirra fyrstu skrefin til þess að sækja sér aðstoð. Nýja fræðsluritið Kynferðisofbeldi gegn börnum. Málsmeðferð réttarkerfisins og réttarvernd barna er gefið út af Vitundarvakningunni í samvinnu við Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Því hefur verið fylgt eftir með námskeiðum á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra, Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra og Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðisráðherra verða viðstödd auk  fulltrúa frá Barnahúsi, Neyðarmóttöku, lögreglu, dómstólum og frjálsum félagasamtökum sem koma að málaflokknum. Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við verkefnisstjórn Vitundarvakningar í gegnum netfangið karen.asta.kristjansdottir@mrn.is og boða komu sína.

Banaslys í umferðinni ekki svo fá í áratugi

Banaslys í umferðinni hafa ekki verið svo fá á einu ári og nú frá árinu 1966 þegar kerfisbundin skráning hófst. Fjórir hafa látist á árinu í þremur umferðarslysum, tvær konur og tveir karlar. Árið 1968 þegar hægri umferð var tekin upp létust 6 í umferðarslysum, árið 2010 létust 8 og árið 2012 létust 9. Í fyrra létust 15 í 14 slysum. Að meðaltali hafa um 16 manns látist á ári í umferðarslysum síðustu 10 árin.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra segir fjögur banaslys vera fjórum slysum of mikið. ,,Við viljum ekki banaslys í umferðinni og hljótum alltaf að stefna að því að enginn látist af þeim sökum. Fækkun þessara slysa síðustu árin er vissulega góður áfangi. Ég tel að ástæðurnar geti verið þrjár: Í fyrsta lagi högum við okkur betur í umferðinni og sýnum meiri aga og aðgát, í öðru lagi fara umferðarmannvirkin sífellt batnandi og í þriðja lagi er öryggisbúnaður í bílum meiri og betri. Þessi þróun þarf að halda áfram og með umferðaröryggisáætlun sem endurskoðuð er á hverju ári bind ég vonir við að svo verði.“

Þetta kemur fram á vef Innanríksráðuneytisins.

Nýr flughermir Icelandair

Icelandair hefur tekið formlega í notkun flughermi í nýju húsnæði fyrirtækisins í Hafnarfirði. Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair og Hilmar B. Baldursson, flugrekstrarstjóri félagsins klipptu á borða og opnuðu þannig flugherminn með táknrænum hætti.

Í framhaldinu prófaði innanríkisráðherra sig í flugstjórasæti flughermisins og lenti vélinni í New York ásamt Hilmari B. Baldurssyni. Í ávarpi við athöfnina sagði Ólöf Nordal þetta djarft skref hjá Icelandair og að það þyrfti áræði til að starfa í þeim áhætturekstri sem flug- og ferðaþjónusta væri. Hún kvaðst sannfærð um að þetta skref yrði fyrirtækinu til heilla og hagræðingar. Birkir Hólm Guðnason sagði að með stækkandi flugvélaflota og fleiri flugmönnum væri hagkvæmast að geta stundað þjálfun í eigin flughermi og hann sagði ný tækifæri geta skapast með tilkomu hans.

Flughermirinn er sameiginleg fjárfesting Icelandair og bandaríska fyrirtækisins Opinicus og verður hann notaður til að þjálfa nýja flugmenn Icelandair og í reglubundna síþjálfun flugmanna en þessi þjálfun hefur til þessa farið fram erlendis. Viðræður standa yfir við erlent flugfélag um að nýta flugherminn til að þjálfa flugmenn sína. Flughermirinn er með mjög fullkomnum myndvörpum sem líkja eftir útsýni úr flugstjórnarklefa og er á rafdrifnum tjökkum sem hreyfa hann og skapa þá tilfinningu hjá flugmönnum að þeir séu að fljúga við raunverulegar aðstæður.

Þetta kemur fram á vef Innanríkisráðuneytisins.

Forsætisráðherra fundaði með sendiherra Frakklands

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, átti fund á fimmtudaginn með Philippe O´Quin, sendiherra Frakklands á Íslandi, og kom formlega á framfæri samúðarkveðjum frá ríkisstjórninni og íslensku þjóðinni vegna hryðjuverkaárásanna á ritstjórnarskrifstofu Charlie Hebdo í París.

„Árásin var einkar grimmúðleg og gróf atlaga að tjáningar- og prentfrelsi, sem eru grundvallargildi og mannréttindi sem brýnt er að standa vörð um. Í dag er þjóðarsorg í Frakklandi og Íslendingar sýna Frökkum samhug og samstöðu. Ég votta fórnarlömbum árásarinnar og aðstandendum þeirra mína dýpstu samúð.“

Þetta kemur fram á vef Forsætisráðuneytisins.

Yfirlýsing um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins

Áhersla er lögð á mikilvægi heilbrigðiskerfisins og vilja til að styrkja það og bæta, í sameiginlegri yfirlýsingu fulltrúa ríkisstjórnarinnar, Læknafélags Íslands og Skurðlæknafélags Íslands sem undirrituð var í vikunni í tengslum við gerð kjarasamninga við lækna.

Með yfirlýsingunni vilja málsaðilar undirstrika mikilvægi heilbrigðiskerfisins og styrkja enn frekar heilbrigðisþjónustu í landinu.

Meðal helstu atriða í viljayfirlýsingunni er bygging nýs Landspítala og markviss endurnýjun tækjabúnaðar í heilbrigðiskerfinu, en hvoru tveggja er ætlað að bæta starfsaðstöðu heilbrigðisstarfsfólks og þjónustu við almenning. Auknu fjármagni verður veitt til heilbrigðismála og breytingar gerðar í þeim tilgangi að auka skilvirkni í kerfinu. Þá er stefnt að aukinni samvinnu heilbrigðisstofnana og markvissari verkaskiptinu auk þess sem íslenska heilbrigðiskerfið á að verða samkeppnishæft við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndum.

Þetta kemur fram á vef Velferðarráðuneytisins.

Læknadeilan leyst

Það var þungu fargi létt af Landspítalafólki að verkfalli var aflýst í kjölfar samninga í deilu læknafélaganna og ríkisins, segir Páll Matthíasson, forstjóri spítalans í pistli á vef Landspítalans.
Forstjórinn fagnar sérstaklega yfirlýsingu um uppbyggingu heilbrigðiskerfisins og lýsir ánægju með að þar sé vikið að starfsaðstöðu og uppbyggingu nýs Landspítala.

Læknir maður ársins á Rás 2

Tómas Guðbjartsson prófessor og yfirlæknir á Landspítalanum var valinn maður ársins 2014 af hlustendum Rásar 2.

Tómas og fleiri starfsmenn Landspítalans björguðu lífi manns, með undraverðum hætti, sem var stunginn með hnífi í hjartað. Í myndbandi sem tekið var upp og sýnt í Kastljósi sést hvernig Tómas  hnoðaði hjarta mannsins með berum höndum til að koma af stað blóðflæði til heilans.

63 voru tilnefndir í valinu en Tómas vann yfirburðasigur. Næst flest atkvæði fengu björgunarsveitarmenn á landinu öllu og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra var í þriðja sæti í valinu.

Nánar má lesa á Rúv.is

Heimild: ruv.is