Íþróttafólk Reykjavíkur 2014

Tilkynnt hefur verið um val á Íþróttafólki Reykjavíkur.  Allt frá árinu 1979 hefur stjórn Íþróttabandalags Reykjavíkur valið Íþróttamann Reykjavíkur og var þetta því í 36. sinn sem hátíðin fór fram. Í ár voru í annað sinn kjörin Íþróttakarl og Íþróttakona Reykjavíkur auk þess sem að Íþróttalið ársins í Reykjavík var valið.  Borgarstjórinn í Reykjavík, Dagur B. Eggertsson og formaður Íþróttabandalags Reykjavíkur, Ingvar Sverrisson, afhentu íþróttafólkinu og forsvarsmönnum íþróttafélaganna verðlaunin.

Íþróttakarl Reykjavíkur 2014 er körfuknattleiksmaðurinn Martin Hermannsson úr KR en hann varð Íslandsmeistari með KR liðinu í ár ásamt því að vera í landsliði Íslands sem tryggði sér þátttökurétt í úrslitakeppni EM í fyrsta skipti í sögunni. Íþróttakona Reykjavíkur 2014 er sundkonan Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Sundfélaginu Ægi sem er í 11.sæti á heimslistanum og 5.sæti á Evrópulistanum í 200 m baksundi í 25 metra laug. Íþróttalið Reykjavíkur 2014 er lið Vals í handknattleik kvenna sem varð bæði Íslands- og bikarmeistari á árinu.

Tíu einstaklingar og tíu lið frá sjö félögum voru verðlaunuð fyrir frábæran árangur á árinu 2014 í dag.

Liðin sem fengu verðlaun fyrir árangurinn á árinu 2014:

• ÍR – Bikarmeistarar í frjálsum íþróttum karla og kvenna
• ÍR – Íslands- og bikarmeistarar í keilu karla
• Júdófélag Reykjavíkur – Bikarmeistarar í sveitakeppni karla
• Keilufélag Reykjavíkur – Íslands- og bikarmeistarar í keilu kvenna
• KR – Bikarmeistarar í knattspyrnu karla
• KR – Íslandsmeistarar í körfuknattleik karla
• TBR – Íslandsmeistarar í liðakeppni beggja kynja í badminton
• Valur – Íslands- og bikarmeistarar í handknattleik kvenna
• Víkingur – Íslandsmeistarar í karlaflokki í karate
• Víkingur – Íslands- og bikarmeistarar í liðakeppni karla og kvenna í borðtennis

Einstaklingarnir sem fengu verðlaun fyrir árangurinn á árinu 2014:
• Aníta Hinriksdóttir, frjálsíþróttakona úr ÍR
• Anton Sveinn McKee, sundmaður úr Sundfélaginu Ægi
• Ásdís Hjálmsdóttir, frjálsíþróttakona úr Ármanni
• Eygló Ósk Gústafsdóttir, sundkona úr Sundfélaginu Ægi
• Helga María Vilhjálmsdóttir, skíðakona úr ÍR
• Helgi Sveinsson, frjálsíþróttamaður úr Ármanni
• Jón Margeir Sverrisson, sundmaður úr Fjölni
• Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, kraftlyftingamaður úr Ármanni
• Martin Hermannsson, körfuknattleiksmaður úr KR
• Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, kylfingur úr GR

img_7566

Heimild og mynd: reykajvik.is

Góði hirðirinn veitti styrki fyrir 10 milljónir

Í lok vikunnar voru veitti Góði hirðirinn 10.140.000 kr. til 14 félagasamtaka til ólíkra málefna. Góði hirðirinn nýtur mikilla vinsælda meðal íbúa höfuðborgarsvæðisins sem og annarra.  Markaðurinn er dæmi um gott samstarf starfsmanna SORPU og almennings, sem gefur notaða nytjamuni og húsbúnað í nytjagáma á endurvinnslustöðvum SORPU sem svo er komið í sölu í verslun Góða hirðisins.

Ágóði verslunarinnar rennur til góðgerðarmála og er það ótrúlega dýrmætt starfsfólki Góða hirðisins að fá að taka þátt í þessum viðburði og fá að sjá að ágóði af þeirra góða starfi er dýrmætt fyrir marga.

Fyrir helgi voru veittir styrkir til eftirfarandi aðila:  Kraftur – 500.000 kr., Krabbameinsfélagið – 600.000 kr., Hjálparstarf kirkjunnar – 1.300.000 kr., Hjálpræðisherinn á Íslandi – 1.000.000 kr., Rauði krossinn á Íslandi – 1.300.000 kr., Hlutverk – 500.000 kr., Unglingasmiðjan Tröð og Stígur – 400.000 kr., Fjölskyldu- og fjölmenningarsetur Hjálpræðishersins – 400.000 kr., SEM – 300.000 kr., Einhverfusamtökin – 440.000 kr., MND félagið á Íslandi – 400.000 kr., Mæðrastyrksnefnd í Hafnarfirði – 400.000 kr., Fjölskylduhjálp Íslands – 1.300.000 kr. og Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur – 1.300.000 kr.

Frá árinu 1999 hafa alls verið veittar 190 milljónir í styrki til ýmissa góðgerðarmála.

styrkthegar_des2014_2

Heimild og mynd: sorpa.is

Mannúðarsamtök fá styrki fyrir jólin frá Landsbankanum

Landsbankinn hefur úthlutað fjórum milljónum króna til fjögurra félagasamtaka sem vinna mikilvægt og óeigingjarnt starf fyrir samfélagið fyrir jólin. Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstarf kirkjunnar og Rauði krossinn á Íslandi fengu hver um sig eina milljón króna til að sinna aðstoð innanlands og UNICEF á Íslandi fékk eina milljón króna til neyðarhjálpar gegn ebólufaraldrinum í ríkjum Vestur-Afríku.

Mæðrastyrksnefnd nýtir fjárstuðning sinn til að fjármagna matarúthlutun og gjafir fyrir jólin og aðstoðar með því fjölda fjölskyldna. Hjálparstarf kirkjunnar færir skjólstæðingum sínum um land allt innkaupakort og Rauði krossinn sinnir innanlandsaðstoð við efnalitlar fjölskyldur um land allt. Hópur starfsfólks Landsbankans mun aðstoða Mæðrastyrksnefnd á næstu dögum við að deila út stuðningi til skjólstæðinga en stefna bankans er að starfsmenn taki þátt í völdum samfélagsverkefnum með sjálfboðastarfi.

Jolastyrkir-hopmynd-515

Heimild og mynd: landsbankinn.is

Afbrotatíðindi ríkislögreglustjóra

Í afbrotatíðindum ríkislögreglustjóra kemur m.a. fram að fleiri voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum ávana- og fíknefna árið 2013 en síðustu tvö ár á undan, eða 940 einstaklingar. Hlutfall kærðra karla er mun hærra en kvenna, en á tímabilinu 2011-2013 voru þeir um og yfir 85% kærðra einstaklinga.

Fyrstu ellefu mánuði ársins eru brot vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna 1.371 talsins, og hafa aldrei verið fleiri þrátt fyrir að árið sé ekki á enda.

Heimild: lögreglan.is

Forsetinn heimsótti Rauðakrossinn á 90 ára afmælinu

Fjöldi gesta kom í Rauða kross húsið þann 10. desember síðastliðinn og fagnaði 90 ára afmæli félagsins. Það var þennan dag árið 1924 sem haldinn var stofnfundur Rauða krossins á Íslandi. Fór hann fram í húsi Eimskipafélagsins og var Sveinn Björnsson, síðar fyrsti forseti lýðveldisins, kjörinn formaður.

Í tilefni dagsins var sett upp ljósmyndasýning um sögu Rauða krossins, sjúkrabílar voru afhentir, Sirkus Íslands og Skoppa og Skrítla mættu á svæðið og ýmis tónlistaratriði voru flutt. Þar gerði mikla lukku þegar börnin af leikskólanum Langholti tóku lagið með Gunna og Felix og sungu skyndihjálparlagið.

Frá stofnun Rauða krossins á Íslandi hefur mikið vatn runnið til sjávar, verkefnin hafa verið fjölmörg og ætíð ærin. Á fyrstu áratugum voru hvers kyns lýðheilsuverkefni, heimahjúkrun, tímabundinn rekstur spítala og blóðsöfnun stór hluti af verkefnum félagsins. Kann það að skýrast af miklum áhuga lækna á Rauða krossinum en meðal fimm fyrstu formanna voru fjórir þeirra einmitt læknar.

Rauði krossinn hefur ekki alveg sagt skilið við þjónustu gagnvart heilbrigðiskerfinu og rekur enn allar sjúkraflutningabifreiðar á Íslandi. Þá er vert að minnast á skyndihjálpina. Þeir sem læra skyndihjálp á Íslandi gera það í 90 prósent tilfella hjá skyndihjálparkennurum Rauða krossins.

Innanlandsverkefnin eru fleiri og eiga þau það sameiginlegt að aðstoða fólk og veita því aðhlynningu í neyð. Má þar nefna félagslega aðstoð til innflytjenda, aldraðra og annarra sem upplifa félagslega einangrun. Rauði krossinn veitir hælisleitendum og flóttamönnum aðstoð og hefur frá 25. ágúst í ár annast allt málsvarastarf fyrir hælisleitendur. Athvörf eru rekin fyrir fólk með geðraskanir, Konukot er starfrækt fyrir heimilislausar konur og hjálparsíminn 1717 hefur ófáum hjálpað.

Á alþjóðavettvangi hefur Rauði krossinn á Íslandi átt fulltrúa í Sierra Leone þar sem ebólufaraldur geisar, verkefni hafa verið rekin í Malaví og Sómalílandi þar sem komið hefur verið á fót heilsugæslu á hjólum og aðbúnaður skólabarna hefur verið bættur. Langtímaverkefni eru einnig í fullum gangi í Hvíta-Rússlandi, Kákasuslöndunum og í stríðshrjáðri Palestínu. Þá er ótalin neyðaraðstoð sem veitt var í formi mannafla og sérfræðiþekkingar í Filippseyjum í kjölfar fellibylsins Haiyan.

Vinna að þessum mannúðarverkefnum, auk allra þeirra verkefna sem að baki eru, væri aldrei möguleg án stuðnings almennings og, fyrst og fremst, sjálfboðaliða Rauða krossins. Hreyfiafl mannúðarstarfs er og hefur ætíð verið sjálfboðið starf og vill Rauði krossinn skila sérstöku þakklæti til allra þeirra sem hafa lagt hönd á plóg á undanförnum 90 árum.

20141210__14A3733

Texti og mynd: raudikrossinn.is

Jólasýningar Árbæjarsafnins

Jólasýningar Árbæjarsafnsins verða haldin  sunnudagana 14. og 21. deseber milli klukkan 13-17.

Dagskrá:
Guðsþjónusta kl. 14
Jólasveinar á vappi á milli 14 og 16
Dansað í kringum jólatréð á torginu kl. 15

Jólasýning Árbæjarsafns hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár og hlotið fastan sess í menningarlífi höfuðborgarinnar á aðventunni.  Ungir sem aldnir geta rölt milli húsanna og fylgst með undirbúningi jólanna eins og hann var í gamla daga.   Hrekkjóttir jólasveinar gægjast á glugga og kíkja í potta, börn og fullorðnir föndra og syngja jólalög.

Samsett-Arbeajarsafn-600x450

Jóladagskrá Þjóðminjasafnsins

Eins og venja er heimsækja jólasveinarnir Þjóðminjasafnið klukkan 11 daglega frá 12. – 24. desember. Laugardaginn 13. desember er auk þess boðið uppá jóla-barnaleiðsögn um safnið en leiðsögnin hefst kl. 12.  Jólasveinarnir hafa heimsótt safnið síðan árið 1988.

Dagskrá:

 • 12. desember kl. 11: Stekkjarstaur
 • 13. desember kl. 11: Giljagaur og Grýla
 • 14. desember kl. 11: Stúfur
 • 15. desember kl. 11: Þvörusleikir
 • 16. desember kl. 11: Pottaskefill
 • 17. desember kl. 11: Askasleikir
 • 18. desember kl. 11: Hurðaskellir
 • 19. desember kl. 11: Skyrgámur
 • 20. desember kl. 11: Bjúgnakrækir
 • 21. desember kl. 11: Gluggagægir
 • 22. desember kl. 11: Gáttaþefur
 • 23. desember kl. 11: Ketkrókur
 • 24. desember kl. 11: Kertasníkir

Skemmtunin er ókeypis og öllum opin en skólahópar eru beðnir að bóka tíma á netfangið kennsla@thjodminjasafn.is.

Neyðarsöfnun vetrarfatnaðar fyrir úkraínska flóttamenn

Rauði krossinn á Íslandi hefur opnað fyrir neyðarsöfnun á vetrarfatnaði sem verður komið til úkraínskra flóttamanna í Hvíta-Rússlandi. Rauði krossinn hvetur alla sem hafa tök á því til að leggja söfnuninni lið með hvers kyns prjónafatnaði, vetrarfatnaði og skóm, eða hlýjum teppum. Sóst er eftir fötum fyrir alla aldurshópa og bæði kyn.

Mikilvægt er að fatapokarnir sem ætlaðir eru úkraínskum flóttamönnum séu merktir „Úkraína“ áður en þeim er komið fyrir í fatagámum Rauða krossins eða grenndargámum. Einnig er tekið við fatnaði í miðstöð fatasöfnunar Rauða krossins í Skútuvogi 1 í Reykjavík.

Þetta kemur fram á vef Rauða krossins.

Áhrif verkfalls á Landspítala 8. og 9. desember 2014

Á miðnætti aðfaranótt 8. desember 2014 hófust verkfallsaðgerðir Læknafélags Íslands og standa til miðnættis 9. desember á rannsóknarsviði, aðgerðasviði og kvenna- og barnasviði.

Almennt gildir að bráðatilvikum er sinnt venju samkvæmt á Landspítala alla verkfallsdaga en gera má ráð fyrir víðtækum áhrifum á almenna starfsemi spítalans. Vakin er athygli á því að vegna víðtækra verkfallsaðgerða á heilsugæslustöðvum má búast við auknu álagi á bráðamóttökur Landspítala.

Á rannsóknarsviði falla niður um 200 fyrirfram skipulagðar myndrannsóknir báða dagana en bráðaþjónustu er sinnt í myndgreiningu sem og annarri rannsóknarstarfsemi.

Vegna verkfalls svæfinga- og gjörgæslulækna á aðgerðasviði falla niður allar fyrirfram skipulagðar skurðaðgerðir en bráðatilvikum verður sinnt. Starfsemi á gjörgæsludeildum verður með nokkuð eðlilegum hætti enda öll starfsemi þar í eðli sínu bráð. Afgreiðsla á blóði og blóðhlutum verður með eðlilegum hætti en ekki verður hægt að sinna erindum eins og vefjaflokkunum og ýmis konar blóðrannsóknum nema erindin séu bráð.

Á kvenna- og barnasviði verður allri bráðaþjónustu sinnt og regluleg starfsemi annarra en lækna verður með hefðbundnum hætti (s.s. fósturgreiningar o.fl.). Göngudeild og dagdeild kvenlækninga verða lokaðar sem og göngudeild barna að mestu.

Heimild: Landspítali.is

Rauði krossinn 90 ára

Rauði krossinn á Íslandi fagnar 90 ára afmæli þann 10. desember næstkomandi.  Í tilefni af þessum merku tímamótum vill Rauði krossinn bjóða til afmælisveislu í húsi félagsins við Efstaleiti 9 í Reykjavík.

Allir eru hjartanlega velkomnir og verður húsið opið milli 14 og 18. Kaffi og kræsingar verða á boðstólum, ljósmyndasýning um sögu Rauða krossins verður opnuð, tónlist verður spiluð og ýmsar fjölskylduvænar uppákomur eiga sér stað.

Dagskrá:
14.00 Húsið opnar
14.30 Gunni og Felix syngja skyndihjálparlagið ásamt 50 barna kór frá Leikskólanum Langholti.
14.40 Afmælishátíðin sett. Forseti Íslands ávarpar gesti.
15.00 Tónlist – Skuggamyndir frá Býsans
15.45 Sjúkrabílar afhentir með viðhöfn
16.00 Sirkus Íslands
16.45 Skoppa og skrítla
17.30 Tónlist – Stefán Hilmarsson

Landsbankinn veitir 10 milljónir í samfélagsstyrki

25 verkefni fengu samfélagsstyrki úr Samfélagssjóði Landsbankans í vikunni. Tvö verkefni fengu úthlutað einni milljón króna, níu verkefni fengu 500 þúsund krónur hvert og loks fengu fjórtán verkefni 250 þúsund króna styrk. Rúmlega 300 umsóknir bárust sjóðnum að þessu sinni.

Samfélagsstyrkjum er einkum ætlað að styðja við þá sem sinna mannúðar- og líknarmálum, menntamálum, rannsóknum og vísindum, verkefnum á sviðum menningar og lista, forvarnar- og æskulýðsstarfi og sértækri útgáfustarfsemi.

Samfélagsstyrkir Landsbankans – desember 2014

1.000.000 kr. styrkir

 • Hjálpræðisherinn á Íslandi – Dagsetrið á Eyjarslóð fyrir heimilislaust fólk.
 • Pétur Henry Petersen – Rannsókn miðuð að því að bæta greiningu Alzheimer-sjúkdómsins.

500.000 kr. styrkir

 • Act alone – Leiklistarhátíðin Act alone á Suðureyri.
 • Blátt áfram – Verkefnið Verndarar barna II.
 • Eydís Franzdóttir – Tónleikaröðin 15:15 í Norræna húsinu.
 • Félag nýrnasjúkra – Kaup á vatnshreinsivélum fyrir blóðskilunardeildir á Akureyri og Selfossi.
 • Ljósið – Námskeið fyrir ungmenni sem eru aðstandendur krabbameinsgreindra.
 • Mediaevaland – Spjaldtölvunámsefni fyrir leikskólabörn byggt á fornum kvæðum.
 • Olnbogabörnin – Fræðsluvefur fyrir foreldra barna og unglinga með áhættuhegðun.
 • Safnasafnið – Kaup á listaverkum Sölva Helgasonar listamanns sem uppi var á 19. öld.
 • Spark films – Uppsetningar heimildaleiksýningar um snjóflóðin á Norðfirði árið 1974.

Alla styrkina má sjá á vef Landsbankans.