Alvarlegasta tölvubilun Landspítalans síðustu 8 ár

Tilkynning frá  heilbrigðis- og upplýsingatæknideild Landspítalans:

Eins og flestum er eflaust kunnugt um varð alvarleg bilun í tæknilegum innviðum spítalans fimmtudaginn 20. nóvember 2014.  Aðal diskastæður spítalans urðu óstarfhæfar sem olli því að flest hugbúnaðarkerfi spítalans urðu óvirk.  Diskastæðurnar, sem eru tvöfaldar (ein í vélasal í Fossvogi og önnur í vélasal við Hringbraut), anna illa því álagi sem er á tölvukerfunum.  Þegar vandamál kom upp í annarri þeirra þennan dag réð hin diskastæðan ekki við álagið og þær urðu óstarfhæfar.  Tæknileg uppbygging er þannig að flest gögn í hugbúnaðarkerfum spítalans eru geymd á þessum diskastæðum og þegar þær verða óvirkar verða kerfin óstarfhæf.  Vitað var að þessar diskastæður þyrfti að endurnýja fljótlega en ákveðnar rekstrartruflanir síðustu mánaða má rekja til þeirra.  Vonast hafði verið til þess að þær myndu duga þar til fjármögnun fyrir útskiptingu þeirra væri tryggð.

Þetta er alvarlegasta tölvubilun sem spítalinn hefur lent í a.m.k. síðustu 8 ár og hafði hún mikil áhrif á alla starfsemi spítalans.  Bilunin kom upp kl. 15:50 og diskastæðan var komin í gagnið aftur kl.16:58.  Þá tók um 30 mínútur að koma helstu hugbúnaðarkerfum upp en nokkur kerfi komust ekki upp fyrr en allt að 2-3 tímum síðar.  Viðbragðsáætlun HUT var virkjuð og það var alfarið unnið eftir henni varðandi samskipti við notendur, greiningu og viðgerð.  Ný viðbragðsáætlun fyrir klínískar deildir, sem kynnt var í vor, var núna notuð í fyrsta sinn.  Viðbragðsáætlunin reyndist vel eftir því sem vitað er.

Þessi bilun í tölvukerfum spítalans verður greind ítarlega og farið vel yfir áhrifin sem hún olli samhliða því að greina hvernig lágmarka megi áhættuna á að svona bilanir verði og hvað þurfi að gera til að afleiðingarnar verði sem minnstar.

Heimild: landspitali.is

Eldvarnir hjá leigjendum eru miklu lakari

Eldvarnir hjá leigjendum eru miklu lakari en hjá þeim sem búa í eigin húsnæði samkvæmt nýrri könnun Capacent Gallup.  Könnunin sýnir að 63 prósent leigjenda hafa engan eða aðeins einn reykskynjara. Hlutfallið er 26 prósent hjá þeim sem búa í eigin húsnæði.

Capacent gerði könnunina fyrir Eldvarnabandalagið og Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna í september og október síðastliðnum. Þátttakendur voru 1.449 manns af öllu landinu, 18 ára og eldri, og var þátttökuhlutfallið 58,9 prósent.

Eldvarnir eru áberandi lakari hjá leigjendum en þeim sem búa í eigin húsnæði hvort sem litið er til reykskynjara, slökkvitækja eða eldvarnateppa. Nær einn af hverjum tíu leigjendum hafa engan reykskynjara en það gildir um sex prósent þeirra sem búa í eigin húsnæði. Mun algengara er að fólk í eigin húsnæði hafi tvo reykskynjara eða fleiri eins og slökkviliðsmenn mæla með. Þar af segist nær helmingur vera með þrjá reykskynjara eða fleiri.

Heimild: landsbjorg.is

ISTAT styrkir Íslensku alþjóðabjörgunarsveitina

Íslensku alþjóðabjörgunarsveitinni hefur borist höfðinglegur styrkur að fjárhæð 10.000 dollarar, eða rúmlega 1.2 milljónir króna, frá styrktarsjóði alþjóðasamtaka fraktflugvélaleigjenda, International Society of Transport Aircraft Trading Foundation (ISTAT Foundation).  ISTAT Foundation var stofnað árið 1994 til að styrkja einstaklinga og stofnanir sem stuðla að framgangi flugmála og hjálparstarfi.  Styrkurinn kemur sér sérstaklega vel þar sem fyrir liggur að endurnýja ýmsan búnað sveitarinnar.

Þetta kemur fram á landsbjorg.is

Úttekt rústaleitarhunda Landsbjargar

Úttekt rústaleitarhunda fór fram hjá Hjálparsveit skáta Garðabæ um síðustu helgi, en fyrsta úttekt sveitarinnar fór fram í fyrra.  Sveitin fékk til liðs við sig Norðmennina Ove Syslak og Theresia Staaland, en bæði eru þau félagar í Norwegian Search and Rescue Team (NORSAR) og leiðbeinendur hjá Norske Redningshunder (NRH).  Ove Syslak er jafnframt stjórnandi NORSAR og hefur starfað fyrir International Search and Rescue Advisory Group (INSARAG), sem eru regnhlífarsamtök rústabjörgunarsveita innan Sameinuðu þjóðanna.

Úttektin fór fram á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni, en sex teymi stóðust úttektina og fara á útkallslista Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar þegar hundarnir hafa verið bólusettir.  Hjálparsveit skáta Garðabæ er með níu björgunarhunda á útkallslista, en flestir þeirra eru útteknir í viðavangs-, snjóflóða- og rústaleit.

513 Heimild: landsbjorg.is

Strætókortum og strætómiðum stolið

Brotist var inn á sölustað Strætó í austurborg Reykjavíkur í síðustu viku og stolið þaðan verulegu magni af grænum, bláum og rauðum strætókortum, en einnig var stolið talsverðu magni af lausum strætómiðum. Lögreglan varar því fólk við að kaupa strætókort og miða af öðrum en viðurkenndum söluaðilum, en biður jafnframt fólk að tilkynna til lögreglu ef því er boðið til kaups strætókort, sem og strætómiða, sem grunur leikur á að séu illa fengin. Upplýsingum um framangreint má koma á framfæri við lögreglu í síma 444-1000, eða í tölvupósti á netfangið adalsteinna@lrh.is

Fyrsta útilistaverk Reykjavíkurborgar í Seljahverfi

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri afhjúpaði verkin Móðir mín í kví, kví og Fýkur yfir hæðir eftir Ásmund Sveinsson við Seljatjörn og Seljakirkju á föstudagsmorgun.  Þetta eru fyrstu útilistaverk sem Reykjavíkurborg hefur sett upp í Seljahverfi.

Ásmundur mótaði verkið Fýkur yfir hæðir þegar hann bjó og starfaði á Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi á árunum 1931-1933. Um þessa fallegu en jafnframt átakanlegu mynd sagði Ásmundur: „Ég gerði hana í Laugarnesi. það var bylur úti og mér datt í hug að gera mynd af konu sem reynir að vernda barnið sitt. Lítill strákur kom svo til mín síðar, sá skissuna og segir: „Ég veit hvað þessi mynd heitir.“ „og hvað heitir hún?“ sagði ég. „Fýkur yfir hæðir,“ sagði stráksi.“

img_5737

Skyndihjálp í alla grunnskóla

Rauði krossinn á Íslandi fagnar 90 ára afmæli í ár og hefur afmælisárið verið tileinkað skyndihjálp, sem hefur ætíð verið einn af hornsteinum í innanlandsstarfi félagsins. Á árinu hafa meðal annars verið gerðar stuttmyndir, tónlistarmyndband og er símaskráin í ár tileinkuð skyndihjálparátakinu. Rauði krossinn áttar sig einnig á að nú er gervihnattaöld og var því snjallsímanotendum boðið upp á skyndihjálpar-app, sem er einfalt og þægilegt í notkun.

Nú þegar árið er að renna sitt skeið er lokahnykkurinn í átakinu skólaheimsóknir. Rauði krossinn setti sér það metnaðarfulla markmið að heimsækja alla grunnskóla á landinu fyrir árslok, og kynna skyndihjálp fyrir grunnskólanemendum á öllum aldri.

akurskoli5 akurskoli3

Íslenska ökuskírteinið vinnur til verðlauna í Ungverjalandi

Árið 2012 stóð Ríkislögreglustjórinn fyrir útboði á hönnun, framleiðslu og persónugerð nýrra ökuskírteina á evrópska efnahagssvæðinu.   Lægsta tilboð átti ungverska fyrirtækið ANY Security Printing sem rekur aðalskrifstofu sína í Búdapest, í samvinnu við Öryggismiðstöðina.  Mjög vel tókst til við hönnunina og framleiðsluna sem og persónugerð skírteinanna og dreifingu þeirra á vegum Öryggismiðstöðvarinnar.

Í vor óskaði ANY Security Printing eftir heimild Ríkislögreglustjórans til að tefla hönnun íslenska ökuskírteinisins fram í hönnunarkeppni prentiðnaðarins í Ungverjalandi, Pro Typographia 2014, en Ríkislögreglustjórinn á höfundarréttinn að skírteininu samkvæmt samningi við ANY Security Printing.  Það samþykki var góðfúslega veitt og hönnunin lögð fram í þeim flokki keppninnar sem nefnist “Security printed forms and securities”.

Hönnunin hlaut bronsverðlaun, sem verður að teljast mikill heiður, enda á Ungverjaland ríka listahefð og ANY Security Printing sögu hátt á aðra öld í prentiðnaði.

Frá þessu er greint á vef Lögreglunnar.

Húsleit í Kópavogi – lagt hald á skammbyssu og stera

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á skammbyssu, sverð og exi, auk fleiri vopna, og talsvert magn stera í töflu- og vökvaformi við húsleit í Kópavogi á föstudagsmorgun.  Húsráðandi, karl á fertugsaldri, var handtekinn í þágu rannsóknarinnar, sem beinist að brotum á vopnalögum og sölu og dreifingu á steralyfjum. Húsleitin var framkvæmd að undangengnum dómsúrskurði, en við aðgerðina naut lögreglan aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra.

Stytta Einars Benediktssonar flutt að Höfða

Til stendur að færa styttuna af Einari Benediktssyni frá Klambratúni til Höfða, en styttan er eftir Ásmund Sveinsson.

Föstudaginn 31. október síðastliðinn voru liðin 150 ár frá fæðingu Einars Benediktssonar ljóðskálds. Einar átti merkan lífsferil, var ævintýramaður og sennilega hvað víðförlastur sinna samtíðarmanna og dvaldi langdvölum erlendis. Hann var virt skáld og gaf út fimm ljóðabækur. Hann gaf út fyrsta dagblaðið á Íslandi, Dagskrá, og var ritstjóri blaðsins. Hann var eldhugi með sterka félagslega samkennd og vildi lyfta þjóð sinni til mennta og betri vegar.

einar_ben_stytta_bb_2

 

Tungumálasmiðja með söng og kynningum

Á Café Lingua, mánudaginn 3. nóvember mun félagið Horizon bjóða upp á skemmtilega tungumálasmiðju með söng, kynningum og umræðum á tyrknesku, dönsku, ensku og íslensku þar sem meðal annars verða tekin dæmi um ýmis konar spaugilegan tungumálamisskilning.

Smiðjan er fyrir alla sem eru áhugasamir um tungumál og fjöltyngi. Te og kaffi í boði. Café Lingua fer að þessu sinni fram í Borgarbókasafni Reykjavíkur, Tryggvagötu 15, kl. 17.30-18.30.

Faraómaur í húsi á Landspítala

Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og Sóttvarnalækni hefur verið tilkynnt að vart hafi orðið við faraómaur í Landspítalahúsi 13 við Hringbraut. Skordýrið hefur að líkindum borist með varningi á Landspítala. Maursins hefur orðið vart á nokkrum stöðum í byggingunni. Aðgerðir til að ráða niðurlögum hans eru þegar hafnar í samráði við meindýraeyði Reykjavíkurborgar og verður meðal annars notað sérpantað eitur til verksins.

Meðal deilda í húsi 13 eru framleiðslueldhús Landspítala, trésmíðaverkstæði og heilbrigðistæknideild. Talsverðir flutningar eru því úr húsi 13 til annarra deilda og húsa Landspítala og hefur stjórnendum því verið gert viðvart um málið og þeir beðnir um að vera á varðbergi gagnvart þessu. Mikilvægt er að ráða niðurlögum maursins þar sem hann getur verið smitberi og valdið skaða á meðferðartækjum.

Faraómaur er þekktur á Íslandi og var fyrsta staðfesta tilviksins vart 1980. Hans hefur þó ekki orðið vart á Landspítala áður. Maurinn þrífst vel í hita og raka og er aðstæðum á Landspítala þannig háttað að gera má ráð fyrir  að hann geti orðið erfiður viðureignar.

Þetta kemur fram á vef Landspítala.

Örfá sæti laus í glæpasagnasmiðju

Örfá sæti eru laus í glæpasagnasmiðju með rithöfundinum William Ryan  í aðalsafni 21. nóvermber, en smiðjan er hluti af dagskrá glæpasagnahátíðarinnar Iceland Noir.

Alþjóðlega glæpasagnahátíðin Iceland Noir var haldin í fyrsta skipti í nóvemberlok árið 2013 og vakti mikla athygli. Svo vel tókst til að ákveðið var að endurtaka leikinn og standa vonir til að hátíðin verði árlegur liður í bókmenntalífi hérlendis. Hátíðin verður dagana 20.-23. nóvember.

Sem fyrr tekur Borgarbókasafnið þátt í dagskránni. Föstudaginn 21. nóvember heldur írski rithöfundurinn William Ryan glæpasagnasmiðju í aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15, kl. 17-19.30. Ryan var einnig með smiðju í fyrra sem tókst sérdeilis vel, enda hét aðalpersónan Úlfhildur.

Nánari upplýsingar og skráning.

IcelandnoirlogoSm

Landsnefnd Bláa skjaldarins á Íslandi

Landsnefnd Bláa skjaldarins á Íslandi var formlega stofnuð föstudaginn 24. október, á degi Sameinuðu þjóðanna. Stofnfundurinn fór fram í Þjóðminjasafni Íslands og kom þar saman fjölmennur hópur fólks sem starfar að varðveislu menningarminja ásamt fulltrúum Almannavarna, Landsbjargar, Rauða krossins og ráðuneyta.

Blái skjöldurinn er menningunni það sem Rauði krossinn er mannúðar- og hjálparstarfi. Markmið hans að vernda menningarverðmæti þegar hættuástand skapast vegna náttúruhamfara og átaka m.a. með áætlunum og viðbrögðum þegar vá steðjar að og stuðningi þegar hættuástandi líkur. Landsnefndum Bláa skjaldarins hefur verið komið á fót um allan heim og þær hafa víða unnið mikilvægt starf við verndum menningarverðmæta. Íslendingar þekkja vel afl náttúrunnar og þær hamfarir sem geta orðið af hennar sökum á mannlegt samfélag. Íslenskri menningu er því mikilvægt að slíkri starfsemi, sem Blái skjöldurinn er, sé komið á fót hér á landi.

Nánar má lesa á vef Þjóðskjalasafnsins.

Pistill frá forstjóra Landspítala

„Í vikunni þurfti að fresta um 500 dag- og göngudeildarkomum, 56 skurðaðgerðum sem og tugum rannsókna og meðferða, m.a. hjartaþræðingum og speglunum. Það er ljóst að framundan er mikil vinna við að vinda ofan af áhrifum þessa og liggur fyrir að vinnu- og biðlistar munu lengjast. Dragist verkfallið á langinn og jafnvel út boðaðan tíma (11. desember) má ætla að um 800 skurðaðgerðum verði frestað, hundruðum rannsókna og enn fleiri dag- og göngudeildakomum. Við starfsfólk verðum að treysta því að samningsaðilar leggi nótt við dag að finna lausn á málinu.“

Allan pistilinn má lesa hér.

Kynning á skylmingum í Laugardal

Í dag, sunnudaginn 2. nóvember taka Söguhringur kvenna og Skylmingarfélag Reykjavíkur höndum saman og bjóða upp á kynningu á skylmingaríþróttinni.

Kynningin fer fram í Baldurshaga í Laugardalnum (undir aðalstúkunni) og byrjar kl. 13.30. Skylmingafélagið skaffar allan búnað en nauðsynlegt er að mæta í æfingafötum og innanhússíþróttaskóm. Allar konur og börn velkomin.

Forngripir almennings greindir á Þjóðminjasafninu

Í dag, sunnudaginn 2. nóvember kl. 14-16 er almenningi boðið að koma með eigin gripi í greiningu til sérfræðinga Þjóðminjasafnsins. Greiningin er ókeypis en fólk er beðið að hafa einungis 1-2 gripi meðferðis og að taka númer í afgreiðslu safnsins en aðeins 40 gestir komast að.

Hinir svokölluðu greiningardagar safnsins hafa verið mjög vel sóttir og margt fróðlegt komið í ljós. Greiningar á gripum í einkaeign eru ekki aðeins fróðlegir fyrir eigendur gripanna heldur gefst sérfræðingum safnsins einnig einstakt tækifæri til að sjá þá mörgu áhugaverðu og skemmtilegu gripi sem til eru á heimilum landsmanna. Eigendur taka að sjálfsögðu gripina með sér aftur að greiningu og myndatöku lokinni en greiningin snýst um aldur, efni og uppruna gripanna en ekki verðgildi þeirra.