ISNIC lokar léni hryðjuverkasamtaka

ISNIC hefur lokað lénum sem notuð voru fyrir vefsíðu yfirlýstra hryðjuverkasamtaka. Meirihluti stjórnar ákvað þetta nú síðdegis. Ákvörðunin er reist á grundvelli 2. tl. 9. gr. reglna ISNIC um lénaskráningu, þar sem fram kemur að rétthafa léns beri að ábyrgjast að notkun léns sé í samræmi við íslensk lög. Lénunum var lokað kl. 18:40, en nokkrir klukkutímar kunna að líða þar til vefir undir lénunum verða óaðgengilegir um allan heim.

Um fordæmalausa aðgerð er að ræða, þar sem ISNIC hefur aldrei fyrr lokað léni vegna innihalds vefjar.

Þetta kemur fram á heimasíðu ISNIC.IS

 

Hanna Birna kynnti sér framkvæmdir við nýtt fangelsi

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra heimsótti í síðustu viku fangelsisbygginguna á Hólmsheiði sem nú er að rísa. Páll E. Winkel fangelsismálastjóri og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður verkefnisstjórnar, og fleiri sögðu frá stöðu framkvæmdanna.

Nýtt fangelsi á Hólmsheiði verður með 56 fangarýmum og verður hluti rýmanna í sérstakri deild fyrir kvenfanga en að öðru leyti er í fangelsinu aðstaða fyrir afplánun skemmri fangelsisrefsinga og vararefsinga. Nýja fangelsið mun leysa af Hegningarhúsið við Skólavörðustíg og fangelsið í Kópavogi. Steinunn Valdís Óskarsdóttir sagði við kynninguna að eins og staðan væri í dag væri útlit fyrir að bæði verkáætlun og fjárhagsáætlun framkvæmdarinnar stæðust og enginn alvarlegur vandi hefði komið upp. Kostnaður við bygginguna er áætlaður um 2,7 milljarðar króna og er þá meðtalinn undirbúningskostnaður, kostnaður við samkeppni og hönnun og allan lóðarfrágang.

Páll E. Winkel fangelsismálastjóri sagði fangelsið á Hólmsheiði gjörbreyta allri aðstöðu og bæta aðbúnað bæði fanga og fangavarða. Hann sagði reksturinn verða hagkvæmari en í dag og yrði kostnaður við hvern fanga í nýja húsnæðinu kringum 14 þúsund krónur á sólarhring en hann væri í öðrum fangelsum í dag um 24 þúsund krónur.

Framkvæmdir hófust í kjölfar fyrstu skóflustungu 4. apríl 2013 og er gert ráð fyrir að húsið verði orðið fokhelt síðar í haust. Framkvæmdum á að ljúka í árslok 2015.

Fangelsi

Viðurkenningar veittar úr friðarsjóðnum LennonOno Grant For Peace

Veittar voru viðurkenningar úr friðarsjónum LennonOno Grant For Peace við hátíðlega athöfn í Hörpu í liðinni viku.

Hin heimsþekkta listakona og friðarsinni Yoko Ono afhenti verðlaunin en þau eru veitt annað hvert ár til einstaklinga eða félagasamtaka sem hafa stuðlað að friði í starfi sínu.

LennonOno-friðarsjóðurinn var settur á fót árið 2002 til þess að heiðra framlag John Lennons heitins til heimsfriðar og mannréttindabaráttu. Að þessu sinni veitti Yoko Ono fimm einstaklingum viðurkenningu, en þau hafa sýnt hugrekki og helgað sig friði, sannleika og mannréttindum.

LennonOno Grant For Peace 2014:

JANN WENNER – Stofnandi tímaritsins ROLLING STONE MAGAZINE  og stjórnarformaður Wenner Media.

JEREMY GILLEY – Stofnandi samtakanna Peace One Day.

DOREEN REMEN AND YVONNE FORCE VILLAREAL/ART PRODUCTION FUND – Verkefni sem miðar að því að auka listvitund almennings með því að færa nútímalist í opinber rými.

JÓN GNARR –  Stjórnmálamaður og fyrrverandi borgartjóri Reykjavíkur.

Hver og einn hlaut styrk úr sjóðnum sem renna á til góðgerðarmála. Jón Gnarr ánafnaði Kvennaathvarfinu sínum styrk.

img_5709

Mótun stefnu og framtíðarsýnar fyrir íslenska ferðaþjónustu

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur ákveðið að setja í gang vinnu við mótun stefnu og framtíðarsýnar fyrir ferðaþjónustu á Íslandi í öflugu samstarfi stjórnvalda, Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) og annarra hagsmunaaðila. Markmiðið er að byggja góðan grunn fyrir íslenska ferðaþjónustu og stuðla að samkeppnishæfni hennar á alþjóðlegum vettvangi til lengri tíma. Stefnt er að því að niðurstöður vinnunnar liggi fyrir í maí á næsta ári.

Það eru tímamót í ferðaþjónustu á Íslandi. Ferðaþjónustan er nú sú atvinnugrein sem skilar þjóðarbúinu mestum gjaldeyristekjum og árleg fjölgun erlendra ferðamanna hingað til lands hefur verið um 21% undanfarin tvö ár.  Vöxtur í greininni skapar mikil tækifæri en einnig áskoranir og við þeim þarf að bregðast af skynsemi.

Mikið hefur verið kallað eftir því að stjórnvöld móti stefnu og framtíðarsýn fyrir íslenska ferðaþjónustu og sterkur vilji er meðal hagsmunaaðila að koma að þeirri vinnu. Á þessum tímamótum er mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að læra af öðrum þjóðum með tilliti til þess hvað hefur reynst vel og hvað ber að varast þegar hugað er að uppbyggingu greinarinnar.

Málefni ferðaþjónustunnar ná yfir marga málaflokka. Það er því nauðsynlegt að gott samstarf sé milli ráðuneyta og annarra stjórnvalda um mótun stefnu fyrir ferðaþjónustuna. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði fram minnisblað um stefnumótunina í ríkisstjórn í morgun þar sem ráðherra óskaði eftir góðu samstarfi við önnur ráðuneyti við gerð stefnunnar. Mikilvægt er að ríkisstjórn Íslands standi einhuga að baki stefnumótuninni enda varðar hún mikla efnahagslega hagsmuni þjóðarinnar.

Stýrihópur um verkefnið mun starfa undir formennsku ráðherra en þar eiga einnig sæti ferðamálastjóri, formaður SAF og framkvæmdastjóri SAF. Í næstu viku hefst svo vinna verkefnahóps sem mun halda utan um verkefnið og ráðast í viðamikla undirbúningsvinnu við að kortleggja stöðuna í íslenskri ferðaþjónustu út frá ýmsum gögnum, m.a. hagtölum og skýrslum sem þegar liggja fyrir um ferðaþjónustuna. Þá verður hugað að umgjörð ferðaþjónustunnar á Íslandi og tekið mið af þekkingu og þróun ferðaþjónustu erlendis, einkum þar sem vel hefur tekist til.

Mikilvægasti þátturinn í undirbúningsvinnunni er aðkoma hagsmunaaðila og þeirra sem þekkja til í greininni og væntingar eru um víðtækt samstarf við þá. Það eru hagsmunir allrar þjóðarinnar að vel takist til og því mun verkefnahópurinn innan skamms kynna vettvang fyrir ábendingar þeirra sem vilja koma að mótun stefnu og framtíðarsýnar íslenskrar ferðaþjónustu.

Stefnt er að því að niðurstöður vinnunnar liggi fyrir í maí á næsta ár