Nýr Baldur tekur 280 farþega og 55 einkabíla

Nýtt skip Vågan, kemur til með að leysa Baldur af hólmi á Breiðafirði. Skipið tekur 280 farþega og 55 bíla. Það var byggt 1979 en endurbyggt 1989 og fékk nýja og stærri vél 1993.

Bílaflutningsgeta skipsins að mati Sæferða er u.þ.b. 55 einkabílar. Andstætt fyrirrennara Vågan, Baldri, þá eru öll ökutæki flutt undir dekki og varin fyrir sjóroki. Vågan er svo kallað gegnumakstursskip svipað Herjólfi. Hrein hæð á ekjudekki 4.5 m og heimilaður öxulþungi 13 tonn, sem leiðir til þess að öll lögleg flutningaeyki geta nýtt skipið.

Þetta er svipaður farþegafjöldi og Baldur flytur en munurinn felst í bílunum þar sem sá gamli tekur um 38 bíla. Einnig munar miklu að bílaþilfarið er lokað fyrir sjógangi. Lofthæðin er líka 4,5 m í stað 4,1 og munar um það.
Vågan var byggt í Bolsönes Verft í Molde í Noregi 1979, en síðan lengt um 14 m og endurbyggt árið 1989. Árið 1993 var sett ný og stærri aðalvél í skipið sem er 2609 bhö og er ganghraði skipsins rúmir 13 hnútar (25 km/klst.), en skipið er einnig búið öflugri bógskrúfu.
Ekjubrýr í áætlanahöfnum við Breiðafjörð, þ.e.a.s. í Stykkishólmi og Brjánslæk, eru byggðar eftir norskum stöðlum og smellpassar því Vågan við brýrnar. Skipið er búið öryggisbúnaði í samræmi við bæði íslenskar og norskar kröfur til ferja á siglingu á hafsvæðum sambærilegum við Breiðafjörðinn.
Sæferðir ehf. stefna að smávægilegum breytingum á skipinu í Breiðafjarðarsiglingum, þ.e.a.s. að búa skipið vörukrana til að þjóna Flatey og einnig verða gerðar breytingar á geymum skipsins fyrir ferskvatnsflutninga til Flateyjar.

Skipið er um 68 m langt og tæpir 12 m á breidd. Það er 1677 brúttótonn og ristir 4,0 m eða aðeins minna en Herjólfur og getur því auðveldlega leyst af í Landeyjahöfn þegar Herjólfur fer í slipp eða af öðrum ástæðum reynist þörf á afleysingu.
Vagan-i-Skutvik
Heimild: vegagerdin.is

Hæfileikamót stúlkna fór fram í Kórnum

Um síðustu helgi fór fram Hæfileikamót KSÍ og N1 hjá stúlkum og var þetta í fyrsta sinn sem slíkt mót var haldið.  Hátt í 80 leikmenn voru boðaðir til leiks frá 35 félögum.  Það er Þorlákur Árnason sem hefur yfirumsjón með verkefninu.

Undanfarið hefur Þorlákur Árnason ferðast um landið með Hæfileikamótun KSÍ og N1 og var þetta mót framhald af þeirri vinnu.  Um er að ræða leikmenn sem eru í 4. flokki, 13 til 14 ára, og hafa þeir mætt á æfingar og fengið annan fróðleik í gegnum Hæfileikamótun KSÍ og N1.

Mótið fór fram í Kórnum þar sem hópnum var skipt upp í lið og má sjá myndir frá mótinu á Facebook síðu KSÍDrengirnir verða svo í eldlínunni um komandi helgi og verða þeir einnig í Kórnum.

Heimild: ksi.is

185 íbúðir byggðar í öðrum áfanga Bryggjuhverfis

185 íbúðir verða byggðar í öðrum áfanga Bryggjuhverfis við Tanga- og Naustabryggju en borgarráð hefur ákveðið að setja deiliskipulag fyrir reitinn í auglýsingu.

Borgarráð hefur samþykkt að setja breytt deiliskipulag fyrir annan áfanga Bryggjuhverfis í auglýsingu. Samkvæmt tillögu að deiliskipulagi fyrir Tangabryggju og Naustabryggju munu 185 íbúðir rísa á reitnum. Íbúðir á reitnum verða aðeins fleiri og smærri en áætlað var í fyrra deiliskipulagi frá 2010.

Stjórn Faxaflóahafna  hefur ákveðið að gefa fyrirtækinu Björgun tvö ár til að rýma athafnasvæði sitt við Sævarhöfða en lóðarleigusamningur fyrirtækisins rann út árið 2009. Þegar  starfsemi Björgunar hverfur af svæðinu verður unnt að hefjast handa við uppbyggingu þriðja áfanga svæðisins. Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur munu um 3.600 íbúðir rísa við Elliðavog og er áframhaldandi uppbygging Bryggjuhverfisins hluti af því.

Lögreglan fylgist með auglýsingum í fjölmiðlum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, í samstarfi við Ríkisskattstjóra, kannaði í ágúst og september heimili og íbúðir á höfuðborgarsvæðinu þar sem gisting hafði verið auglýst í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum á borð við Facebook og airbnb.com. Um var að ræða eftirlit með gistileyfum og skattskyldu tekna vegna sölu á gistingu. Unnið verður úr þeim gögnum sem þarna söfnuðust en fjórum heimilum/íbúðum var lokað sem ekki höfðu leyfi til starfseminnar.

Lögreglan og Ríkisskattstjóri munu halda eftirliti þessu áfram og hvetja því þá sem hyggjast leigja hús, íbúðir eða herbergi til ferðamanna að sækja um tilskilin leyfi áður en starfsemin hefst, vera með löglega tekjuskráningu og greiða af þeim tekjum lögbundna skatta og gjöld.

Sækja þarf um rekstrarleyfi til lögreglu/sýslumanns áður en rekstur hefst og starfsleyfi til heilbrigðiseftirlits.

Ógnandi flugfarþegi handtekinn

Óskað var aðstoðar lögreglunnar á Suðurnesjum í vikunni við að fjarlægja drukkinn og ógnandi farþega sem var að koma með flugi frá Halifax. Um var að ræða karlmann á fimmtugsaldri sem hóf að haga sér dólgslega strax í upphafi flugs. Var hann ógnandi, með ólæti og barði meðal annars í sjónvarpsskjá sem ætlaður er farþegum. Þá rauf hann innsigli á bakka fyrir björgunarvesti og reif vestið fram.  Áhöfn vélarinnar reyndi að tala hann til og róa hann, en án árangurs.

Lögreglan á Suðurnesjum handtók manninn við komuna til landsins vegna brots á lögum um loftferðir og að hafa ógnað öryggi loftferða. Tekin var af honum skýrsla og hann síðan vistaður í fangaklefa.

Prjónuðu ullarteppi og húfur fyrir Hvít-Rússa

Nemendur í Kelduskóla í Grafarvogi hafa undanfarna mánuði prjónað ullarteppi og húfur handa hvít-rússnesku þjóðinni, en Rauði krossinn hefur haft veg og vanda að fatasöfnun fyrir fátæk börn í Hvíta-Rússlandi á undanförnum árum.  Allt frá árinu 2012 hafa eldri borgarar lagt fatasöfnuninni lið með því að prjóna hlý föt og teppi sem hafa verið send til Hvíta-Rússlands.  Nú hafa nemendur Kelduskóla gert slíkt hið sama, en börnin sem lögðu fram vinnu sína stunda nám við 4.-8. bekk skólans.

Veturnir hafa reynst erfiðir síðustu ár og búa Hvít-Rússar við lélegri húsakost en þekkist í vestanverðri Evrópu – sérstaklega í dreifðari byggðum. Nánar um hjálparstarf Rauða krossins í Hvíta-Rússlandi hér.
Teppi_5 Teppi_3

Ein stærsta flugvél sem lent hefur í Reykjavík

Flugvél bandaríska flughersins, af gerðinni Boeing C17 Globemaster, lenti á Reykjavíkurflugvelli í september, en vélin er sú stærsta sem lent hefur á vellinum að undanskildum tveimur svipuðum vélum sem lentu á vellinum á sjötta áratugnum. Vélin lenti hér á landi til að taka eldsneyti á leið sinni frá herstöð flughersins í Þýskalandi til Anchorage í Alaska.
Upphaflega átti vélin að lenda í Keflavík en gat það ekki sökum lágrar skýjahæðar.  Flugvél af þessari gerð var notast við þegar háhyrningurinn Keikó var fluttur til landsins á sínum tíma.
Lengd C17-vélarinnar er 53 metrar, vænghaf 51,75 metrar og stélhæð 16,8 metrar. Tóm er vélin um 128 tonn en hámarksþyngd við flugtak rúm 265 tonn.
c17-2 c17-3
Heimild og myndir: isavia.is

20 farsímum stolið á skemmtistöðum um síðustu helgi

Hátt í tuttugu farsímum var stolið af gestum skemmtistaða í miðborginni um síðustu helgi, og því vill lögreglan ítreka þau varnaðarorð sín til gesta á skemmtistöðum að vera alveg sérstaklega á varðbergi hvað þetta snertir. Fólk er jafnframt hvatt til hafa handtöskur lokaðar og geyma ekki síma sína á borðum eða glámbekk þar sem óprúttnir aðilar geta nálgast þá. Lögreglan hvetur einnig veitingamenn til að halda vöku sinni, gera viðeigandi ráðstafanir ef grunur vaknar um óvandaða aðila á ferð og stuðla þannig að fækkun þessara þjófnaða. Þetta kemur fram á Fésbókarsíðu Lögreglunnar.

Í áðurnefndum málum um síðustu helgi voru það allt konur, sem urðu fyrir barðinu á farsímaþjófum, en hvort um tilviljun var að ræða skal ósagt látið. Farsímaþjófnuðum hefur annars fækkað í miðborg Reykjavíkur á þessu ári í samanburði við sama tímabil árið 2013. Á síðasta ári hafði farsímaþjófnuðum hins vegar fjölgað mjög mikið í miðborginni frá árinu 2010, eða úr 88 í 384 árið 2013. Margir þessara þjófnaða áttu sér stað á skemmtistöðum í miðborginni, en það sem af er árinu 2014 hafa lögreglu borist rúmlega 200 tilkynningar um farsímaþjófnaði á þessu svæði. Áfram stefnir því í fækkun þessara brota á milli ára, en farsímaþjófnaðir síðustu helgar sýna hins vegar að fólk verður stöðugt að halda vöku sinni.

Hvað verður um hina stolnu farsíma, sem og annað þýfi yfirleitt, er svo annað mál, en ætla má að þeir séu m.a. seldir á netinu og því ættu kaupendur varnings á þeim vettvangi að hafa varan á. Þótt mörgum finnist erfitt að ganga úr skugga um að hlutur sé ekki illa fengin er samt ýmislegt hægt að gera. Biðja má um kvittun frá upphaflegum kaupum, t.d. með þeim formerkjum að kanna hvort hluturinn sé í ábyrgð. Ef keypt eru notuð raftæki skal athugað hvort réttir fylgihlutir séu sannarlega til staðar, þ.e. snúrur, leiðbeiningarbæklingar, hleðslutæki o.s.frv

Um 60% ungs fólks má eiga von á því að ljúka háskólagráðu

OECD birtir árlega skýrslu um menntamál, Education at a Glance, með tölulegum upplýsingum um þróun menntamála í aðildarlöndunum. Helsu efnisþættir eru menntunarstig og þróun þess, og útgjöld til menntamála. Að auki er fjallað um aðsókn að námi, skipulag skólastarfs, kennslutíma eftir námsgreinum, vinnutíma og laun kennara og fleira. Hér eru nokkur atriði sem fram koma í skýrslunni:

Hlutfall háskólamenntaðra fer stöðugt hækkandi og er núna um 35% af fólki á aldrinum 24-64 ára. Talsvert fleiri konur en karlar ljúka háskólanámi og í aldursflokknum 25 – 34 ára höfðu 44% kvenna en 28% karla lokið háskólagráðu árið 2012.

Um 60% ungs fólks má eiga von á því að ljúka háskólagráðu á lífsleiðinni ef miðað er við núverandi fjölda brautskráninga. Þetta er hæsta hlutfall innan OECD og skýrist að hluta til af fjölda þeirra sem stunda háskólanám seinna á lífsleiðinni.

Hlutfall þeirra sem hafa lokið framhaldsskólaprófi hefur hækkað jafnt og þétt frá aldamótum og var 71% af aldurshópnum 25 – 64 ára. Miklu munar þar um að konum, sem ljúka framhaldsskólaprófi, hefur fjölgað umtalsvert. Um 80% kvenna höfðu lokið framhaldsskóla í aldurshópnum 25-34 ára. Um síðustu aldamót var hlutfallið 65% í sama aldurshópi meðal kvenna.

Hlutfall þeirra sem ljúka framhaldsskóla á skilgreindum námstíma er lægst hér á landi og óvíða er meðalaldur þeirra sem ljúka námi jafn hár og hér. Sex árum frá innritun hafa aðeins 58% lokið framhaldsskóla, 64% kvenna og 52% karla. Hlutfallið er enn lægra hjá innflytjendum  því eftir sex ár hafa aðeins 31% þeirra lokið námi.

Samantekt úr skýrslunni:

Samantekt mennta- og menningarmálaráðuneytis um efni skýrslunnar ásamt töflum með helstu lykiltölum.

Úttekir á framhaldsskólum

Úttektir hafa verið gerðar á þremur framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu af hálfu Mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Í skýrslunum er gerð grein fyrir úttektum á starfsemi Flensborgarskóla, Menntaskólans við Sund og Verzlunarskóla Íslands á grundvelli 42. gr. laga um framhaldsskóla nr. 92/2008 og samkvæmt þriggja ára áætlun mennta- og menningarmálaráðuneytisins um úttektir á framhaldsskólastigi. Markmið úttektanna er að leggja mat á starfsemi skólanna með hliðsjón af gildandi lögum, reglugerðum og aðalnámskrá og veita almennar upplýsingar um starfsemi þeirra. Lagt var mat á stjórnun og rekstur, skólanámskrá, nám og kennslu, skólabrag og samskipti, samstarf við foreldra, sérþarfir nemenda og kannað hvort innra mat skólans mætir ákvæðum aðalnámskrár og þörfum skólans.

Skýrslurnar eru afar áhugaverðar og viðamiklar.

Fjármálastöðuleikaráð tekur til starfa

Fyrsti fundur fjármálastöðugleikaráðs fór fram í fjármála- og efnahagsráðuneytinu miðvikudaginn 10. september 2014. Fjármálastöðugleikaráð er formlegur samstarfsvettvangur stjórnvalda um fjármálastöðugleika.  Ráðið er vettvangur samráðs, upplýsingaskipta og stefnumótunar vegna fjármálastöðugleika og samhæfir viðbúnað opinberra aðila við fjármálakreppu.

Í fjármálastöðugleikaráði sitja fjármála- og efnahagsráðherra, sem er formaður ráðsins, seðlabankastjóri og forstjóri Fjármálaeftirlitsins.

Helstu verkefni fjármálastöðugleikaráðs eru:

  1. Að móta opinbera stefnu um fjármálastöðugleika,
  2. Að meta efnahagslegt ójafnvægi, áhættu í fjármálakerfinu, óæskilega hvata og aðrar aðstæður sem eru líklegar til að ógna fjármálastöðugleika,
  3. Að skilgreina þær aðgerðir, aðrar en beitingu stjórntækja Seðlabanka Íslands í peningamálum, sem eru taldar nauðsynlegar á hverjum tíma til að hafa áhrif á fjármálakerfið í þeim tilgangi að efla og varðveita fjármálastöðugleika,
  4. Að staðfesta skilgreiningar á kerfislega mikilvægum eftirlitsskyldum aðilum, innviðum og mörkuðum sem eru þess eðlis að starfsemi þeirra getur haft áhrif á fjármálastöðugleika.

Listasmiðja fyrir börn í Borgarbókasafni

Sunnudaginn 14. september kl. 15-16 verður listasmiðja fyrir börn í aðalsafni Borgarbókasafns, Tryggvagötu 15. Smiðjan er sett upp í tengslum við afmælissýningu félagsins Íslensk grafík sem nú stendur yfir í safninu. Börn og fjölskyldur geta komið og þrykkt undir leiðsögn tveggja myndlistarmanna, þeirra Elísabetar Stefánsdóttur og Gunnhildar Þórðardóttur. Enginn aðgangseyrir og allir velkomnir.

Listasmidja

Stelpumenning – ljósmyndasýning

Lauren Greenfield
STELPUMENNING
13. september 2014 – 11. janúar 2015

Stelpumenning  er ljósmyndasýning í Ljósmyndasafni Reykjavíkur og varpar ljósi á hverfandi skil á milli raunveruleika stúlkna og gildishlaðinnar birtingarmyndar kvenna í bandarískri dægurmenningu. Sýningin stendur frá 13. september til 11. janúar 2015.

Myndaröðin er afrakstur fimm ára rannsóknar Lauren Greenfield á lífi stúlkna og kvenna víðsvegar um Bandaríkin. Portrettmyndir og viðtöl Greenfield varpa ljósi á upplifanir og athafnir kvenna innan samfélags sem krefst ákveðins útlits, hegðunar og frammistöðu. Í sýningunni mætast hversdagslegar og öfgakenndar aðstæður stelpumenningar: samkeppni og útlitsdýrkun unglingsstúlkna og barátta ungrar konu með lystarstol; barn í búningaleik og fatafella í skólastúlkubúningi.

Lauren Greenfield hefur unnið við heimildaljósmyndun og kvikmyndagerð frá 1991. Greenfield bregður birtu kynjahlutverk, líf ungmenna og neyslumenningu í myndum sínum. Meðal myndaraða Greenfield má nefna Fast Forward (1997), Girl Culture (2002) og THIN (2006) og heimildarmyndirnar Kids + Money (2008), Beauty CULTure (2011) og Queen of Versaille (2012). Heimilda- og fréttaljósmyndir Greenfield birtast reglulega í tímaritum á boð við The New York Times Magazine, National Geographic og Harper‘s Bazaar.

Heimildarmyndirnar Queen of Versaille og Kids & Money eftir Lauren Greenfield munu vera sýndar á meðan á sýningunni stendur.

Sýningin er skipulögð af Evergreen Pictures

Girl Culture

Ný samsýning opnar á Ásmundasafni

Samsýningin, A posterori: Hús, höggmynd, verður opnuð í Listasafni Reykjavíkur, Ásmundarsafni, laugardaginn 13. september kl. 16. Listamennirnir Birgir Snæbjörn Birgisson, Guðjón Ketilsson, Hulda Hákon, Kathy Clark, Kristín Reynisdóttir, Stefán Jónsson og Þorbjörg Þorvaldsdóttir sýna þar verk sín ásamt verkum Ásmundar Sveinssonar.

Á sýningunni eru  listaverk með nýstárlegar tilvísanir í hinar ýmsu byggingar og hús. Verkin eru ýmist gerð út frá raunverulegri eða ímyndaðri byggingarlist og endurspegla oft liðna tíð. Sjálft Ásmundarsafn er hluti af sýningunni bæði sem hús og höggmynd. Ásmundur hannaði húsið með listaverkin sín í huga og nýtti sem vinnustofu og sýningarrými. Byggingarnar bjóða jafnframt upp á óhefðbundinn vettvang fyrir listsköpun annarra listamanna. Ásmundur byggði húsið á sama tíma og hann vann margar af þeim höggmyndum sem nú standa í garðinum. Á sýningunni verða sett upp minni útgáfur af þessum höggmyndum sem spila bæði saman við stærri verkin og við verk annarra listamanna á sýningunni. Sýningarstjóri er Yean Fee Quay.

Heimild: http://www.listasafnreykjavikur.is

Lína langsokkur frumsýnd í Borgarleikhúsinu

Laugardaginn 13. september kl. 14.00 frumsýnir Borgarleikhúsið Línu Langsokk í leikstjórn Ágústu Skúladóttur og nafna hennar Ágústa Eva Erlendsdóttir fer með hlutverk hinar einu sönnu Sigurlínu Rúllugardínu Nýlendínu Krúsimundu Efraimsdóttur Langsokks.  Leikmyndin er í höndum Ilmar Stefánsdóttur og María Th. Ólafsdóttir sér um búninga.

Lína langsokkur, Herra Níels api og hesturinn eru aftur mætt til leiks ásamt vinum sínum Tomma og Önnu. Leiðindaskarfurinn frú Prússólín er staðráðin í að koma Línu fyrir á vandræðaheimili þannig að Lína þarf að hafa sig alla við vilji hún búa áfram á Sjónarhóli. Lína langsokkur er hjartahlýr og réttsýnn prakkari sem allar kynslóðir barna verða að kynnast. Ágústa Eva fer á kostum sem Lína í þessu bráðfyndna og skemmtilega leikriti sem sýnir okkur að við eigum alltaf að vera við sjálf og ekkert annað.

Astrid Lindgren höfundur Línu langsokks er einn ástsælasti barnabókahöfundur allra tíma. Hún fæddist 14. Nóvember 1907 í Smálöndum í Svíþjóð og lést í Stokkhólmi 28. janúar 2002, 94 ára að aldri. Hún skrifaði samtals 40 barnabækur og fjölda myndabóka.

lina

Silfur Íslands á Þjóðminjasafninu

Sunnudaginn 14. september kl. 14 verður ókeypis leiðsögn um sýninguna Silfur Íslands á Þjóðminjasafninu. Á sýningunni eru yfir 2000 silfurgripir en leitast var við að beina sjónum að hinum mismunandi aðferðum við silfursmíð en um leið setja búningasilfur, borðbúnað ,silfurskildi og kaleika fram á nýstárlegan hátt. Leiðsögnin er ókeypis og allir velkomnir.

Listrýnir Morgunblaðsins skrifaði m.a. um sýninguna:

…höfða til ímyndunarafls sýningargesta og gera þeim kleift að  mynda tengsl við fortíðina og hina gömlu gripi á lifandi, aðgengilegan og myndrænan hátt…Með uppsetningunni  er  listrænt gildi gripanna undirstrikað og fegurðarþráin sem að baki býr.

Í Listaukanum á Rás1 var m.a. sagt:

Skyldusýning fyrir alla Íslendinga…sýning sem færir munasýningar upp á annað stig…nýstárleg nálgun…maður sér gripi í öðru ljósi.

Lögreglan lagði hald á 6 kg af marijúana

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur lagt hald á um 6 kg af marijúana í nokkrum aðskildum málum undanfarna daga. Framkvæmdar hafa verið húsleitir í Hafnarfirði, Reykjavík og Kópavogi, en auk marijúana hefur lögreglan tekið í sína vörslu neysluskammta af amfetamíni, um 100 gr. af kannabisefnum, kannabisplöntur og ýmsa muni sem grunur leikur á að séu þýfi. Mest af marijúana var að finna við húsleit í íbúð fjölbýlishúss í Kópavogi, eða rúmlega 3,5 kg, en hluti þess var í geymslu sem tilheyrði íbúðinni. Húsráðandi, karl á fertugsaldri, var handtekinn í þágu rannsóknarinnar. Í fjölbýlishúsi í Hafnarfirði fann lögreglan tæplega 1,5 kg af marijúana og var karl á fertugsaldri handtekinn í tengslum við málið. Í öðru fjölbýlishúsi í Hafnarfirði var lagt hald á nærri 1 kg af marijúana og var karl á þrítugsaldri handtekinn í þágu rannsóknarinnar.

Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.