Fegrunarviðurkenningar Reykjavíkurborgar

Hilton Reykjavík Nordica hefur hlotið Fegrunarviðurkenningu Reykjavíkurborgar árið 2014 fyrir fegurstu lóð fyrirtækja. Snýr viðurkenningin að vel útfærðri endurgerð á framhlið hótellóðarinnar sem nýlega var endurgerð að fullu. Efnisval er talið smekklegt og lóðin með fallega græna ásýnd með snyrtilega útfærðum grasmönum við lóðarmörk. Reykjavíkurborg veitir fegrunarviðurkenninguna árlega fyrir fallegustu lóðirnar hjá fyrirtækjum og fjölbýlishúsum og eru það skipulags- og landslagsarkítektar hjá borginni sem sjá um að meta og velja lóðir til verðlauna.

 

Aðrar viðurkenningar árið 2014 hljóta fjórar lóðir, þrjú hús og tvær verslanir við sumargötur  .

Fyrirtækja- og stofnanalóðir:

 • Suðurlandsbraut 2, Hilton Reykjavík Nordica;
 • Sæmundargata 14-20,  Félagsstofnun Stúdenta.

Fjölbýlishúsalóðir:

 • Dunhagi 11-17,
 • Ljósheimar 8-12.

Hús:

 • Lækjargata 8;
 • Grundarstígur 10, Hannesarholt;
 • Grandagarður 20, HB Grandi .

Sumargötur:

 • Laugavegur 1, Vísir;
 • Skólavörðustígur 5, Gullsmiðja og Listmunahús Ófeigs, Lítil í upphafi ehf.

verdlaunalodir_072

 

Justin Timberlake í beinni útsendingu

Hægt verður að horfa á tónleika Justins Timberlake í Kórnum  í Kópavogi í beinni útsendingu á netinu. Tónleikarnir eru sendir út gegnum vefsíðuna Yahoo. Timberlake stígur á svið klukkan níu í kvöld, og þá hefst bein útsendingin á netinu. Slóðin er https://screen.yahoo.com/live/

Búist er við yfir 20.000 gestum á tónleikana.

Dagskráin er eftirfarandi:

18.00   Húsið opnar
19.30   Gus Gus
20.15   DJ Freestyle Steve
21.00   Justin Timberlake

Jazzhátíð í Reykjavík

Jazzhátíð Reykjavíkur hófst 14. ágúst og stendur til 20. ágúst. Hún er nú haldin í 25. sinn og er með veglegra móti í ár til að fagna tímamótunum. Fjölmargir íslenskir og erlendir tónlistamenn taka þátt í hátíðinni í ár. Allir viðburðir fara fram í Hörpu. Jazzhátíð hófst með skrúðgöngu niður Laugaveginn að Hörpu þar sem setningarathöfnin fór formlega fram.

Alla dagskránna má sjá hér.

331x157_upplysingaskjar1

Ráðstefna um starfsþróun kennara frá leikskóla til háskóla

Árið 2014 er Ísland með formennsku í norrænu ráðherranefndinni.  Af því tilefni verður dagana 13. og 14. ágúst haldin ráðstefna um starfsþróun kennara frá leikskóla til háskóla. Á ráðstefnunni verður fjallað um mikilvægi faglegrar starfsþróunar í norrænu og alþjóðlegu samhengi og boðið upp á fyrirlestra,  málstofur og vinnustofur.

Aðalfyrirlesarar verða þrír, Andy Hargreaves frá Boston College, Pasi Sahlberg frá Harvard og Sigrún Aðalbjarnardóttir, Háskóla Íslands.

 • Sigrún Aðalbjarnardóttir er góðkunn fyrir rannsóknir sínar á skólagöngu ungmenna og á kennarastarfinu.
 • Andy Hargreaves hefur leiðbeint víða um lönd um stefnumótun í skólamálum. Hann mun fjalla um hvernig fjárfesting í fagmennsku kennara og gæðakennslu er forsenda þess að bæta námsárangur nemenda.
 • Metsölubók Pasi Sahlberg, Finnish Lessons, lesa stjórnmálamenn jafnt sem skólamenn. Hann mun ræða um námsárangur finnska skólabarna og reifa spurningu sem brennur á vörum margra: Hvað myndi gerast ef hinir frábæru finnsku kennarar tækju til starfa í okkar skólum?

Þetta kemur fram á vef Menntamálaráðuneytis, og nánari upplýsingar þar.

Garðaganga í Laugardal

Sunnudaginn 10. ágúst verður boðið upp á garðagöngu um Laugardal og Laugarás. Gangan er skipulögð í samstarfi Grasagarðs Reykjavíkur, Garðyrkjufélags Íslands og Íbúasamtaka Laugardals. Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir. Kaffisopi og spjall í lok göngu. Mæting við aðalinngang Grasagarðs kl. 10.

Frá Grasagarðinum verður gengið í gegnum skrúð-, rósa- og aldingarðana í Laugardal. Þaðan verður rölt eftir Sunnuvegi upp á Laugarásveg þar sem einkagarður Bryndísar Jónsdóttur verður skoðaður. Bryndís og eiginmaður hennar, Snæbjörn Jónasson heitinn, ræktuðu garðinn upp af alúð og þar má þar finna ýmsar fágætar plöntur meðal annars úrval lyngrósa, sígræna runna, tré og annan áhugaverðan gróður.

Frá Laugarásvegi liggur leiðin upp á holtið við Áskirkju þar sem holta- og garðagróður dafnar vel. Af holtinu er gott útsýni yfir gróskumikinn Laugardalinn. Eftir stutt stopp verður gengið eftir Vesturbrún og niður að einkagarði Ragnhildar Þórarinsdóttur og Bergs Benediktssonar við Brúnaveg. Garðurinn þeirra umlykur Gamla pósthúsið, sem er eitt af sögufrægum húsum Reykjavíkur og hefur komið víða við í borginni. Garðurinn er ævintýralega skemmtilegur með einstöku evrópulerki, fjölda gamalla og nýrra trjáa og úrvali fjölæringa.

Regnbogahátíð fjölskyldunnar í Viðey

Viðey tekur vel á móti hinsegin fjölskyldum sunnudaginn 10. ágúst með frábærri fjölskyldudagskrá og regnbogaveitingum.  Regnbogahátíð fjölskyldunnar er einn af vinsælustu viðburðum Hinsegin daga.

Ferjan siglir frá Skarfabakka í Sundahöfn á klukkustundar fresti frá kl. 11:15–17:15 og oftar ef þörf krefur. Ferjan leggur úr höfn í Reykjavík stundarfjórðung yfir heilan tíma. Hinsegin tilboð  verður í ferjuna.

 • 11:30–17:00 Regnbogaveitingar í Viðeyjarstofu fyrir börn og fullorðna.
 • 14:30 Samverustund og leikir í boði Félags hinsegin foreldra.

Greiðsluafkoma ríkissjóðs jákvæð

Greiðsluuppgjör ríkissjóðs fyrir fyrri helming ársins 2014 liggur nú fyrir og gefur upplýsingar um afkomu ríkissjóðs á grundvelli innheimtra tekna og greiddra gjalda.

Handbært fé frá rekstri var jákvætt um 15,9 ma.kr. en var neikvætt um 13,8 ma.kr.  á sama tímabili árið 2013. Innheimtar tekjur hækkuðu um 46,1 ma.kr. milli ára en greidd gjöld jukust um 16,2 ma.kr.

Nánari upplýsingar má sækja hér.

Þetta kemur fram á vef Fjármála- og efnahagsráðuneytis.

Gleðigangan kl. 14 í dag

​Í gleðigöngu Hinsegin daga staðfestir hinsegin fólk tilveru sína, sýnileika og gleði. Þar sameinast lesbíur, hommar, tví- og pankynhneigðir, transfólk og intersex fólk í einum hópi ásamt fjölskyldum sínum og vinum. Gleðigangan er hápunktur og stolt hátíðarinnar sem er nú haldin í  sextánda sinn en hún hófst 5. ágúst s.l. og lýkur 10. ágúst.

Gengið er frá Vatnsmýrarvegi að Arnarhóli í dag, laugardaginn 9. ágúst 2014 kl. 14:00. Regnbogaútihátíð verður haldin á Arnarhóli eftir göngu. Pride ball verður svo haldið í Rúbín í Öskjuhlíð í kvöld.

ad719b_efc1a305b29d4604aa223cb9f3720ebb