Reykjavíkurborg styrkir KFUM og KFUK

Jón Gnarr, borgarstjóri hefur undirritað samning fyrir hönd Reykjavíkurborgar við KFUM og KFUK í því skyni að efla starf samtakanna i Reykjavík, æsku borgarinnar til heilla.

Reykjavíkurborg hefur átt náið samstarf við KFUM og KFUK á liðnum árum og í samningnum er kveðið á um samstarfið milli aðila og mörkun framtíðastefnumótunar í samskiptum þeirra til tveggja ára. Styrkupphæðin nemur 28,5 milljónum króna á ári og er kveðið á um í samningnum að það fé sem borgarsjóður leggur til starfs KFUM og KFUK nýtist sem best þeim borgarbúum sem taka þátt í starfi samtakanna.

Hlutverk KFUM og K er að efla og þroska börn og ungt fólk til að verða sjálfstæðir, virkir og ábyrgir einstaklingar í samfélaginu. Samtökin starfrækja barna- og unglingastarf á veturna  í um 40 deildum víða um land sem halda fundi einu sinni í viku.  Íþróttamót og hátíðir eru fastur liður í starfinu ásamt styttri og lengri vettvangsferðum.

Á sumrin taka við sumarbúðir sem KFUM og KFUK reka á fimm stöðum á landinu og leikjanámskeið sem haldin eru í Reykjavík og Kópavogi.

Fullorðinsstarf er mikilvægur þáttur félagsstarfs KFUM og KFUK , samkomur, fræðandi og uppbyggilegir fundir, námskeiðahald, helgarsamverur í sumarbúðum félagsins og fleira.

Nýr formaður Rauða krossins á Íslandi

Sveinn Kristinsson hefur verið kjörinn formaður Rauða krossins á Íslandi á aðalfundi félagsins þann 1 7. maí s.l. Þetta er í fyrsta sinn í sögu Rauða krossins á Íslandi sem kosið er um formann.

Sveinn tekur við af Önnu Stefánsdóttur sem sem lætur af formennsku eftir að hafa gegnt því starfi frá 2008, en samkvæmt lögum félagsins er ekki hægt að vera lengur en átta ár í því embætti.

Sveinn Kristinsson hefur verið formaður Rauða krossins á Akranesi í 9 ár. Sveinn er fyrrverandi kennari og skólastjóri og hefur gegnt forystu innan Rauða krossins og sinnt fjölmörgum félagsstörfum og trúnaðarstörfum á vettvangi sveitarstjórnarmála. Í starfi sínu fyrir Rauða krossinn hefur Sveinn virkjað samstarfsaðila í sveitarfélaginu til starfs með Rauða krossinum.

Til setu í stjórn Rauða krossins á Íslandi til fjögurra ára voru kjörnir: Halldór Valdimarsson fyrrverandi skólastjóri Húsavíkurdeild, Hrund Snorradóttir verkefnisstjóri hjá Austurbrú Vopnafjarðardeild, Margrét Vagnsdóttir rekstrarstjóri Háskólanum á Bifröst Borgarfjarðardeild, Jónas Sigurðsson, varayfirlögreglustjóri á Vestfjörðum Barðastrandarsýsludeild, en hann hefur jafnframt verið varamaður í stjórn síðustu tvö ár, Sigrún Árnadóttir sveitarstjóri í Sandgerði Suðurnesjadeild.

Til stjórnarmennsku til tveggja ára var kjörin Oddrún Kristjánsdóttir Reykjavíkurdeild. Ívar Kristinsson Kópavogsdeild og Þóra Björk Nikulásdóttir Stöðvarfjarðardeild voru kosnir varamenn til tveggja ára. Gunnlaugur Dan Ólafsson Grindavíkurdeild og Sigrún Camilla Halldórsdóttir Ísafjarðardeild voru kosin skoðunarmenn til tveggja ára, en Sigrún hefur verið skoðunarmaður frá 2010.

Ríflega 350 milljóna til framkvæmda á ferðamannastöðum í sumar

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum  á föstudagsmorgun ríflega 350 milljóna króna fjárframlag til uppbyggingar og verndaraðgerða á ferðamannastöðum í sumar. Um er að ræða sérstaka úthlutun vegna verkefna sem talin eru brýn vegna verndunar eða öryggissjónarmiða og ekki eru talin þola bið.

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, forsætisráðuneytið og stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða sett saman lista yfir staði í umsjón og eigu ríkisins og sveitarfélaga þar sem talið er brýnt að ráðast í aðgerðir á í sumar vegna aukins ferðamannastraums til landsins. Um er að ræða framkvæmdir á gönguleiðum/göngustígum sem liggja undir skemmdum. Framkvæmdirnar fela m.a. í sér að skipta um jarðvegsefni og verja gönguleiðir fyrir skemmdum svo hægt sé að beina ferðamönnum á þær. Þá þarf víða að koma upp öryggisgrindverkum og pöllum við fossa og hveri til að tryggja öryggi ferðamanna en talið er að slysahættan sé veruleg á mörgum þessara staða.

Alls er því gert ráð fyrir að ráðast í sumar í framkvæmdir vegna göngustíga og öryggismála að upphæð ríflega 350 milljóna króna. Er ljóst að framkvæmdirnar munu hafa jákvæð áhrif á atvinnuástand byggða og dreifast vel yfir landið allt, með tilliti til staðsetningar helstu ferðamannastaða.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða mun sjá um þessa úthlutun og í samstarfi við Ferðamálastofu annast eftirlit með úthlutun og framgangi verkefna.

Íslands veitir 5 milljóna neyðaraðstoð vegna flóða í Serbíu

Á fundi sínum á föstudaginn s.l. ákvað ríkisstjórn Íslands að veita 5 milljónum króna í neyðaraðstoð vegna flóðanna í Serbíu og Bosníu-Hersegóvínu til viðbótar þeim 3 milljónum króna sem utanríkisráðherra hefur þegar veitt til neyðaraðstoðar í löndunum tveimur.

Verstu flóð í manna minnum geisa nú á Balkanskaga og eru stór landssvæði í Bosníu-Hersegóvínu og Serbíu undir vatni. Tugir manns hafa farist og yfir hundrað þúsund manns hafa hrakist af heimilum sínum. Mikið tjón hefur orðið á byggingum, vegakerfi og innviðum sem hefur torveldað neyðaraðgerðir. Þá hafa jarðsprengjur frá því í Balkanstríðinu færst úr stað og skapa mikla hættu.

Framlagið mun renna til landsfélaga Rauða krossins á flóðasvæðunum sem sinna hjálparstarfi.

Breytingar á lögreglulögum varðandi lögreglumenntun

Þann 14. maí s.l. samþykkti Alþingi breytingar á lögreglulögum sem varða almenn inntökuskilyrði í Lögregluskóla ríkisins. Einnig var samþykkt að ráðherra myndi starfshóp sem á að endurskoða skipulag og starfsemi Lögregluskóla ríkisins og gera tillögu að framtíðarskipan lögreglumenntunar. Starfshópurinn skal skila tillögum ásamt greinargerð til ráðherra ekki síðar en 1. ágúst 2014.

Með vísan til þessara lagaákvæða er ekki ljóst hvenær nýnemar verða næst teknir inn í Lögregluskóla ríkisins.

Færeyjabiskup á Íslandi

Færeyjabiskup, Jógvan Fríðriksson, var ásamt nýkjörinni stiftsstjórn og prófastsdæmisráði færeysku þjóðkirkjunnar á ferð um Suðurland Íslands dagana 13.-16. maí s.l. Í stað þess að stilla saman strengi heima í Færeyjum við áætlun og mótun kirkjustarfsins á komandi tíð, bauð biskupinn sínu fólki að fara til Íslands, sjá hér vorið lita landslagið margbreytilegt og oft hrikalegt, hitta fyrir presta og kirkjufólk, skoða kirkjur, safnaðarheimili og kirkjuskjól. Alls voru 13 manns í föruneyti (ferðalagi á færeysku) biskupsins þar á meðal sr. Uni Næs, dómprófastur Þórshafnarkirkju og Færeyja, og einnig sr. Heri Joensen, sóknarprestur Vesturkirkjunnar í Þórshöfn. Hann er guðfræðingur frá Háskóla Íslands, kvæntur íslenskri konu og þekkir vel til íslensks umhverfis og aðstæðna.

Að morgni föstudagsins 16. maí flaug svo færeyska kirkjuliðið með flugvél færeyska flugfélagsins, Atlantic Airways, af landi brott aftur til Færeyja eftir innihaldsríka ferð og dvöl hér á Íslandi. Enda þótt dagskrá ferðarinnar hafi verið þétt gafst tími á áningarstöðum á leiðinni og í rútunni líka til þess að funda og þinga um kirkjumálin í Færeyjum jafnframt því sem rifjaðar voru upp minningar og sögur af góðum og gefandi samskiptum Færeyinga og Íslendinga fyrr og síðar sem færa þjóðir þeirra þétt og hlýtt hvor að annarri og styrkja sjálfsmynd þeirra.

SAM_9064 Heimild: kirkjan.is

Hjúkrunarráð Landspítala ályktar um ákæru

Ályktun frá hjúkrunarráði Landspítala 22. maí 2014:

Landspítala og hjúkrunarfræðingi á gjörgæsludeild hefur nú verið birt ákæra vegna atviks á árinu 2012. Hjúkrunarráð Landspítala harmar þetta atvik þar sem maður lést og vottar aðstandendum hans dýpstu samúð.

Hjúkrunarráð hefur ítrekað bent á að álag á Landspítalanum sé of mikið og að starfsaðstæður séu víða óviðunandi. Staðan sem nú er upp komin veldur óvissu og mun breyta starfsumhverfi allra heilbrigðisstarfsmanna.

Hjúkrunarráð Landspítala fer fram á það við stjórnvöld og stjórnendur spítalans að sett verði viðurkennd öryggismörk hjúkrunar. Jafnframt þarf að leggja fram viðbragðsáætlun við frávikum, með öryggi sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna að leiðarljósi.

Pistill frá forstjóra Landspítalans

Í vikunni var tekið mikilvægt skref til framtíðaruppbyggingar á Landspítala þegar afhent voru útboðsgögn til fullnaðarhönnunar á sjúkrahóteli á Hringbrautarlóðinni. Bygging á sjúkrahótelinu er í reynd fyrsti áfanginn í heildaruppbyggingu sem undirbúin hefur verið bæði með frumhönnun nýrra bygginga og gerð deiliskipulags fyrir lóðina.   Það er vaxandi skilningur á því í samfélaginu að ekki verði haldið áfram á þeirri braut sem spítalinn hefur verið, þjóðin geti með engu móti mætt framtíðarkröfum um öryggi og þjónustu með núverandi spítalabyggingum einvörðungu.

Þetta hefur komið fram í mörgu en að undanförnu mjög skýrt í tvennu. Annars vegar í þeim fersku vindum sem hafa blásið um nýstofnuð samtök Spítalinn okkar. Það er mikill kraftur í þeim og ég hvet fólk eindregið til að leggja þeim lið. Núna er Spítalinn okkar nýbúinn að opna heimasíðu þar sem eru allar helstu upplýsingar um samtökin og hægt að skrá sig í þau. Hins vegar og ekki síður áberandi og mikilvægt skref til stuðnings uppbyggingaráformunum við Hringbraut var samþykkt Alþingis á síðasta starfsdegi fyrir sumarleyfi þess. Þar kemur skýrt fram vilji þingsins að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi bygginga við Hringbraut og hefja framkvæmdir strax að honum loknum. Þessi samþykkt Alþingis er mikið fagnaðarefni og ég leyfi mér að trúa því og treysta að við verðum búin að sameina bráðastarfsemi spítalans í einum meðferðarkjarna við Hringbraut árið 2020.

II.

Það er vissulega erfitt að þurfa bíða til ársins 2020 eftir betra húsnæði fyrir sjúklinga og starfsmenn Landspítala en við munum glöð þrauka ef við vitum fyrir víst hvað koma skal og hvenær. Spítalinn nýtur þess að eiga góða bakhjarla sem hafa sýnt að þeir eru tilbúnir að leggja honum lið þegar á reynir. Þetta kom til dæmis skýrt í ljós í söfnun til kaupa á línuhraðli til geislameðferðar vegna krabbameina. Þar steig Þjóðkirkjan fram, Blái naglinn og fjölmörg önnur félagasamtök og einstaklingar og lögðu til fé. Núna er þetta tæki rækilega búið að sanna ágæti sitt og var formlega tekið í notkun í vikunni eftir reynslutímabil. Það er stutt síðan við tókum í notkun nýtt hjartaþræðingartæki sem líka var að miklu leyti keypt fyrir gjafafé. Núna er verið að safna fyrir aðgerðarþjarka til skurðlækninga á spítalanum, öflugu tæki sem við vonumst til að komist í gagnið á næsta ári. Þar hafa líka margir lagt sitt af mörkum nú þegar en það má segja að vatnaskil hafi orðið í þjarkasöfnuninni með 25 milljóna króna gjöf Hagkaups og Bónus á dögunum. Við þökkum af heilum hug fyrir allan þennan stuðning, hann skiptir spítalann máli og þar með þjóðina.

III.

Ríkissaksóknari hefur tilkynnt að höfða beri sakamál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur starfsmanni á gjörgæsludeild Landspítala og stofnuninni sjálfri. Ákæran kemur í kjölfar atviks sem varð haustið 2012 á gjörgæsludeild og leiddi til þess að sjúklingur lést. Hugur starfsfólks Landspítala er hjá aðstandendum enda missir þeirra mikill.

Mál þetta var nokkuð til umfjöllunar í fjölmiðlum á síðasta vetri og skapaðist í kjölfarið talsverð umræða um alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustunni og meðferð þeirra. Slík umræða er tiltölulega ný af nálinni á Íslandi en á sér lengri sögu í mörgum nágrannalöndum okkar.

Stuttu fyrir síðustu aldamót kom út skýrsla Institute of Medicine í Bandaríkjunum To Err is Human og segja má að hún hafi víða markað straumhvörf þar sem hún dró fram þá staðreynd, sem fæstir vildu vita af, að spítalar geta verið hættulegir. Það markast auðvitað af því hversu flókin og alvarleg veikindi sjúklinga eru og þeirri gríðarlega flóknu meðferð sem veitt er á sjúkrahúsum í dag. Þar kom fram að mistök í heilbrigðisþjónustu voru algengari en áður hafði verið talið. Rannsóknir sem gerðar hafa verið á slíkum mistökum ber allar að sama brunni: Nær alltaf þegar alvarlegir atburðir verða í flókinni heilbrigðisþjónustu verður það ekki vegna einstaks tilviks heldur vegna þess að nokkur mismunandi frávik raðast saman. Að auki geta mistök í heilbrigðisþjónustu haft alvarlegri afleiðingar en í flestum öðrum greinum enda hafa þau áhrif á líf og heilsu fólks.

Landspítali hefur undanfarin ár tilkynnt að jafnaði á milli 6 og 10 alvarleg atvik árlega til Landlæknis og lögreglu enda ber okkur skylda til þess samkvæmt lögum um dánarvottorð og krufningar 61/1998reglugerð 248/2001 og dreifibréfi Landlæknis 3/2005.  Sú tilkynningaskylda er nokkuð rík og gengur lengra en nágrannar okkar í Noregi gera svo dæmi séu tekin (http://www.helsetilsynet.no/upload/regelverk/rundskriv/2008/rundskriv_ik_2_2008.pdf  / http://www.helsetilsynet.no/upload/Publikasjoner/tilsynsmelding/2004/helsetilsynets_samarbeid_politi_p%C3%A5talemyndighet.pdf).
Mikilvægt er að til sé farvegur til að rannsaka alvarleg atvik í heilbrigðisþjónustu bæði innan stofnunar og ekki síður hjá óháðum ytri aðilum. Heilbrigðisstarfsmenn eiga ekki að vera undanþegnir lögum frekar en aðrir. Hins vegar verða slíkar rannsóknir að taka mið af því flókna umhverfi sem er til staðar á heilbrigðisstofnunum.  Í sumum nágrannalöndum okkar hefur verið brugðist við þessum veruleika með því að koma á nánara samstarfi heilbrigðisyfirvalda og lögreglu með það að markmiði að auka þekkingu og skilning á þeim flóknu aðstæðum og verkefnum sem unnin eru innan heilbrigðiskerfisins. Landspítali hefur kallað eftir því að slíkt verði skoðað hér á landi og hafa heilbrigðisyfirvöld tekið vel í þá málaleitan.

„Öruggur spítali“ er eitt gilda Landspítala og hefur undanfarin ár verið unnið markvisst að því að auka öryggi sjúklinga með opinni öryggismenningu þar sem opin umræða, markviss skráning atvika og úrvinnsla þeirra er einn lykilþátta. Á slíkri skráningu byggir möguleiki okkar til að fyrirbyggja að sambærileg atvik geti átt sér stað í framtíðinni. Það að segja frá sínum eigin mistökum eða annarra á að leiða til umbóta til handa sjúklingum en ekki til þess að hafin sé leit að sökudólgum. Í opinni öryggismenningu eiga heilbrigðisstarfsmenn að vera óhræddir við að skrá og upplýsa það sem aflaga fer og allt sem dregur úr vilja þeirra eða getu til þess er afturför. Í því ljósi er ofangreind ákæra bæði vonbrigði og vegferðinni að öruggum spítala talsvert áfall. Enda skapar hún mikla óvissu varðandi starf og starfsumhverfi íslenskra heilbrigðisstarfsmanna.

Þrátt fyrir þennan breytta veruleika og miklu óvissu eigum við sem íslenskir heilbrigðisstarfsmenn ekki annarra kosta völ en að sinna okkar verkefnum áfram af þeirri fagmennsku og umhyggju sem við höfum tamið okkur enda er líf og heilsa skjólstæðinga okkar í húfi. Jafnframt er mikilvægt að við kvikum ekki frá því að halda áfram innleiðingu öryggismenningar og stöðugum umbótum á starfseminni með öryggi sjúklinga að leiðarljósi. Það er sú leið sem þróuð heilbrigðiskerfi hafa valið og við munum ekki bregða af henni.

Hafið það gott um helgina, hvort heldur þið standið vaktina eða hlaðið batteríin!

Páll Matthíasson

pall_matthiasson_300913_4

Kiwanisklúbburinn Hekla gaf styrktarþjálfunartæki á Grensás

Félagsmenn í Kiwanisklúbbnum Heklu hafa í tilefni af 50 ára afmæli klúbbsins, fært sjúkraþjálfun á Grensási að gjöf styrktarþjálfunartæki. Um er að ræða HUR styrktarþjálfunartæki sem eru sérstaklega hönnuð með endurhæfingu í huga.
Gjafirnar voru afhentar 13. maí 2014. Gjöfin kemur í mjög góðar þarfir og bætir úr brýnni þörf við þjálfun sjúklinga deildarinnar.

styrktarthjalfunartaeki_kiwanis_hekla_grensas_2014 (1024x768)

Björgunarsveitir björguðu vélarvana skemmtibátum

Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út í gær vegna tveggja vélarvana skemmtibáta á sjónum rétt utan við Hrafnistu í Hafnarfirði. Var kallað út á fyrsta forgangi þar sem bátana rak nokkuð hratt í átt að landi.

Annar báturinn varð vélarvana og fékk hinn til að aðstoða sig en ekki vildi betur til en að sá fékk í skrúfuna. Þegar bátarnir áttu einungis um 40 m eftir upp í fjöru hrökk annar í gang og náði að sigla með hinn í togi lengra frá landi. Í þá mund kom björgunarbátur á staðinn og fylgdi hann bátunum til hafnar í Hafnarfirði.

Stefna Reykjavíkurborgar í málefnum utangarðsfólks

Reykjavíkurborg hefur gefið út stefnu í málefnum utangarðsfólks til ársins 2018.

Samkvæmt rannsókn frá árinu 2012 féllu 179 einstaklingar, þar af þriðjungur konur, undir skilgreiningu um heimilisleysi. Þar kom einnig fram að helstu ástæður heimilisleysis má rekja til áfengis- og vímuefnavanda eða um 62% og hjá 31.3% var orsökin geðræn vandamál.

Megináherslur í stefnu Reykjavíkurborgar eru á forvarnir og viðbrögð við stöðunni í málaflokknum. Kortleggja þarf þarfir utangarðsfólks og greina þjónustuþarfir hópsins m.a. hvað varðar húsnæðisúrræði auk þess sem lögð er áhersla á samstarf með ríki og sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Margir komu að gerð stefnunnar sem styðst við rannsóknir og umræðu við fulltrúa allra hlutaðeigandi samstarfsaðila í málaflokknum, s.s. fulltrúa Rauða krossins, velferðarráðuneytis, Lögreglunnar í Reykjavík, Hjálpræðishersins, Geðsviðs LSH, SÁÁ, Samhjálpar, Barnverndar Reykjavíkur, sérfræðinga og stjórnendur fjölmargra þjónustuúrræða á Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða og stjórnendur á skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.

Lækka þarf gjöld á innanlandsflug

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra svaraði í vikunnni skriflegum fyrirspurnum á Alþingi um gjöld á innanlandsflug og hvort gripið verði til aðgerða til að lækka þau. Fram kemur að ráðherra hafi ítrekað í ræðu og riti lýst þeirri skoðun að lækka þurfi opinber gjöld á innanlandsflug í hvaða formi sem er.

Í svari við fyrirspurn Haraldar Benediktssonar eru birtar tölur um verulegar hækkanir á farþegagjaldi, lendingargjöldum og leiðarflugsgjöldum á árunum 2009-2013 sem og fjölda farþega í innanlandsflugi á sama tímabili.

Í svari við fyrirspurn Silju Daggar Gunnarsdóttur um flugfargjöld innanlands kemur fram að innheimt þjónustu-  og notendagjöld í innanlandsflugi séu milli 6-20% af verði flugmiða. Vakin er athygli á að starfshópur ráðuneytisins sem nú sé að hefja störf muni kalla eftir upplýsingum um gjaldtöku, meðal annars um virðisaukaskatt og opinber gjöld á eldsneyti. Þess má vænta að starfshópurinn skili niðurstöðu sinni til ráðherra í haust og í framhaldinu verður í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið greint hvernig hið opinbera getur komið að því að lækka flugfargjöld innan lands.

Vinna hafin við afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum

Ríkisstjórnin samþykkti hefur samþykkt framhald vinnu við afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum.

Skýrsla sérfræðihóps um afnám verðtryggingar af neytendalánum var birt í lok janúar. Síðan þá hefur verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála haft tillögur meirihluta og minnihluta nefndarinnar til skoðunar. Í nýútkominni skýrslu verkefnastjórnar er lagt til að lán  húsnæðislánafélaga verði til framtíðar óverðtryggð, enda hafi nauðsynlegar kerfisbreytingar og mótvægisaðgerðir gert það kleift.

Í framhaldi af vinnu verkefnisstjórnarinnar verður nú hafist handa við að innleiða tillögur meirihluta sérfræðihópsins frá janúar sl. með hliðsjón af tillögum minnihluta sérfræðihópsins. Meirihluti sérfræðihópsins lagði til að frá og með 1. janúar 2015 yrðu stigin veigamikil skref í átt að fullu afnámi verðtryggingar nýrra neytendalána, en vinna við áætlun um fullt afnám yrði hafin eigi síðar en á árinu 2016 þegar reynsla yrði komin á þær breytingar sem hópurinn lagði til að gerðar yrðu í ársbyrjun 2015. Breytingarnar eru eftirfarandi:

  1. óheimilt verði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára,
  2. lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur í allt að 10 ár,
  3. takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána og
  4. hvatar auknir til töku og veitingar óverðtryggðra lána.

Í áliti minnihlutans er varpað ljósi á mótvægisaðgerðir sem grípa verði til í því skyni að afnema verðtryggingu. Í tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála eru lagðar til ýmsar breytingar sem koma til móts við álit minnihluta sérfræðihópsins og auðvelda afnám verðtryggingar á næstu árum. Í áliti minnihluta sérfræðihópsins er einnig bent á hættuna á ofmati á verðbólgumælingum vegna innbyggðrar skekkju, eða vísitölubjaga. Forsætisráðuneytið mun óska eftir skýrslu frá Hagstofu Íslands um vísitölubjaga og áhrif hans.

Næstu skref í vinnu við afnám verðtryggingar verða eftirfarandi:

  1. Fjármála- og efnahagsráðuneytið mun hafa umsjón með vinnu við að óheimilt verði að bjóða neytendum verðtryggð lán með jöfnum greiðslum til lengri tíma en 25 ára, að lágmarkstími nýrra verðtryggðra neytendalána verði lengdur í allt að 10 ár og að takmarkanir verði gerðar á veðsetningu vegna verðtryggðra íbúðalána. 
  2. Velferðarráðuneytið mun hafa umsjón, í framhaldi af skýrslu verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála, með aðgerðum til að auka hvata til töku og veitingar óverðtryggðra lána. 
  3. Forsætisráðuneytið mun skipa starfshóp um leiðir til að sporna gegn því að sjálfvirkar hækkanir á vöru og þjónustu og tenging ýmissa skammtímasamninga við vísitölu neysluverðs kyndi undir verðbólgu. d) Ráðherranefnd um úrlausnir í skuldamálum heimilanna mun skipa Verðtryggingarvakt til að tryggja samfellu í framgangi áætlunar um afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum.

Sýningin Meistarahendur opnar í Ásmundarsafni

Sýningin Meistarahendur verður opnuð í Ásmundarsafni laugardaginn 10. maí kl. 16. Þar gefur að líta verk sem spanna feril Ásmundar Sveinssonar og sýna vel þróunina sem varð á sýn hans í gegnum tíðina.

Meðal verka á sýningunni er sveinstykki Ásmundar, útskorinn stóll frá námsárum hans 1915-1919 hjá Ríkarði Jónssyni og höggmyndir sem hann gerði sem nemandi við sænska ríkisakademíið. Síðar komu stórbrotin meistaraverk sem lofsyngja íslenska alþýðu, sagnir og náttúru og loks er á sýningunni fjöldi abstraktverka sem listamaðurinn vann á síðustu áratugum ævi sinnar.

Ásmundur Sveinsson var á meðal frumkvöðla íslenskrar höggmyndalistar og sótti innblástur fyrst og fremst í íslenska náttúru, bókmenntir og til þjóðarinnar. Efnismikil, kröftug og stundum ógnandi verk hans eru lík þeim kynjamyndum sem oft má lesa úr íslenskri náttúru.  En þó myndefni Ásmundar hafi fyrst og fremst verið af þjóðlegum toga, tileinkaði hann sér engu að síður meginstrauma alþjóðlegrar listsköpunar eins og ekkert stæði honum nær og gaf henni um leið íslenskt yfirbragð – íslenskt inntak.

as-410-stor_1

Heimild: Reykjavik.is

 

Fjölmenningardagur í Reykjavík

Fjölmenningardagur Reykjavíkurborgar var haldinn hátíðlegur í dag laugardaginn10. maí.  Dagurinn er nú haldinn í sjötta sinn og má með sanni segja að hann hafi öðlast sess í hugum borgarbúa enda setur hátíðin skemmtilegan blæ á borgarlífið.

Gríðarlegur fjöldi fólks tók þátt í fjölþjóðlegu skrúðgöngunni í dag. Talið er að á bilinu 1500 – 2000 manns hafi tekið þátt og réði gleðin ríkjum, dansað, sungið og litadýrðin var mikil.

fjolmenning_11.05_62 fjolmenning_11.05_105

Myndir: www.reykjavik.is