Barnamenningarhátíð

Börn á öllu Íslandi eru boðin velkomin á Barnamenningarhátíð í Reykjavík dagana 29. apríl til 4. maí. Frítt er á alla viðburði Barnamenningarhátíðar og barnafjölskyldur um allt land hvattar til að koma og njóta viðburðanna.

Barnamenningarhátíð verður nú haldin í fjórða sinn og viðburðir verða víðsvegar um Reykjavík. Markmið hátíðarinnar er að efla menningarstarf barna og ungmenna í borginni. Gæði, fjölbreytni, jafnræði og gott aðgengi eru höfð að leiðarljósi við skipulagningu hátíðarinnar sem rúmar allar listgreinar og er byggð upp á fjölbreyttum viðburðum sem börn og fullorðnir í fylgd með börnum, geta sótt sér að kostnaðarlausu.

Barnamenningarhátíð í Reykjavík kveikir gleði, stuðlar að samveru og skapar góðar minningar. Dagskrá og nánari upplýsingar má finna á heimasíðu hátíðarinnar www.barnamenningarhatid.is

Matarsóun í brennidepli á Degi umhverfisins

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið stendur fyrir morgunverðarfundi um matarsóun undir yfirskriftinni „Hættum að henda mat“, á Degi umhverfisins, 25. apríl næstkomandi.

Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) áætlar að árlega fari 1,3 milljarðar tonna matvæla til spillis. Þetta er álíka mikill matur og framleiddur er árlega í Afríku sunnan Sahara eyðimerkurinnar.  Á sama tíma fer ein af hverjum sjö manneskjum í heiminum svöng að sofa og yfir 20 þúsund börn deyja daglega úr næringarskorti.

Þessar staðreyndir endurspegla verulegt ójafnvægi þegar kemur að lífsstíl fólks sem aftur hefur stórfelld áhrif á umhverfið, m.a. vegna losunar gróðurhúsalofttegunda, land- og vatnsnotkunar og ýmissar mengunar sem hlýst af matarframleiðslu.

Á fundinum verður fjallað um umfang, ástæður og afleiðingar matarsóunar, hvað stýrir okkur sem neytendum þegar kemur að kaupum á mat, hvernig nýta má betur hráefni við matvælaframleiðslu, hvernig draga má úr matarsóun í mötuneytum og þá vitundarvakningu sem hefur orðið meðal almennings og stjórnvalda varðandi þessi efni.

Sigurður Ingi Jóhannsson, umhverfis- og auðlindaráðherra ávarpar fundinn.

Morgunverðarfundurinn fer fram föstudaginn 25. apríl næstkomandi í Heklusal Hótel Sögu og hefst kl. 8:30 en áætlað er að honum verði lokið kl. 10:30. Fundurinn er öllum opinn.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Stýrihópur kannar mögulegar samgönguframkvæmdir með aðkomu einkaaðila

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra hefur skipað stýrihóp til að fara yfir hvaða  samgönguframkvæmdir kæmu til greina í samvinnu ríkis og einkaaðila. Formaður hópsins er Helga Valfells hagfræðingur og var fyrsti fundur haldinn í ráðuneytinu nýverið.

Innanríkisráðherra hefur að undanförnu farið yfir með hvaða hætti væri mögulegt að fjármagna ýmis brýn samgönguverkefni með öðru móti en beinum framlögum úr ríkissjóði. Ljóst er að um leið og minna fé hefur á síðustu árum verið veitt í stofnframkvæmdir í vegakerfinu fer þörfin sífellt vaxandi og því hefur verið ákveðið að kanna rækilega hvaða framkvæmdir unnt væri að ráðast í með samvinnu ríkis og einkaaðila, allt frá undirbúningi og hönnun og að rekstri og þjónustu við slík mannvirki.

Stýrihópnum hefur nú verið falið að fara yfir þau verkefni sem gætu fallið undir þetta fyrirkomulag og kanna fleiri kosti.

Stýrihópinn skipa auk Helgu þau Erlendur Magnússon, sjálfstætt starfandi, Jóhanna Harpa Árnadóttir, verkfræðingur, Karl Björnsson, framkvæmdastjóri og Þorsteinn Rúnar Hermannsson, verkfræðingur. Fyrir hópinn starfar Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu, og sérstakur fulltrúi ráðherra.

Heimild: www.innanrikisraduneyti.is

Boðuðu verkfalli Félags háskólakennara frestað til 12. maí

Boðuðu verkfalli Félags háskólakennara, sem standa átti dagana 25. apríl til 10. maí, hefur verið frestað til 12. maí og hefur Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, sent frá sér yfirlýsingu af því tilefni.

Þar segir: „Í framhaldi af ákvörðun Félags háskólakennara um að fresta boðuðu verkfalli dagana 25. apríl til 10. maí 2014, eftir viðræður við Samninganefnd ríkisins, vill rektor Háskóla Íslands taka eftirfarandi fram:

Afar mikilvægt er fyrir 14.000 nemendur Háskóla Íslands að ekki komi til verkfalls. Slíkt hefði ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér.

Á undanförnum árum hafa félagsmenn Félags háskólakennara tekið á sig launaskerðingu, aukna kennsluskyldu og aukið álag vegna mikillar fjölgunar nemenda. Háskóli Íslands mun koma til móts við óskir Félags háskólakennara eftir fremsta megni.

Samhliða því treystir Háskóli Íslands á stuðning stjórnvalda, sbr. yfirlýsingu í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar um Aldarafmælissjóð. Hún felur í sér að staðið verði við samning varðandi stefnumótun um fjármögnun Háskóla Íslands þannig að tekjur hans verði sambærilegar meðaltali framlaga OECD-þjóða til háskóla og síðar meir meðaltali framlaga háskóla á Norðurlöndum.“

Í orðsendingu frá kennslusviði Háskóla Íslands kemur enn fremur fram að áður auglýst próftafla standi óbreytt og hefjast próf því að óbreyttu 25. apríl.

37 verkefni styrkt úr Sprotasjóði skólaárið 2014-2015

Úthlutað hefur verið úr Sprotasjóði mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir skólaárið 2014-2015. Alls bárust 124 umsóknir til sjóðsins og var heildarfjárhæð umsókna rúmar 259 millj. kr. Veittir voru styrkir til 37 verkefna að fjárhæð tæplega 50. millj. kr.

Sprotasjóður er sameiginlegur fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla og er hlutverk sjóðsins að styðja við þróun og nýjungar í skólastarfi.

Áherslusvið sjóðsins voru að þessu sinni:

  • Árangursríkt læsi alla skólagönguna: Að skilja og nýta upplýsingar á fjölbreyttan hátt
  • Verklegir kennsluhættir á öllum námssviðum og mat á hæfni nemenda
  • Afburðanemendur

Stjórn sjóðsins, sem skipuð er fulltrúum frá Kennarasambandi Íslands, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samstarfsnefnd háskólastigsins og mennta- og menningarmálaráðuneyti, mat umsóknir og gerði tillögur til mennta- og menningarmálaráðherra um styrkveitingar. Ákveðið var, eins og áður sagði, að veita styrki til 37 verkefna að upphæð tæplega 50. millj. kr.

Nánari upplýsingar má finna hér.

Styrkirnir dreifðust með eftirfarandi hætti milli skólastiga og landshluta

Höfuðborg Reykjanes Suður-
land
Vestur-
land
Norður-
land
Austur-
land
Samtals Upphæð
Leikskólar 3 2 2 1 8 10.300.000
Grunnskólar 14 1 2 2 2 21 25.344.000
Framhaldsskólar 2 1 1 1 1 1 7 11.930.000
Þvert á skólastig 1 1 2.000.000
Samtals 37 49.574.000

Félag Grunnskólakennara kýs um verkfall eftir páskana

Samninganefnd Félags grunnskólakennara hefur falið kjörstjórn Kennarasambands Íslands að framkvæma allsherjaratkvæðagreiðslu meðal félagsmanna Kennarasambands Íslands í Félagi Grunnskólakennara er starfa hjá sveitarfélögum landsins um vinnustöðvun dagana 15., 21. og 27. maí 2014 til að stuðla að framgangi fyrirliggjandi krafna félagsins.

Kjörstjórn hefur ákveðið, samkvæmt tillögu Félags Grunnskólakennara, að atkvæðagreiðslan fari fram með rafrænum hætti og hefjist þriðjudaginn 22. apríl 2014, kl. 10.00 og ljúki mánudaginn 28. apríl 2014, kl. 16.00.