Forsetafrúin heimsótti snjóflóðanámskeið

Frú Dorrit Moussaieff forsetafrú heimsótti þátttakendur á snjóflóðanámskeiði Björgunarhundasveitar Íslands s.l. sunnudag.

Um er að ræða árlegt vetrarnámskeið sveitarinnar sem hófst þann 22. mars og stendur til 26. mars. Alls taka 23 hundar þátt ásamt þjálfurum sínum en á námskeiðinu eru hundarnir þjálfaðir og metnir til leitar í snjóflóðum.

Frú Dorrit og eiginmaður hennar, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands tóku þátt í æfingu en forsetafrúin er verndari sveitarinnar. Var frú Dorrit meðal annars grafin í fönn og tók Sámur, hundur þeirra hjóna þátt í að leita að eiganda sínum undir dyggri stjórn forsetans.

Forsetahjónin vörðu drjúgum hluta dagsins á námskeiðinu og tóku virkan þátt í því sem fram fór. Var þeim svo boðið í kvöldverð þar sem forsetafrúin tók formlega við starfi verndara sveitarinnar. Sámur ber nú stoltur merki Björgunarhundasveitar Íslands og er verðugur  fulltrúi ferfætlinga í sveitinni.

Hraðakstur í Stekkjarbakka

Brot 139 ökumanna voru mynduð í Stekkjarbakka í Reykjavík í dag, en Lögreglan var með eftirlit á svæðinu. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Stekkjarbakka í vesturátt, við Vatnsveituveg. Á einni klukkustund, fyrir hádegi, fóru 438 ökutæki þessa akstursleið og því ók tæplega þriðjungur ökumanna, eða 32%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 64 km/klst en þarna er 50 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 86. 

Vöktun lögreglunnar í Stekkjarbakka er liður í umferðareftirliti hennar á höfuðborgarsvæðinu.

Móðgandi tilboð Ríksins til kennara

Staðan í samningaviðræðum FF og FS við ríkið er í hnút og ekki hefur gengið að semja.

Tilboð ríkisins sem var lagt fram þann 26. mars var verra en tilboð frá 12. mars síðastliðnum.  Samninganefnd Félags Framhaldsskólakennara segja þetta tilboð hreina móðgun.  Mikið þurfa að koma til eigi verkfallið að leysast á næstunni.

Félagsmiðstöðvar úr Reykjavík sterkar á Samfési

SamFestingurinn er ball og söngvakeppni sem Samfés heldur árlega fyrir unglinga en sú keppni var haldin um síðustu helgi í Laugardalshöll.  Um 4,500 unglingar úr félagsmiðstöðvum alls staðar af landinu voru mættir til að skemmta sér. Á föstudagskvöldið var stórt ball þar sem var mikið dansað, spjallað og hlustað á flotta tónlist þar sem Páll Óskar endaði kvöldið með stæl.

Alls tóku 30 atriði þátt í Söngkeppninni Samfés úr félagsmiðstöðvum víðs vegar af landinu. Þar stóðu unglingar úr Reykjavík sig vel og voru í þremur  efstu sætunum.

Tilraunverkefnið Menntun núna í Gerðubergi

Jón Gnarr, borgarstjóri og Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra skrifuðu í gær undir samstarfssamning um tilraunaverkefnið Menntun núna í Menningarmiðstöðinni Gerðubergi.

Menntun núna er tilraunaverkefni menntamálaráðuneytisins, Reykjavíkurborgar og aðila vinnumarkaðarins.  Meginmarkmið verkefnisins er að auðvelda fólki á aldrinum 18-54 ára, sem ekki hefur lokið námi á framhaldsskólastigi, að hefja nám að nýju og að styrkja aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi.

Verkefnið er staðsett í Gerðubergi, þar sem ætlunin er m.a. að bjóða upp á:

  • Ráðgjöf: Náms- og starfsráðgjöf, fjárhags- og félagsráðgjöf og ráðgjöf varðandi stöðupróf í íslensku og umsókn um ríkisborgararétt.
  • Nám og námsstuðning: Fræðsla á fimmtudögum. Námsbrautir, íslenskunám og samfélagsfræðsla frá Mími.  Námshópar og stuðningskennsla fyrir þátttakendur.
  • Raunfærnimat og mat á námi og starfsreynslu til styttingar framhaldsskólanáms.

Nánari upplýsingar um skráningu hér.

Verkfall framhaldsskólakennara hefst á mánudaginn

Verkfall framhaldsskólakennara hefst að óbreyttu á mánudaginn næstkomandi ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma.  Fundað verður daglega hjá ríkissáttasemjara fram að þessum tíma en lítið miðar í viðræðum.

Í kjarasamingum stendur að laun kennara eigi að þróast í samræmi við laun samanburðahópa en það hefur ekki gengið eftir.

Hraðakstur á Sæbraut

Brot 11 ökumanna voru mynduð af Lögreglunni á Sæbraut í Reykjavík á föstudaginn sl. Fylgst var með ökutækjum sem var ekið Sæbraut í suðurátt, á móts við Dugguvog 2. Á einni klukkustund, eftir hádegi, fóru 767 ökutæki þessa akstursleið og því óku sárafáir ökumenn, eða 1%, of hratt eða yfir afskiptahraða. Meðalhraði hinna brotlegu var 71 km/klst en þarna er 60 km hámarkshraði. Sá sem hraðast ók mældist á 74.

Vöktun lögreglunnar á Sæbraut er liður í umferðareftirliti hennar á höfuðborgarsvæðinu.

Námskeið fyrir aðstandendur fólks með átröskun

Fræðslunámskeið fyrir aðstandendur fólks með átröskun verður haldið á Hvítabandinu við Skólavörðustíg, 3. hæð í húsnæði átröskunardeildar, í mars og apríl 2014.

Námskeiðið hefst 19. mars.  Það er haldið í 4 skipti, einu sinni í viku  á miðvikudögum frá 16:30-18:00.

Námskeiðshaldarar eru Helga Þórðardóttir, félagsráðgjafi og fjölskylduþerapisti og Birna Matthíasdóttir, listmeðferðarfræðingur en þær eru báðar starfandi í átröskunarteymi Landspítala.

Skipulag námskeiðs:

  • Áhersla verður lögð á ákveðið fræðsluefni í öll 4 skiptin.
  • Byrjað verður með innlegg/fræðslu, um það bil 30 mínútur, síðan verður skipt í vinnuhópa.
  • Í lokin eru svo umræður.

Áhersluþættir í fræðslu:

  •   Fræðsla um átröskun og áhrif sjúkdómsins á einstaklinginn, áherslur í meðferð á dag- og göngudeild.
  •   Mikilvægi fjölskyldunnar og áhrif sjúkdómsins á hana
  •   Tilfinningar og hjálparleysi okkar aðstandenda
  •   Hvað er til ráða, hvað getum við gert öðruvísi

Skráning fer fram hjá á póstfanginu atroskun@landspitali.is og í síma 543-4600 fyrir hádegi.

Hverfakosningar hefjast í næstu viku

Rafrænar hverfakosningar um ný framkvæmdaverkefni í hverfum Reykjavíkur hefjast á miðnætti þriðjudaginn 11. mars. næstkomandi. Opið verður fyrir atkvæðagreiðslu til miðnættis þriðjudaginn 18. mars.

Þetta er í þriðja sinn sem íbúum í Reykjavík gefst kostur á að kjósa um verkefni í hverfunum sínum í rafrænum kosningum með dulkóðuðum auðkennum. Kosningarnar eru með sama sniði og síðustu tvö ár. Farið er á vefslóðina http://www.kjosa.betrireykjavik.is.

Kosningarétt hafa allir sem voru orðnir 16 ára um síðustu áramót og eru niðurstöðurnar bindandi. Á síðustu tveimur árum hafa íbúar í Reykjavík kosið yfir 200 verkefni til framkvæmda í hverfum borgarinnar, sem Reykjavíkurborg hefur framkvæmt eða eru á undirbúningsstigi.

Í ár verður 300 milljónum varið til nýrra verkefna í hverfunum sem íbúar forgangsraða í kosningunum. Auglýst var eftir hugmyndum frá íbúum í nóvember á síðasta ári og bárust yfir 400 hugmyndir sem hverfisráð og fagteymi á vegum borgarinnar fóru yfir.

Þjóðbúningadagur á Þjóðminjasafni Íslands

Gestir eru hvattir til að mæta á þjóðbúningi á Þjóðminjasafn Íslands til að sýna sig og sjá aðra en gestir í þjóðbúningi fá ókeypis aðgang þann 9. mars næstkomandi.  Þetta er kjörið tækifæri fyrir þá sem eiga búning að nota hann og jafnframt fyrir alla sem eru áhugasamir um íslenska þjóðbúninga að koma og sjá fjölbreytni þeirra. Mögulegt verður að fá aðstoð við uppsetningu höfuðbúnaðs á safninu.

Að þjóðbúningadeginum standa Þjóðminjasafn Íslands, Heimilisiðnaðarfélag Íslands, Þjóðbúningaráð og Þjóðdansafélagið.

Thjodbuningadagur

Öskudagsráðstefna – já kennari

Hátt í sex hundruð grunnskólakennarar hafa skráð sig á ráðstefnuna Já, kennari sem haldin verður á öskudag, miðvikudaginn 5. mars.

Ráðstefnan er haldin í samstarfi  Skólastjórafélags Íslands, Kennarafélags Reykjavíkur og skóla-og frístundasviðs Reykjavíkur og er stærsti fagvettvangur grunnskólakennara á landinu.

Aðalfyrirlesari er Hans Henrik Knoop, dósent í sálfræði menntunar við kennarasvið Árósarháskóla og forseti European Network for Positive Psychology.  Hann mun í erindi sínu fjalla um mikilvægi þess að allir nái að blómstra í skólastarfi, hvort heldur kennarar eða nemendur.

Ráðstefnugestir geta valið um fimm málstofur þar sem starf kennara og áhersluþættir verða ræddir úr frá ýmsum sjónarhornum, s.s. rannsóknum á læsi, starfendarannsóknum, leiðtogahlutverkinu, útikennslu með notkun kennsluapps og jákvæðri sálfræði. Dönsku hjónin Bo Krüger og Marianne Boye munu stýri málstofu um leiðtogahlutverk kennarans en þau hafa starfað með fjölmörgum skólum í Danmörku.

Ráðstefnan verður haldin á Hilton Reykjavík Nordica  og hefst kl. 13.

Fyrirlestur um leiðtogastjórnum á neyðartímum hjá Rauðakrossinum

Rauði krossinn býður til fyrirlesturs um mikilvægi leiðtogastjórnunar á neyðartímum, fimmtudaginn 6. mars, kl. 8.30 – 9.30 í húsi Rauða krossins að Efstaleiti 9.

Fyrirlesari er Gísli Ólafsson, höfundur bókarinnar “The Crisis Leader”.

Í fyrirlestrinum mun Gísli fjalla um mikilvægi þess að undirbúa sig andlega og líkamlega, hvernig byggja má upp teymi sem þolir álag, ákvörðunartöku undir álagi, meðhöndlun streitu og áfallahjálpar og hvað leiðtogar þurfa að hafa í huga þegar allt virðist vonlaust í kringum þá. Gísli notar dæmi úr starfi sínu á hamfarasvæðum og úr íslenskum veruleika, t.a.m. úr efnahagshruninu.

Árleg kristniboðsvika í Reykjavík hafin

Árleg kristniboðsvika í Reykjavík hófst á sunnudaginn síðastliðinn. Markmið hennar er að kynna starf Kristniboðssambandsins og hvetja fólk til dáða, fyrirbænar og stuðnings við það. Sérstakur gestur vikunnar verður Martin Hickey, fjölmiðlafulltrúi kristilegu og samkirkjulegu sjónvarpsstöðvarinnar Sat7 sem hefur bækistöðvar á Kýpur og sendir út á fjórum rásum til Norður-Afríku og Mið-Austurlanda. Sérstök yfirskrift vikunnar er „Upp á líf og dauða.“

Á samkomunni þriðjudaginn 4. mars sem haldin verður í húsi KFUM og KFUK við Holtaveg mun Agnes M. Sigurðardóttir biskup segja frá heimsókn sinni á slóðir kristniboða í Kenía í fyrra og Karl Sigurbjörnsson biskup flytja hugvekju. Hljómsveitin Sálmari sér um söng og tónlist en Áslaug Haraldsdóttir háskólanemi flytur upphafsorð. Allir eru hjartanlega velkomnir á allar samverur vikunnar.

Alla dagskránna má finna hér.