Hátt í tuttugu farsímum var stolið af gestum skemmtistaða í miðborginni um síðustu helgi, og því vill lögreglan ítreka þau varnaðarorð sín til gesta á skemmtistöðum að vera alveg sérstaklega á varðbergi hvað þetta snertir. Fólk er jafnframt hvatt til hafa handtöskur lokaðar og geyma ekki síma sína á borðum eða glámbekk þar sem óprúttnir aðilar geta nálgast þá. Lögreglan hvetur einnig veitingamenn til að halda vöku sinni, gera viðeigandi ráðstafanir ef grunur vaknar um óvandaða aðila á ferð og stuðla þannig að fækkun þessara þjófnaða. Þetta kemur fram á Fésbókarsíðu Lögreglunnar.
Í áðurnefndum málum um síðustu helgi voru það allt konur, sem urðu fyrir barðinu á farsímaþjófum, en hvort um tilviljun var að ræða skal ósagt látið. Farsímaþjófnuðum hefur annars fækkað í miðborg Reykjavíkur á þessu ári í samanburði við sama tímabil árið 2013. Á síðasta ári hafði farsímaþjófnuðum hins vegar fjölgað mjög mikið í miðborginni frá árinu 2010, eða úr 88 í 384 árið 2013. Margir þessara þjófnaða áttu sér stað á skemmtistöðum í miðborginni, en það sem af er árinu 2014 hafa lögreglu borist rúmlega 200 tilkynningar um farsímaþjófnaði á þessu svæði. Áfram stefnir því í fækkun þessara brota á milli ára, en farsímaþjófnaðir síðustu helgar sýna hins vegar að fólk verður stöðugt að halda vöku sinni.
Hvað verður um hina stolnu farsíma, sem og annað þýfi yfirleitt, er svo annað mál, en ætla má að þeir séu m.a. seldir á netinu og því ættu kaupendur varnings á þeim vettvangi að hafa varan á. Þótt mörgum finnist erfitt að ganga úr skugga um að hlutur sé ekki illa fengin er samt ýmislegt hægt að gera. Biðja má um kvittun frá upphaflegum kaupum, t.d. með þeim formerkjum að kanna hvort hluturinn sé í ábyrgð. Ef keypt eru notuð raftæki skal athugað hvort réttir fylgihlutir séu sannarlega til staðar, þ.e. snúrur, leiðbeiningarbæklingar, hleðslutæki o.s.frv
Aðrar fréttir
Frábær aðsókn að nýju grunnnámi í blaðamennsku við Háskóla Íslands
Erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi 1. júlí 2024
Tómas Brynjólfsson skipaður varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika