22/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

185 íbúðir byggðar í öðrum áfanga Bryggjuhverfis

185 íbúðir verða byggðar í öðrum áfanga Bryggjuhverfis við Tanga- og Naustabryggju en borgarráð hefur ákveðið að setja deiliskipulag fyrir reitinn í auglýsingu.

Borgarráð hefur samþykkt að setja breytt deiliskipulag fyrir annan áfanga Bryggjuhverfis í auglýsingu. Samkvæmt tillögu að deiliskipulagi fyrir Tangabryggju og Naustabryggju munu 185 íbúðir rísa á reitnum. Íbúðir á reitnum verða aðeins fleiri og smærri en áætlað var í fyrra deiliskipulagi frá 2010.

Stjórn Faxaflóahafna  hefur ákveðið að gefa fyrirtækinu Björgun tvö ár til að rýma athafnasvæði sitt við Sævarhöfða en lóðarleigusamningur fyrirtækisins rann út árið 2009. Þegar  starfsemi Björgunar hverfur af svæðinu verður unnt að hefjast handa við uppbyggingu þriðja áfanga svæðisins. Samkvæmt aðalskipulagi Reykjavíkur munu um 3.600 íbúðir rísa við Elliðavog og er áframhaldandi uppbygging Bryggjuhverfisins hluti af því.