09/09/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

180 þús erlendir ferðamenn í júlí mánuði

Um 180 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í júlí síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 36 þúsund fleiri en í júlí á síðasta ári. Aukningin nemur 25% milli ára.

Það sem af er ári hefur mælst aukning milli ára alla mánuði eða 34,5% í janúar, 34,4% í febrúar, 26,8% í mars, 20,9% í apríl, 36,4% í maí og 24,2% í júní.

Um 70% ferðamanna í júlí síðastliðnum voru af tíu þjóðernum. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða 20,6% af heildarfjölda en næstir komu Þjóðverjar (11,1%) og Bretar (8,6%). Þar á eftir fylgdu síðan Frakkar (6,7%), Danir (4,7%), Kínverjar (4,1%), Kanadamenn (3,9%), Svisslendingar (3,6%), Svíar (3,4%) og Norðmenn (3,4%).

Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Kínverjum, Bretum, Þjóðverjum og Kanadamönnum mest milli ára í júlí en 14.237 fleiri Bandaríkjamenn komu í júlí í ár en í fyrra, 3.171 fleiri Kínverjar, 2.960 fleiri Bretar, 1.988 fleiri Þjóðverjar og 1.741 fleiri Kanadamenn. Þessar fimm þjóðir báru uppi 66,8% aukningu ferðamanna í júlí.
Nokkrum þjóðum fækkaði hins vegar í júlí ár frá því í fyrra. Þannig fækkaði Rússum um 40,2% og Norðurlandaþjóðunum um 5,5%.

Það sem af er ári hafa 697.716 erlendir ferðamenn farið frá landinu eða 151.363 fleiri en á sama tíma í fyrra. Um er að ræða 27,7% aukningu milli ára. Veruleg aukning hefur verið frá flestum mörkuðum nema Norðurlöndunum sem hafa staðið í stað. Aukningin hefur verið 44,4% frá N-Ameríku, 27,5% frá Bretlandi, 21,0% frá Mið- og S-Evrópu, og 40,9% frá öðrum löndum.

Um 44 þúsund Íslendingar fóru utan í júlí síðastliðnum eða um fimm þúsund fleiri en í júlí árið 2014. Frá áramótum hafa 253.194 Íslendingar farið utan eða 28.700 fleiri en á sama tímabili árið 2014.

Heimild: ferdamalastofa.is

juli_02_15