21/06/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

100 ár frá spænsku veikinni á næsta ári

Á næsta ári eru 100 ár liðin frá því að spænska veikin lagði mörg hundruð manns að velli í Reykjavík og nágrenni. Um var að ræða afar skæðan inflúensufaraldur sem gekk yfir heiminn á árunum 1918-1919. Borgarráð hefur samþykkt tillögu borgarstjóra að sett verði í gang hugmyndavinna um það hvernig minnast skuli tímamótanna og þeirra sem létust í þessum skæða faraldri.

Þess má geta að rithöfundurinn Gerður Kristný kom hugmyndinni á framfæri við borgarstjóra um að minnast þess að öld er liðin frá því að hin mannskæða farsótt geisaði í Reykjavík.

Hefja skal undirbúning að viðburðum, sögulegum merkingum og öðru sambærilegu til að varpa ljósi á og minnast tímamótanna. Leita skal samstarfs við aðra aðila eftir atvikum.

Spænska veikin er mannskæðasti inflúensufaraldur sögunnar og létust um 25 milljónir manna að minnsta kosti í heiminum öllum. Veikin er talin hafa borist hingað til lands með skipunum Botníu frá Kaupmannahöfn og Willemoes frá Bandaríkjunum 19. október 1918, sama dag og fullveldi Íslands var samþykkt.

Fljótlega fór fólk að veikjast og í byrjun nóvember var faraldurinn kominn verulega á skrið og fyrsta dauðsfallið skráð. Miðvikudaginn 6. nóvember er talið að þriðjungur Reykvíkinga hafi legið sjúkur og fimm dögum síðar voru tveir þriðju íbúa höfuðborgarinnar rúmfastir. Sérstök hjúkrunarnefnd var skipuð í Reykjavík 9. nóvember. Borginni var skipt í þrettán hverfi og gengið var í hús. Aðkoman var víða hroðaleg.

Samkvæmt opinberum tölum létust alls 484 Íslendingar úr spænsku veikinni. Veikin kom þyngst niður á Reykvíkingum, þar sem 258 létust, en með ströngum sóttvörnum og einangrun manna og hluta sem grunaðir voru um að geta borið smit tókst að verja algerlega Norður- og Austurland. Framangreindar upplýsingar eru sóttar af Vísindavef Háskóla Íslands og úr bókinni Ísland í aldanna rás.

Öll tiltæk lyf sem hjálpað gátu við lungnabólgu og hitasótt, sem voru fylgifiskar veikinnar, kláruðust umsvifalaust. Læknar unnu myrkranna á milli og læknanemar fengu bráðabirgðaskírteini til að sinna smituðum. Allt athafnalíf í Reykjavík lamaðist. Flestar verslanir lokuðust og 6. nóvember hættu blöð að koma út vegna veikinda starfsmanna. Samband við útlönd féll niður því allir starfsmenn Landsímahússins utan einn veiktust. Messufall varð og sorphirða og hreinsun útisalerna féll niður. Erfitt var að anna líkflutningum og koma varð upp bráðabirgða líkhúsum. Brugðið var á það ráð að jarðsetja fólk í fjöldagrafreitum 20. nóvember í Hólavallagarði við Suðurgötu og hvíla sumir enn í ómerktum gröfum.