03/10/2024

Reykvíkingur

Reykjavíkurfréttir

10 teymi valin í Startup Tourism

Tíu teymi voru valin úr hópi 74 viðskiptahugmynda til að taka þátt í viðskiptahraðlinum Startup Tourism sem hefst í byrjun febrúar. Startup Tourism hraðallinn er haldinn á vegum Icelandic Startups sem hét áður Klak Innovit.

Markmiðið með hraðlinum er að efla frumkvöðlastarf innan ferðaþjónustunnar á Íslandi og stuðla að faglegri undirstöðu hjá nýjum fyrirtækjum. Einnig er sérstök áhersla á að huga að aukinni dreifingu ferðamanna um landið.

Næstu tíu vikurnar munu teymin tíu sækja námskeið og fá fræðslu og þjálfun í stofnun fyrirtækja og rekstri. Að námskeiðunum koma sérfræðingar og lykilaðilar í ferðaþjónustunni og hjálpa sprotafyrirtækjunum að fóta sig og átta sig á tækifærum og rekstrargrundvelli hugmynda sinna.

 

Sprotafyrirtækin sem valin voru til þátttöku eru:

  • Adventurehorse Extreme sem ætlar að skipuleggja krefjandi kappreið um landið fyrir reynda knapa.
  • Arctic Trip vill standa fyrir nýstárlegri ferðaþjónustu á og í kringum Grímsey.
  • Bergrisi er að hanna hugbúnaðar- og tæknilausn fyrir þjónustusala svo gera meigi bæði sölu- og afgreiðsluferlið sjálfvirkara.
  • Book Iceland er fyrirtæki utan um bókunarkerfi fyrir gistiheimili og smærri hótel.
  • Happyworld ætlar að nýta rokið til að bjóða upp á svifíþróttaferðir.
  • Health and Wellness býður upp á heilsutengda ferðaþjónustu um Vesturland þar sem hlúð er að líkama og sál.
  • Jaðarmiðlun ætlar að kynna álfa og huldufólk á tímamótasýningu sem byggð er á íslenskum sagnaarfi.
  • Náttúrukúlur bjóða ferðamönnum upp á gistingu í glærum kúlum þar sem hægt er að upplifa náttúruna og skoða stjörnur og norðurljós.